Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 14:35:55 (3143)


[14:35]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að það mál sem hér er til umræðu sé með þeim allra sérstæðustu sem hafa sést á borðum þingmanna á undanförnum árum. Mér er sagt að það hafi gerst fyrir nokkrum árum að einn þingmaður brá sér í ræðustól og las upp frv. frá orði til orðs fyrir þingheimi og það vakti svo mikinn hlátur að málið datt bara niður samstundis.
    Nú vill svo til að hér er mikið alvörumál á ferð og ekki neina fyndni í því að finna en hins vegar afar sérkennileg ákvæði. Og það ræðst af því að hér er um að ræða samkomulag milli ríkisstjórnarflokkanna --- og nú verð ég að segja, virðulegi forseti, að ég fagna því sérstaklega að hæstv. utanrrh. skuli vera mættur til leiks og hefði fyrr mátt vera því að það er eitt meginatriðið varðandi þetta frv. að þingheimi takist að skilja það og fá að vita það hver skilningur hæstv. utanrrh. er á þessu ákvæði sem ég mun gera hér sérstaklega að umræðuefni.
    Nú vil ég ítreka það sem ég sagði við 1. umr. að ég hef ákveðnar efasemdir varðandi hinn stjórnskipulega þátt þessa máls og ég tek það ekkert sem gefið að það eigi að vera á forræði landbrh. að ákveða innflutning, vörugjöld og annað slíkt, en það er alveg ljóst að um það er mjög breið samstaða að þannig skuli það vera. Menn vísa til þess að þetta fyrirkomulag sé viðhaft á Norðurlöndunum og vegna þess hve þetta mál ber brátt að hér á þingi, þá gefst einfaldlega ekki tími til þess að kanna hér aðrar leiðir eða bera þetta saman við það fyrirkomulag sem tíðkast í öðrum ráðuneytum en það er auðvitað meginreglan að þessi atriði, þ.e. tollar og vörugjöld, heyra undir fjmrn. Ég þykist vita það að fjmrn. sé ekkert alveg sátt við það hvernig hér er á málum haldið en mér er það líka mjög vel ljóst að íslenskur landbúnaður er uggandi um sinn hag vegna þeirrar auknu samkeppni sem fram undan er og það skiptir auðvitað miklu máli að þar sé eðlilega og vel að málum staðið. Ég hef efasemdir um þetta fyrirkomulag en mun að sinni ekki gera ágreining út af því og áskil mér rétt til þess að skoða þessi mál nánar síðar í ljósi þess hvernig takast mun um framkvæmdina.
    Það sem eru stærstu spurningarnar varðandi þetta samkomulag --- ég get ekki kallað þetta annað en samkomulag því að hér mátti ekki orði hagga, það mátti ekki breyta einu orði því að það gæti raskað þeim skilningi sem hæstv. ráðherrar leggja í málið. Það mátti ekki breyta hér einu orði. En það sem fulltrúar landbúnaðarins settu einkum fyrir sig og mér finnst mjög skiljanlegt af þeirra hálfu er það að út úr þessari grein eru tekin ákvæði um samráð við fulltrúa landbúnaðarins. Þar með er ekki sagt að landbúnaður sem slíkur eigi að ráða hverju fram vindur heldur fyrst og fremst það að þeir viti rétt eins og ríkisstjórnin, það er það sem felst í þessu frv. að ríkisstjórnin vill fá að vita hvaða ráðabrugg landbrh. er með. Það er lögfest hér að ráðherra ber skylda til þess að fara með málið inn í ríkisstjórn. Og á sama hátt má segja að það hefði verið mjög eðlilegt að það væri tryggt að þeir sem eiga hagsmuna að gæta gætu fylgst með því sem verið er að gera þó að það sé ekki þar með sagt að þeir ráði neinu um þær aðgerðir sem gripið er til. En þetta samráð er sem sagt tekið út úr þessari grein og í stað þess er sett upp þessi yfirbygging eða kerfi í kringum landbrh., leiðin sem hann þarf að fara til ákvarðana, þ.e. hann hefur sér til ráðuneytis þessa nefnd og ég skil það þannig að hann verði að fara með málin inn í nefndina. Verði ágreiningur í nefndinni fer málið til ríkisstjórnarinnar. Auðvitað getur farið svo að það verði alltaf samkomulag í þessari nefnd. En það er þó miklu líklegra að það eigi eftir að koma upp ýmis deilumál varðandi framkvæmd búvörulaganna og það þarf ekki annað en að einn af fulltrúunum í nefndinni geri ágreining þá fer málið til ríkisstjórnarinnar.
