Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 15:04:28 (3149)

[15:04]
     Frsm. meiri hluta landbn. (Egill Jónsson) :

    Virðulegi forseti. Ég hlýt að endurtaka þakklæti mitt fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Mér finnst hún vera afskaplega mikilvæg. Það fer náttúrlega ekki fram hjá neinum hv. þm., jafnskýrt og samnefndarmenn mínir hafa talað, að ágreiningurinn stendur ekki um efnislegan þátt þessa frv. Þetta tel ég afar mikilvægt og er reyndar þakklátur fyrir það vegna þess að það styrkir þessa afgreiðslu hvað mikið fylgi er á bak við hana hér á Alþingi. Þetta er náttúrlega grundvallaratriði.
    Svo ég ljúki nú við að svara því sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson spurðist fyrir um, þá tekur, eins og kunnugt er, EES-samningurinn gildi nú um áramótin Landbúnaðurinn hefur hins vegar aðlögunartíma til þess að ganga frá sínum málum að ég hef fengið upplýst frá hæstv. utanrrh., líklega fram á vor. Það eru þau tímamörk sem um er að ræða og eftir það eiga þessi mál að ganga fram án þess að um sérstakar leyfisveitingar verði að ræða. EES-samningurinn er býsna skýr að þessu leyti og tiltölulega auðvelt að framkvæma hann að því er ég fæ best séð.
    Það er reyndar ekki til þess að vera að gera mál út af en það kom fram í máli þess virðulega þingmanns, Kristínar Ástgeirsdóttur, að engu hefði mátt breyta í nefndinni. Náttúrlega gat hver og einn nefndarmaður borið fram þær brtt. sem honum sýndust. Það hefur enginn formaður neina stöðu til þess að taka þann þinglega rétt af samnefndarmönnum sínum þannig að þó að vilji hefði verið fyrir því hjá formanninum, þá hefði það einfaldlega ekki náð fram að ganga.
    Ég sagði hins vegar frá því að ég legði til að frv. yrði samþykkt óbreytt. Ég sagði reyndar líka frá því að þegar ég hafði farið yfir þetta frv. þá hefði ég sagt við hæstv. viðskrh. að ég mundi ekki leggja til breytingar í nefndinni. Ég get ekki séð hvaða bann felst í því. Það hefði hins vegar ekki verið trúverðug framkoma af minni hálfu að birtast svo í þessum ræðustól og lýsa tillögum jafnvel þó að í þeim fælist ekki mikið efni. Það var ekkert kallað eftir þessari afstöðu og ekkert samið um þessa afstöðu og mér var ekki uppálögð af neinum manni þessi afstaða. Þetta voru einfaldlega orð sem ég lét falla og vildi standa við.
    Af því að það er verið að kalla hér eftir yfirlýsingum manna um stjórnskipulega stöðu þessa máls vildi ég líka mega minna á orð hæstv. viðskrh. við 1. umr. málsins þar sem hann tók af allan vafa um það hver væri hans skilningur á því hver hefði forræði þessa máls. Það væri landbrh. Menn hafa þá orðið stjórnskipunarlögin, Stjórnarráðið, álitsgerð Sigurðar Líndals prófessors, sem er afar skýr í þessum efnum, yfirlýsingu viðskrh. og formanns landbrh. Ég vek athygli á því að báðir þessir menn eiga ættir úr sömu sveit svoleiðis að það hlýtur að vera nokkuð marktækt sem þeir segja. Það hlýtur að vera nokkuð marktækt það sem þeir segja. ( Gripið fram í: Ekkert sem skiptir máli.) Þetta skiptir afar miklu máli. Ég held því að það þurfi ekki að tala mikið um þetta enda hefur ekki verið borin nein brigð á þetta í umræðunni. Ég vek hins vegar athygli á því sem ég sagði í fyrri ræðu minni að ég tel að í þessu samráði felist styrkur og ég hygg að menn eigi eftir að sjá að þetta ákvæði verði látið standa þó að aðrir flokkar myndi ríkisstjórn en þeir sem þar eru nú við völd.
    Hér hefur mikið verið gert úr því að ekki sé kveðið á um samráð við bændasamtökin. Það er til þess vitnað að í þeirri umfjöllun sem átti sér stað á sl. vori hafi svo verið gert. Í þeirri umfjöllun var í rauninni gengið út frá því að efni 52. og 53. gr. yrðu ekki áfram í lögunum. Þess vegna var m.a. í áliti landbn. og tillögum fjallað ítarlega um þessi efni. Nú standa báðar þessar greinar óbreyttar frá því sem þær eru í lögum og reyndar víðar kveðið á um samráð á milli stjórnvalda og bændasamtaka í búvörulögunum en bara á þessum stað. Samráðin standa í 52. gr. sem er í IX. kafla laganna þar sem fjallað er um vinnslu og sölu á búvörum. Með leyfi forseta er texti fyrri mgr. 52. gr. þannig:
    ,,Áður en ákvarðanir eru teknar um inn- og útflutning landbúnaðarvara skulu aðilar, sem með þau mál fara, leita álits og tillagna Framleiðsluráðs landbúnaðarins.``
    Það er ekki hreyft við þessu ákvæði. Það stendur algerlega óhaggað enn þá. Það er svo aftur augljóst mál að síðari mgr. 52. gr. víkur fyrir 1. mgr. frv. þegar að lögum verður eins og það er nú. Síðari mgr. 52. gr. segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Innflutningur landbúnaðarvara skal því aðeins leyfður að Framleiðsluráð staðfesti að innlend framleiðsla fullnægi ekki neysluþörfinni.``
    Þessi málsgrein víkur auðvitað eftir þessa lagabreytingu fyrir því sem við erum nú að lögfesta og kveðið er á um í alþjóðlegum samningum sem við erum aðilar að.
    Samráðið stendur algerlega óhaggað að þessu leyti og er alger óþarfi að gera mál út úr því. Ég legg áherslu á að það styrkir þessa niðurstöðu að það hefur fallið um það dómur að þessi grein hafi fullkomlegan lagalegan grundvöll sem menn vefengdu reynar í fyrri umræðunni og víkur að efni til, eins og ég hef lýst, einungis fyrir þeim ákvörðunum sem teknar verða og lögfestar núna og hvergi er í þeim texta haggað við samráðinu einu einasta orði. Það er því náttúrlega alveg skýrt að bæði á þessum stað í lögunum og reyndar víðar þar sem kveðið er á um samráð, þetta er ekki eini staðurinn, stendur það óhaggað frá því sem verið hefur.
    Ég treysti mér að fullyrða að það mundi algerlega einu um það gilda hver færi með málefni landbúnaðarins í ríkisstjórn þegar teknar verða allþýðingarmiklar ákvarðanir og fram undan eru að þar verði vissulega kallað eftir sjónarmiðum sem víðast að og þá náttúrlega alveg sérstaklega frá þeim samtökum sem hér eiga hlut að máli. Og ég verð að segja það eins og er að þessi gagnrýni snertir mig ekki með neitt sérstaklega sannfærandi hætti því að það er væntanlega öllum ljóst að grundvöllurinn í þessu frv. er að gera

