Lánsfjárlög 1994

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 12:19:34 (3134)


[12:19]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er mikið af pappírum sem dengist yfir okkur alþingismenn þessa dagana og getur stundum verið erfitt að finna út úr því hvað á við í hverju máli. Ég ætla aðeins að fjalla hér um lánsfjárlögin eins og þau liggja nú fyrir þegar hafin er 2. umr. um málið og það skýrist auðvitað með hverri klukkustundinni sem líður hvernig staðan er í ríkisfjármálunum.
    Rétt í þessu var verið að ganga frá frv. um skattalög eftir 2. umr., sem felur reyndar í sér að tekjur ríkisins minnka og hallinn eykst á ríkissjóði. En ég vil minna hæstv. fjmrh. á að enn er tækifæri til að styðja tekjuöflunartillögur sem munu verða lagðar fram við 3. umr. Þannig að það má enn laga hallann. Og ég minni á það að ríkisstjórnin stóð ekki við þann hluta kjarasamninganna sem áttu að verða til kjarajöfnunar, þ.e. fjármagnstekjuskattinn og ýmsar aðrar leiðir sem átti að fara til tekjuöflunar og niðurstaðan er auðvitað sú að hallinn á ríkissjóði eykst. Hins vegar hafa verið teikn á lofti um það að staðan sé heldur skárri en menn höfðu reiknað með. Þjóðhagshorfur hafa heldur batnað þó að, eins og kom fram í máli Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Þjóðhagsstofnunar, það ár sem fram undan er verði væntanlega það erfiðasta í þessum efnahagssamdrætti sem við höfum verið að glíma við nú um nokkurra ára skeið. En ég vil setja allan fyrirvara við þær fullyrðingar að hagvöxtur muni fara að aukast aftur eftir tvö ár og ég hef það aðallega fyrir mér í því að samkvæmt því sem ég hef verið að lesa um efnahagsmál úti í Evrópu og heyrt hjá Evrópuráðinu, þá eru menn ekki mjög bjartsýnir á hagvöxt þar. Þvert á móti fer atvinnuleysi stöðugt vaxandi og innri markaður Evrópubandalagsins hefur hreint ekki skilað þeim hagvexti sem menn ætluðust til, enda er ljóst að þar eru aðrir kraftar á ferð. Það er samdráttur í heiminum. Atvinnulífið er að ganga í gegnum miklar tæknibreytingar. Austurlönd eru að sækja mjög inn á markaðina. Og það sem vakti mikla athygli mína þegar ég var í Bandaríkjunum nýverið að nánast alls staðar þar sem maður kom og það gilti ekki síst um fataverslanir, var að það sem þar var á boðstólum var nánast allt framleitt í Asíu, Kína, Hong Kong og Kóreu. Bandaríkjamenn hafa verið að flytja mikla vinnu út úr landinu.
    Hið sama gildir um Evrópu. Menn eru að reyna að ná niður vöruverði með því að flytja framleiðsluna þangað sem vinnuaflið er ódýrara, en það hefur auðvitað í för með sér atvinnuleysi og samdrátt. Þannig að þessi heimsviðskipti hanga auðvitað saman og ég vara við því að menn fari að ímynda sér að það sé einhver mikil birta fram undan og það veltur ekki síst á því að við vitum auðvitað ekki hvernig afli mun þróast eða hvort og hvernig verður hægt að halda áfram þeim úthafsveiðum sem vissulega hafa fært okkur björg í bú á þessu ári. Þannig að það er ýmislegt óljóst varðandi framtíðina og menn ættu auðvitað að fara varlega í það að búast við einhverju góðæri.
