Lánsfjárlög 1994

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 13:05:05 (3140)


[13:05]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var alls ekki hugmynd mín að gefa það í skyn að ekki væri farið að hinum bestu reikningsskilavenjum. Það eina sem ég sagði er að þessi mál hafa verið til umræðu í ríkisreikningsnefnd. Það hefur á undanförnum árum verið talsvert mikið fjallað um þessi mál, um það hvernig setja eigi upp fjárlög, fjárlög eftir að aukafjárlög hafa verið samþykkt og síðan ríkisreikning. Við vitum báðir og kannski hv. þm. enn betur en ég að reikningur ríkisins líkist ekki alveg í öllum atriðum reikningum fyrirtækja. Við höfum t.d. ekki fært upp eignir ríkisins allar með sama hætti og ég hygg að fyrirtæki mundu gera það en skuldbindingar hafa hins vegar verið færðar upp eins og fyrirtæki gera á höfuðstól á efnahagsreikningi.
    Það eina sem ég sagði er að það þarf auðvitað að skoða hvernig færslan verður en í því fólst ekki að ríkisstjórnin ætlaði sér að breyta reglunum til þess að söluandvirði SR-mjöls færðust inn sem tekjur á næsta ári og að þær breytingar miðuðust eingöngu við slíkt. Það var alls ekki hugmyndin. Þótt valdamikil sé ríkisstjórnin þá verður hún að fara að reglum og lögum eins og aðrir í landinu.