    Síðan er það lögfest hér að náist ekki samkomulag í nefndinni skuli ráðherrann bera málið undir ríkisstjórn áður en ákvörðun er tekin um upphæð verðjöfnunargjalda. Samkvæmt því sem fram kom í máli Sigurðar Líndals prófessors þá er hér um mjög óvenjulegt ákvæði að ræða í lagasetningu af þessu tagi og þýðir auðvitað það að með þessari lagasetningu er verið að skilgreina þessi mál, þ.e. ákvarðanir um innflutning og verðjöfnunargjöld, það er verið að skilgreina það sem mjög mikilvægt málefni vegna þess að samkvæmt stjórnarskránni og lögum um Stjórnarráð Íslands ber að taka mikilvæg mál eða bera mikilvæg mál upp í ríkisstjórninni. Hér er sem sagt verið að lögfesta það að þessi málaflokkur sé mjög mikilvægt mál sem beri að taka inn í ríkisstjórnina sé einhver ágreiningur í nefndinni. Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi. Það er verið að skylda landbrh. til þess að bera málið undir ríkisstjórnina þannig að hún geti fylgst með hans gerðum. En það breytir ekki því að hann hefur endanlegt ákvörðunarvald.
    En það er einkum og sér í lagi þessi setning sem ég mundi vilja spyrja hæstv. utanrrh., formann Alþfl. sem hefur staðið í miklu stríði við landbrh. um þessi mál, ég vil spyrja um hans skilning á þessari setningu. Hvernig skilur hann þetta? ( Utanrrh.: Hvaða setningu er átt við?) Síðustu setninguna í 1. gr. frv. Ég hlýt að kalla hér eftir skilningi hæstv. utanrrh. á þessari setningu því að samkvæmt íslenskri stjórnskipun er hún óþörf, hún er algerlega óþörf. Ráðherra getur tekið hvaða mál sem er inn á ríkisstjórnarfund en hér er einfaldlega verið að skylda hann til þess. Það er verið að skylda ráðherra til að fara með þennan málaflokk inn í ríkisstjórnina ef ágreiningur verður í nefndinni og það er auðvitað partur af samkomulaginu að hæstv. landbrh. fari með málið inn í ríkisstjórnina.
    Formaður landbn., hv. þm. Egill Jónsson, sagði hér áðan að það hefði farið ítarleg umræða fram um þetta mál í landbn. Ég er ekki sammála formanni mínum um það því að í rauninni er vel unnið að þessu máli og fengnir góðir og gegnir menn til þess að segja sitt álit á þessu. En ég hefði t.d. viljað fá meiri tíma til að skoða hinn stjórnskipunarlega þátt og setja þetta í samhengi við GATT-samninginn og skoða þá hvaða lagabreytingar verða að eiga sér stað varðandi þau mál til þess að maður hafi einfaldlega yfirsýn yfir það hvað hér er verið að gera. En mér er ljóst eins og fleirum að hér er um að ræða mál sem þarf að komast í höfn. Og eins og ég sagði hérna við 1. umr. þá hefur það verið öllum til tjóns að það skuli ekki vera búið að afgreiða þessi mál fyrir löngu og að menn skyldu ekki fara í það að ganga frá málunum og breyta lögunum í samræmi við þá samninga sem gerðir hafa verið og menn minnast þess eflaust að það var á sínum tíma samið um það að ákveðinn hluti EES-samningsins gengi í gildi á undan öðru og það varðaði m.a. landbúnaðarmálin.
    Hv. formaður landbn. nefndi það líka í sinni ræðu að það væru bara formsatriði sem skilja hér á milli. Í mínum huga er þetta meira en formsatriði. Þetta er auðvitað hápólitískt mál sem hér er á ferð. Þetta er hápólitískt samkomulag sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa náð hér sín á milli sem lýsir sér í því að það er fyrst og fremst verið að skylda landbrh. til þess að fara með málin inn í ríkisstjórn.
    Eins og fram kom hér í ræðu frsm. minni hlutans þá er ýmislegt sem skiptir máli í þessu og ekki síst hvort vilji er til þess af hálfu meiri hluta Alþingis og hvort það fást til þess tilskilin leyfi frá ríkisstjórnarflokkunum að koma inn í frv. ákvæðum um samráð. Það skiptir miklu máli að það sé kveðið á um samráð við hagsmunaaðila í þessu máli. Við munum láta á þetta reyna milli 2. og 3. umr. en fari svo að það fáist ekki samþykkt þá held ég að það sé rétt að láta ríkisstjórnarflokkana bera ábyrgð á sínu samkomulagi.