    Þær tölur sem við erum að fást við hér, í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1994, sýna ljóslega hversu gífurlega háar fjárhæðir það eru sem verið er að taka að láni eða ábyrgjast og spegla auðvitað ástand ríkissjóðs og þann mikla halla sem búist er við á næsta ári og mun að öllum líkindum verða heldur meiri en þessir 10 milljarðar sem talan stendur í núna. Og ég verð að segja það hér að þó að margt megi bæta og auðvitað má laga þessa stöðu mjög mikið, er það orðið ógnvænlegt þegar þriðja hver króna sem við öflum í gjaldeyristekjum fer í það að borga skuldir. Þetta er orðin mjög alvarleg staða og hún fer því miður versnandi. Þó að menn segi að það hafi hægt á skuldasöfnuninni, þá er hún samt alveg gífurleg og við þetta munum við verða að kljást á næstu árum. Og þegar skuldirnar eru svona miklar, þá bitnar það auðvitað á velferðarkerfinu og það bitnar á þeirri uppbyggingu sem við vildum svo gjarnan sjá hér í okkar þjóðfélagi. En spurningin er auðvitað: Hvernig á að taka á þessu?
    Mín skoðun er sú að ríkisstjórnin hafi farið þar mjög illa að ráði sínu. Hún hefur létt sköttum af atvinnulífinu á alla línuna, hvort sem fyrirtækin hafi staðið vel eða illa og velt byrðunum yfir á herðar alls almennings. Hún hefur aukið mjög skattheimtu, hún hefur aukið skattheimtu á allan almenning. Hæstv. fjmrh. neitar því statt og stöðugt að hann hafi þyngt skattbyrðina, en hann hefur vissulega þyngt skattbyrðina á almenningi meðan létt hefur verið af fyrirtækjunum. Og þegar skattbyrðin þyngist með þessum hætti á öllu launafólki veldur það auðvitað auknum samdrætti.
    En hið alvarlega í þessu máli er annars vegar að ekki skuli hafa verið farið í vasana hjá þeim sem hafa fjármagn, til fjármagnseigenda og til hálaunahópanna í samfélaginu og hins vegar sú hlið sem snýr að útgjöldum ríkisins. Þar hafa vinnubrögðin náttúrlega verið með þvílíkum ólíkindum að það er hörmungarsaga sem við þurfum ekki að rifja upp hér. Ég er alveg sannfærð um og vildi gjarnan fá tækifæri til að ræða það betur við hæstv. fjmrh., að ef menn ætla að ná tökum á útgjöldum ríkisins og draga úr þeim þar sem það er hægt og þarf að gera, þá þarf að fara út í kerfisbreytingar. Það er ekki hægt öðruvísi en með kerfisbreytingu og mjög breyttum áherslum. En ég fæ ekki séð að þessi ríkisstjórn hafi gert neitt slíkt. Hún hefur verið að reyna að losa sig við einstaka fyrirtæki sem ríkið hefur verið eigandi að eða átt hlut í, svona með mismunandi árangri, en einhver tilraun til kerfisbreytinga hefur ekki litið dagsins ljós.
    Það er auðvitað verkefni framtíðarinar að fara út í þær kerfisbreytingar svo hægt sé að draga úr

útgjöldum ríkissjóðs og að breyta áherslum þannig að við leggjum t.d. aukna áherslu á menntamál sem síðan munu skila sér í aukinni nýsköpun og tilraunum og vísindastarfsemi og jafnframt að gera heilbrigðiskerfið þannig úr garði að það sinni forvörnum í miklu ríkara mæli en nú er gert og veiti öllum landsmönnum nauðsynlega þjónustu. Útgjöld til menntamála hafa staðið nokkuð í stað sem hlutföll af ríkisútgjöldum, en það er vissulega mikil þensla í heilbrigðis- og tryggingakerfinu og það vill nú þannig til að ástand eins og það sem við höfum búið við, t.d. undanfarin tvö ár, ýtir mjög undir aukinn kostnað í heilbrigðis- og tryggingakerfinu. Slæm líðan þjóðarinnar, bæði líkamleg og andleg, leiðir af sér meiri kostnað í heilbrigðiskerfinu. Ég er alveg sannfærð um að til þess að koma einhverjum böndum á ríkisútgjöldin þá verða miklar kerfisbreytingar að eiga sér stað.
