Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 14:49:56 (3146)


[14:49]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Á fundi hv. landbn. voru mættir nokkrir fulltrúar landbúnaðarins, þar á meðal framkvæmdastjóri Stéttarsambands bænda og framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins og og búnaðarmálastjóri. Það kom fram í máli þessara manna að nákvæmlega ekkert samráð hefði verið haft við þá og þeirra samtök áður en þetta mál var fest á blað og að öðru leyti undirbúið. Þau samtök sem ég nú nefndi fengu ekkert tækifæri til að hafa áhrif á orðalag og efni þessa frv. og þessir aðilar höfðu ekki fengið frv. í hendur fyrr en fáum klukkutímum áður en fundurinn var haldinn.
    Það þurfti því ekkert að koma á óvart í hinni ágætu hv. landbn. að fulltrúar þessara samtaka áttuðu sig ekki alveg til fulls á efni frv. Þeir höfðu t.d. ekki áttað sig á því, og sennilega fæstir þingmenn, að frv. þessu væri alls ekki ætlað að ná til GATT-samningsins. Ég held að langflestir hv. alþm. hafi staðið í þeirri meiningu þegar þetta mál var flutt að það væri flutt í tengslum við og í framhaldi af gerðum svonefnds GATT-samnings enda er vísað í fríverslunar- og milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að í upphafsorðum frv. En það mun ekki vera. Þá verður auðvitað ljóst að hér er um hina mestu lagaflækju að ræða.
    Við erum í fyrsta lagi með lögin um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum þar sem fjallað er í 52. og 53. gr. um innflutning á landbúnaðarvörum. Þær greinar breytast ekkert við samþykkt þessa frv. Aftur á móti koma hér tvær nýjar frumvarpsgreinar. Ég vek á því athygli að það er að vísu sagt að 72. gr. og 73. gr. eigi að orðast svo en þær eru ekki til í lögunum. Þess vegna ætti að orða þetta á allt annan veg, þ.e. vekja athygli á því að hér sé um nýjar greinar að ræða eins og ævinlega er gert þegar um það er að ræða. Þarna koma þá tvær nýjar greinar og þær fjalla líka um þessi innflutningsmál á sinn hátt. Það verður þá alltaf að lesa þetta saman til þess að menn skilji hver sé kjarni málsins.
    Síðan mun vera von á þriðja frv. sem snertir GATT og innflutningsmál sem tengjast GATT-samningnum og þá fer þetta að verða ansi mikil frumskógur þegar allt kemur saman og þarf að lesast saman í eina heild. Ég held að það sé ekki hægt að hrósa þessum vinnubrögðum og ég tel æskilegra að framsetning hefði verið öll með miklu skýrari hætti.
    Þetta leiðir hugann að því sem hér hefur verið nefnt, þ.e. hvernig samráði við hagsmunasamtök verður háttað í framtíðinni. Í 52. og 53. gr. laganna eru talsvert ítarleg ákvæði um samráð við hagsmunasamtök, en aftur á móti vekur það athygli að í frv. sem hér um ræðir eru engin ákvæði um samráð. Það er erfitt að skilja alveg til fulls hvað verður um þetta samráð þegar 1. gr. er lesin. Ég teldi afar æskilegt að hér væru gefnar yfirlýsingar um hvernig þessu samráði verður háttað þannig að allur þingheimur megi fá hreinar og klárar yfirlýsingar um það bæði af hálfu hæstv. landbrh. og af hálfu formanns nefndarinnar. Ég ætla ekki að gera þeim það upp að þeir hyggist samþykkja þetta frv. á þann veg að ekki verði um neitt samráð að ræða. Ég trúi ekki öðru en því verði áfram haldið en ég held að fleiri en ég bíði eftir því að slíkar yfirlýsingar verði gefnar.
    Síðan vík ég að síðara meginefnisatriði frv. Ég lít svo á að fyrra meginefnisatriði frv. felist í 1., 2. og hálfri 3. mgr. en seinna efnisatriðið byrjar svo á orðunum ,,Sér til ráðuneytis skal ráðherra skipa nefnd þriggja manna`` o.s.frv. Ég vek athygli á því í framhjáhlaupi að góður frumvarpssmiður hefði að sjálfsögðu haft nýja málsgrein þar sem þetta nýja efnisatriði hefst og jafnvel hefði ekki verið óeðlilegt að hér hefði verið um sérstaka grein að ræða. En því er ekki að heilsa og því verður maður að taka afstöðu til málsgreinarinnar með því að skipta henni í tvennt. Eins og fram hefur komið nú þegar er það afstaða okkar í stjórnarandstöðunni að óhjákvæmilegt sé að greiða fyrst atkvæði um fyrri hluta greinarinnar og fyrri hluta 3. mgr. og þá munum við styðja þann efnispunkt sem þar er, en síðan yrðu greidd sérstaklega atkvæði um

síðari hluta málsgreinarinnar. Þar hlýtur afstaðan að verða nokkur önnur.
