Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 14:07:41 (3141)


[14:07]
     Frsm. meiri hluta landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til afgreiðslu, frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, mun að sjálfsögðu breyta umhverfi í íslenskum landbúnaði meira en þekkst hefur um langa tíð. Í stað þess að landbúnaðurinn hefur notið magntakmarkana á innflutningi landbúnaðarvara þá tekur hann samkvæmt þessu frv. nú mið af alþjóðlegum viðskiptaháttum sem Íslendingar eru þátttakendur í. Það er ekki nema eðlilegur hlutur við slíkar aðstæður að nákvæmlega þurfi að hyggja að málum enda er sú reyndin meðal annarra þjóða að á þeim breytingatímum sem landbúnaður þeirra landa gengur í gegnum hefur landbrn. verið falið forræði þeirra mála. Svo er hér einnig gert og er það reyndar mikilvægasta niðurstaða þessarar löggjafar að kveða á með skýrum hætti um forræðisrétt þessara mála.
    Frv. kveður á um það í 1. mgr. 1. gr. að landbrh. hafi heimildir til að víkja frá ákvæðum búvörulaganna að því er varðar magntakmarkanir á innflutningi og raunar ber honum að taka tillit til þeirra alþjóðlegu samninga í þessum efnum sem við Íslendingar erum aðilar að. Það má þannig segja að í staðinn fyrir 52. og 53. gr. sem hafa verið ákvarðandi um viðskipti með landbúnaðarvörur séum við núna bundin af þessum alþjóðlegu samningum eins og við höfum fallist á þá og með þeim fyrirvörum sem við höfum þar um gert. Þetta er grundvallaratriði í þessari löggjöf.

    Með sama hætti er skýrt kveðið á um það að landbrh. fari með framkvæmd verðjöfnunargjalda og ákvörðun um upphæð þeirra. Þetta er annað mikilvægt atriði í þessari grein í framhaldi af forræðisréttinum. Það hefur verið á það minnst að úr þessum forræðisrétti væri dregið með því að lögbundið er að sérstök nefnd skipuð af ráðuneytum, sem fara með viðskiptamál, fjármál og landbúnaðarmál, fjalli um þessi efni og þá með tilliti til þess að gefa umsögn um hver séu efri mörk álagningar gjaldanna hverju sinni. Nefndin leitaði sérstaklega eftir áliti hjá Sigurði Líndal lagaprófessor um þetta efni og þar kom skýrlega fram af hans hendi að með þessu er á engan hátt skertur forræðisréttur landbrh. yfir málinu þó að þarna séu lögbundin samráð og reyndar benti hann okkur nefndarmönnum á að hliðstæður eru fyrir hendi í lögum þótt þeirra sé ekki víða getið. Ég tel í rauninni að þetta samráð sé mjög af hinu góða. Í þessum efnum á auðvitað ekkert að fela og þýðingarmikið að þessi mál séu unnin og ákvarðanir teknar fyrir opnum tjöldum og með trúverðugum hætti þannig.
    Það ber hins vegar að geta þess að auðvitað væri það góð vinnuregla hér í þinginu, og það hafði ég reyndar sett fram í upphafi þessa kjörtímabils sem ósk um vinnulag landbn. Alþingis, að reglugerðir eða drög að reglugerðum lægju fyrir þegar mál eru reifuð á Alþingi. Þetta á ekki síst við þegar um er að ræða heimildalöggjöf eins og þá sem hér um ræðir sem veitir landbrh. mikið vald og felur í sér miklar breytingar.
    Landbn. Alþingis hefur haft það fyrir sína starfsvenju, bæði á sl. ári og þessu ári, að setja sig inn í þá alþjóðlegu samninga sem hér hefur verið fjallað um. Hér á ég reyndar við EES og síðar GATT og ég held að það starf nefndarinnar hafi skilað góðum árangri. Mér finnst sjálfgefið í framhaldi af þessum vinnubrögðum að landbn. fylgist vel með framvindu þessara mála og ég mun leita eftir því að svo verði gert í samskiptum milli landbrn. og landbn. með hliðstæðu verklagi og viðgengist hefur í okkar starfi, bæði á þessum vetri og eins fyrir ári síðan. Ég tel að það sé grundvallaratriði að löggafinn geti þannig fylgst með því hvernig þær heimildir sem hann gefur gangi fram og séu samrýmanlegar þeim skoðunum sem hér gilda.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að skýra þessi mál frekar. Nefndin varð ekki sammála í afstöðu sinni eins og kemur fram á því að hér liggja fyrir tvö nefndarálit, meiri hluta og minni hluta. Auk mín undirrita meirihlutaálitið Rannveig Guðmundsdóttir, Árni M. Mathiesen, Einar K. Guðfinnsson og Eggert Haukdal, sem undirritar það með fyrirvara sem hann að sjálfsögðu gerir hér grein fyrir.
    Í nefndinn fór fram ítarleg og málefnaleg umræða um þetta mál eins og jafnan áður og þar var leitað eftir skoðunum, eins og fram kemur í nál., fulltrúa bændasamtakanna og landbrn. en auk þess var sérstaklega leitað eftir áliti Sigurðar Líndals prófessors, sem ég hef hér áður vitnað til, og eins Sveins Snorrasonar hrl. Báðir þessir fróðu menn tóku svo saman greinargerðir um það sem var um fjallað á fundi landbn. til þess að skoðanir þeirra gætu legið skýrar fyrir og eru þau gögn að sjálfsögðu varðveitt í málsskjölum landbn. um þetta mál.
    Ég vil svo að lokum fagna því hvernig minni hluti nefndarinnar hefur hagað sinni afgreiðslu á þessu máli. Þar er enn einu sinni staðfest að það sem skiptir máli um framgang þessa máls og þróun þessara mála í framtíðinni er mikil og breið samstaða hér í þinginu og það eru frekar að þessu sinni og reyndar einvörðungu formsatriði sem skilja hér leiðir landbúnaðarnefndarmanna. Mér finnst mikilvægt að það komi hér skýrt fram hvað minni hlutinn sýnir hér mikla ábyrgð í afgreiðslu sinni og það þakka ég alveg sérstaklega.
    Ég lýk svo máli mínu, virðulegi forseti, og geri tillögu um það að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað áfram til 3. umr.