    Milli 1. og 2. umr. hefur orðið örlítil lækkun á lánsfjárþörf ríkissjóðs. Það er ekki mikið, enda hafa nýir liðir komið þarna inn í. En talan stendur núna, samkvæmt brtt., í 27 milljörðum 750 millj. kr. og þetta er auðvitað gríðarlega há tala. Það sem vekur nú kannski einna mesta athygli er lækkun til Lánasjóðs íslenskra námsmanna og jafnframt liggur hér fyrir þinginu brtt. frá meiri hluta fjárln. um lækkun á framlagi ríkisins til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Þetta eru afar athyglisverðar upplýsingar sem auðvitað spegla það að lánþegum hefur fækkað verulega. Lánþegum Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur fækkað verulega.
    Við fengum nýlega sendan bækling frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis sem m.a. sýnir að námsmönnum í námi erlendis hefur fækkað. Þannig að ein af afleiðingunum þeirra breytinga sem gerðar voru á lögunum vorið 1992 er sú að námsmenn hætta við að fara í nám til útlanda. Þetta er ekki mikil fækkun vegna þess að auðvitað reyna þeir að klára sitt nám sem komnir eru út, en það er fækkun samt og það er mikil fækkun á lánþegum hér innan lands. Konur eru allverulegur hluti þess hóps. En það er afar merkilegt og forvitnilegt að fá að vita hvernig þeir námsmenn sem ekki taka lán, sem ýmist treysta sér ekki til að taka lán eða sýna svo mikla fyrirhyggju að hugsa sem svo að þeir geti engan veginn staðið undir þessu í framtíðinni, hvernig fjármagna þeir sitt nám? Það er hlutur sem mér leikur mikill hugur á að vita. En í lánsfjárlögunum kemur þessi samdráttur fram og eflaust, eins og við sögðum hér í umræðunum, mátti ýmsu breyta í lögunum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, en ég óttast að ein af afleiðingunum sé sú að fjöldi nemenda verði að freista þess að vinna með námi sínu og verði þar af leiðandi lengur að ljúka því. Það hefur auðvitað í för með sér aukinn kostnað fyrir skólana, sérstaklega á háskólastigi þar sem um er að ræða námskeið sem menn verða þá að fresta milli ára.
    Það kom fram á fundi í efh.- og viðskn. að ekki er allt sem sýnist hjá Byggðastofnun og þar eru ýmsar tilfærslur og það tengist auðvitað því máli hvert hlutverk Byggðastofnunar á að verða í framtíðinni. Það hafa ekki enn þá litið dagsins ljós neinar tillögur um breytingar á hlutverki stofnunarinnar. En það hlýtur að liggja í augum uppi að með tilkomu þróunarsjóðs sjávarútvegsins, ef hann verður samþykktur, að þá mun það auðvitað hafa áhrif á starfsemi Byggðastofnunar. Og ég vildi nú beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh.: Hvar er sú vinna á vegi stödd eða hvaða hugmyndir hefur ríkisstjórnin um hlutverk Byggðastofnunar? Ég hef áður beint þessari spurningu til forsrh. en það hefur verið lítið um svör. ( Fjmrh.: Endurtaka.) Hvaða hugmyndir eru uppi um framtíð Byggðastofnunar í ljósi þess að þróunarsjóður sjávarútvegsins og þær breytingar sem þar er verið að gera, mun hafa nokkur áhrif á starfsemi Byggðastofnunar þar sem reiknað er með því að sá sjóður sem þar er ( Fjmrh.: Atvinnutryggingarsjóður.) já, einmitt, að hann færist yfir til þróunarsjóðsins. Spurningin er: Hvað þýðir þetta? Er t.d. að renna upp sú stund að það sé hægt að leggja Byggðastofnun niður? Hvað hugsa menn sér? Það er ekki bara hægt að taka verkefni af stofnun, skera niður fjárveitingar og svo eru þeir hringlandi nokkrir inni í þessu stóra og fína húsi, sem utanrrn. hefur reyndar mikinn áhuga á að fá. Hvað ætla menn að gera í þessum málum? Mér finnst að þetta sé málefni þingsins, að skilgreina hvað eigi að gera í þessum málum og reyndar löngu mál til komið að menn setjist svolítið yfir byggðaþróun og byggðastefnu í ljósi þeirra skýrslna sem lagðar hafa verið fram og að við ræðum þau mál í þaula hér á hinu háa Alþingi.