    Þar er annars vegar á það minnst að ráðherra hafi sér til ráðuneytis þriggja manna nefnd, nefndin sé skipuð af þremur ráðherrum og afli upplýsinga og standi fyrir nauðsynlegu samráði o.s.frv. Þetta er út af fyrir sig ákvæði sem kannski er ekki ástæða til að hafa neitt á móti vegna þess að í góðri ríkisstjórn hlýtur það að vera góðs viti að samráð sé haft um alla skapaða hluti og menn ræði saman um hvernig best sé að haga málum. Það er vinnuregla sem tíðkast í öllum ríkisstjórnum í stórum stíl að skipa vinnuhópa og engin ástæða til að setja slíka vinnureglu í lög, en kannski má segja að það mæli ekkert endilega á móti því en það er sjaldnast gert og er kannski meira fallið til að vekja tortryggni en hitt að skýra mál því að þess þarf að sjálfsögðu ekki með að ákveða slíkt með lögum. Það er tæpast slíkt ástand ríkjandi í nokkurri ríkisstjórn, jafnvel ekki þeirri furðulegu hæstv. ríkisstjórn sem nú situr, að ekki sé hægt að koma sér saman um eina einfalda nefndaskipan án þess að allt Alþingi standi þar á bak við og hafi leyft mönnum náðarsamlegast að skipa slíka nefnd.
    En seinasti liðurinn er aftur á móti öllu lakari, þ.e. þegar ákveðið er að náist ekki samkomulag í þessari margfrægu nefnd þá skuli málið borið undir ríkisstjórn áður en ákvörðun er tekin um upphæð verðjöfnunargjalds. En þetta er kannski ekki endilega svo afleitt í sjálfu sér vegna þess að oft mundi það vera þannig að ef eitthvert ágreiningsmál fyrirfyndist milli ráðherra, þá væri það borið upp í ríkisstjórn og kynnt ráðherrum þar áður en viðkomandi ráðherrar tækju ákvörðun. En þetta er fyrst og fremst eftirtektarverð og gagnrýnisverð setning vegna þess hversu óvenjuleg hún er og vegna þess hversu mikla tortryggni hún hlýtur að vekja vegna þess einfaldlega að það er alltaf verið að þessu. Það er alltaf verið að bera mál undir ríkisstjórn áður en ákvörðun er tekin. Og hvers vegna þarf að binda það í lög? Hefur þessi lagasetning eitthvert gildi í sjálfu sér umfram þær venjulegu starfsaðferðir sem tíðkast?
    Það þarf ekki að spyrja um lagalegu hlið málsins vegna þess að hún er nokkuð ljós og það var staðfest af þeim sérfræðingum sem við ræddum við í nefndinni að ekki væri hægt að skilja þetta nema á einn veg, þ.e. að landbrh. hefði endanlegt úrskurðarvald og jafnvel þótt upp kæmi ágreiningur í ríkisstjórn um þetta mál, þá gæti ekkert hindrað hann í því að taka sína ákvörðun. En hvers vegna þá að vera að setja þetta í lög? Það er það sem vekur umtal, tortryggni og miklar umæræður.
    Ég tel eðlilegra að þetta falli niður. Ekki vegna þess að þetta hafi neina efnislega þýðingu til eða frá. Ég held að þetta sé merkingarlaust ákvæði í sjálfu sér, heldur tel ég það lýti á lögunum að hafa svona vitlaust ákvæði innan þeirra. Af þeirri ástæðu tel ég eðlilegast að ákvæðið verði fellt niður.
    Ég vil svo að endingu ítreka að það var skoðun Sigurðar Líndals, prófessors við Háskóla Íslands, að ákvæði þetta væri afar sérstakt og hann myndi ekki eftir að það ætti sér neina hliðstæður í íslenskri löggjöf. Þessi ummæli Sigurðar segja kannski meira en margt annað um þann vandræðagang sem virðist vera að baki setningu þessara laga.