    Ég ætla aðeins að nefna Landsvirkjun. Ég nefndi það í 1. umr. að hér er verið að ábyrgjast miklar lántökur Landsvirkjunar og öll þessi lán fara í að endurgreiða eldri lán. Það er auðvitað ljóst að það hefur orðið mikill samdráttur í starfsemi Landsvirkjunar í kjölfar þess hve illa hefur gengið að selja orku svo sem áætlað var til ýmiss orkufreks iðnaðar. Ég aflaði mér upplýsinga um stöðuna hjá Landsvirkjun og skuldastaða þessarar stofnunar er vægast sagt ógnvekjandi. Landsvirkjun skuldar alveg gríðarlegar upphæðir og spurningin er hvort þarna sé ein af þessum tímasprengjum efnahagslífsins á ferðinni sem muni lenda fyrr eða síðar á ríkissjóði ef ekki gerist eitthvað í atvinnumálum. Þarna hafa átt sér stað um árabil alveg gífurlegar lántökur. Ef ég man rétt eru heildarskuldir Landsvirkjunar 55 milljarðar. Ég held að ég muni það rétt, ég er nú ekki með þessar tölur hérna með mér. En þetta er auðvitað alveg gríðarlega mikið.
    Varðandi byggingarsjóðina þá er verið að hækka hér örlítið framlag í Byggingarsjóð verkamanna. Það koma nú ekki fram skýringar ( Fjmrh.: Verðlagsbreytingar.) já, verðlagsbreytingar. Þar kom skýringin hjá hæstv. fjmrh. Þarna er um verðlagsbreytingar að ræða. Mér skilst að samkvæmt þessu frv. þá takist Byggingarsjóði verkamanna að halda nokkurn veginn í horfinu. Það verði lánað til álíka margra íbúða og áður. En það þarf vissulega að taka til hendi í byggingarsjóðunum og það gildir eiginlega það sama með Húsnæðisstofnun og Byggðastofnun. Ég held að þar sé á ferðinni ein af þeim stofnunum sem þurfi svolítið að skoða og skilgreina upp á nýtt og spyrja um hlutverk ríkisins. Mér skilst að það séu uppi áform

um að taka húsbréfadeildina út úr stofnuninni og koma henni til bankanna. Ég var fylgjandi því á sínum tíma þegar við vorum að vinna í húsbréfakerfinu. Ég get nú ekki séð endilega ástæðuna fyrir því að þessi starfsemi sé inni í Húsnæðisstofnun og mér finnst að Húsnæðisstofnun eigi fyrst og fremst að sinna hinu félagslega húsnæðiskerfi. Ég held að menn eigi að athuga þessi mál svolítið nánar.
    Ég get ekki látið hjá líða að nefna aðeins Ferðamálasjóð og í rauninni þessa furðulegu pólitík sem er í gildi hjá ríkinu og snertir fleiri en Ferðamálasjóð. Þetta gildir um Vegagerðina líka, þar sem menn eru annars vegar að skera niður lögbundin framlög til þessara sjóða og stofnana. Skera niður lögbundin framlög með annarri hendinni en eru svo að veita heimildir til lántöku með hinni. Það er spurning hvort þetta sé pólitík sem borgar sig þegar til lengri tíma er litið. Ég held að þetta sé afar óskynsamlegt og menn séu að reyna að fresta einhverjum fjárframlögum sem er náttúrlega skammtímasjónarmið. En þetta kostar auðvitað stórfé til lengri tíma litið, með vaxtagreiðslum og öðru slíku.
    Það komu hér inn í nokkrar brtt. sem eiga sér allar eðlilegar skýringar og ég ætla ekki að gera neinar sérstakar athugasemdir við. En svona að lokum, virðulegi forseti, vil ég aftur nefna það að í þessu frv. koma fram afar merkilegar upplýsingar um lántökur og skuldastöðu og hvernig lántökur skiptast á milli hinna ýmsu aðila, ríkisins, sveitarfélaga, fyrirtækja og heimila. Og það kemur auðvitað hér í ljós, sem við vitum, að lántökur fyrirtækja hafa dregist mjög mikið saman. Jafnframt kom það fram á fundi efh.- og viðskn. þegar Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, fór yfir stöðu mála, að það hefur dregið alveg gífurlega úr fjárfestingum fyrirtækja. Það segir reyndar í fjárlagafrv. að fjárfestingar fyrirtækja séu í sögulegu lágmarki. Þetta sýnir okkur að það er nánast ekkert nýtt að gerast. Fyrirtækin eru ekki að fjárfesta til framtíðar sem auðvitað ræðst af þeirra slæmu stöðu. Mjög mörg fyrirtæki hafa verið að reyna að bæta sína skuldastöðu og hagræða innan dyra, en nýsköpunin er afar lítil og það segir okkur að það mun taka mörg ár að koma henni í gang. Bara þessi staðreynd, hvað fjárfestingar eru litlar í atvinnulífinu, vísar okkur fram á veginn hvað það varðar að það verði hér áframhaldandi stöðnun í atvinnulífinu og atvinnuleysi. Auðvitað vildi maður helst sjá vöxt í atvinnusköpun hjá fyrirtækjunum í stað ríkisins.
    Það eru líka mjög athyglisverðar þær upplýsingar sem koma fram í frv. varðandi skuldir heimilanna, sem við ræddum reyndar hér á þingi að ég held síðustu viku. Þar er aftur um ógnvænlegar tölur að ræða og væri mjög fróðlegt að fá skýringar á því hvað er hér á ferð. Er þetta vegna húsnæðiskaupa, sem reyndar hefur nú dregið mikið úr eða er þetta fyrst og fremst til að fjármagna eldri lán eða jafnvel bara rekstur heimilanna? Það hefur orðið mikill samdráttur í kaupmætti og hvernig hefur fólk brugðist við þessu? Ég vil minna á þá tillögu sem hv. þm. Stefán Guðmundsson setti fram í umræðunni um skuldastöðu heimilanna, að ríkisstjórnin taki sig nú til og kanni hvað liggur þarna að baki. Ég held að það sé mjög mikilvægt að vita hvað veldur því að heimilin í landinu eru að auka skuldir sínar með þessum hætti meðan --- reyndar á nú ríkisstjórnin metið í þessu eða ríkið, ríkið á metið í þessu --- meðan sveitarfélögin hafa dregið mjög mikið úr lántökum.
    Ég vil þá segja það að lokum, virðulegur forseti, að það er auðvitað ríkisstjórnarinnar að bera ábyrgð á sinni stefnu. Mér hefur fundist á því sem við höfum upplifað hér á undanförnum vikum að hún hafi gefist upp á nánast öllum sínum áformum og hún hefur farið þá leið að auka hallann á ríkissjóði, sem er náttúrlega heldur slæm pólitík. Ég skýri þetta þannig að það eru kosningar í nánd og Sjálfstfl. er hræddur um sinn hag, ekki síst hér í Reykjavík. Þess vegna eru menn að forðast óvinsælar aðgerðir og að reyna að gefa ríkisstjórninni mildari svip en þann að hún sveifli niðurskurðarhnífunum í kringum sig ótt og títt með heldur óskipulegum hætti.
    En niðurstaðan er þessi: Hér er um býsna háar tölur að ræða. Hallinn á ríkissjóði er orðinn ógnvekjandi og á þessu verður ríkisstjórnin auðvitað að bera ábyrgð. En ég held að hún ætti nú að snúa við blaðinu og reyna að fara út í einhverja raunverulegar skipulagsbreytingar til að ná tökum á þessum miklu útgjöldum því þetta mun koma niður á okkur öllum í framtíðinni.