þessar breytingar sem trúverðugastar fyrir íslenskum bændum og íslenskum landbúnaði. Menn gera sér nefnilega alveg fulla grein fyrir því ( Gripið fram í: Málþóf?) --- það er ekki nema eðlilegt að það fari í taugarnar á Framsfl. þegar talað er um svona trúverðugt frv. sem ríkisstjórnin ber fram. ( Gripið fram í: Menn eiga bágt með að trúa því.) Já, það er hárrétt. Kannski kom þarna mikilvægasta skýringin. Ég er nefnilega sannfærður um það að ef menn hefðu verið búnir að átta sig á textanum, fá fær lögfræðilegu skýringar og álit sem nú liggja fyrir, þá hefðu menn ekki hengt sig í þær skýringar og mótbárur sem liggja fyrir núna. Ég held að ekki sé nein ástæða till þess að reyna að gera menn eða flokka tortryggilega í þessum efnum. Ég vitna til þess sem ég sagði áður um yfirlýsingu hæstv. viðskrh. við þessa umræðu.
    Þá á ég einungis eftir að fjalla um eitt efnisatriði sem hv. þm. Jóhannes Geir bar inn í umræðuna.
     (Forseti (VS): Afsakið ræðumaður, það er Jóhannes Geir Sigurgeirsson.)
    Það ætti neinum að blandast hugur um. Ég er ekki að gera neinar tillögur um að breyta föðurnafninu.
     (Forseti (VS): Forseti verður að gefa ákveðna skýringu á. Það stendur í þingskapalögum að hv. þm. skulu nefndir fullu nafni ef þeir á annað borð eru nefndir nafni.)
    Já, það er vissara, virðulegi forseti, svo ekki verði ruglingur í kirkjubókum. Ég áttaði mig ekki á því.
    En út frá þessu vildi ég einungis segja, og það kom líka fram hjá hv. þm. Ragnari Arnalds, að nýtt frv. þyrfti að leggja fram vegna væntanlegs GATT-samkomulags. Tíminn og reynslan munu leiða það í ljós. Ég held að það sé augljóst mál að þegar þau mál liggja fyrir, þá þurfi að fara yfir búvörulögin. Það hlýtur að þurfa í framtíðinni þegar menn verða búnir að ná vopnum sínum og fullum sönsum í öllum þessum málum og geta farið að taka þessi mál með nokkuð raunverulegum hætti. Þá finnst mér afar líklegt að þessa löggjöf þurfi að endurskoða í heild sinni og semja hana að þeim breyttu háttum sem fram undan eru í þessum málum. Það verður því reyndar bara að koma í ljós hvernig þessi löggjöf reynist við framkvæmd GATT-samninganna og þá verður auðvitað að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru til þess að þau mál geti gengið fram með eðlilegum hætti.
    Ég minni svo á það sem ég sagði í upphafi að m.a. vegna þess hvað þessi mál færa landbúnaðinn til mikilla breytingatíma og breyttra aðstæðna, þá tel ég sjálfgefið að landbn. Alþingis fylgist sem allra best með framvindu þessara mála eins og hún hefur reyndar gert í þeirri umræðu sem hefur farið fram á þinginu við undirbúning þessara samninga svo að Alþingi sjálft án tillits til þess hverjir skipi þar meiri hluta og minni hluta, við getum sagt að fyrir því samráði sé vel séð með því að lögbinda samráðsnefnd eins og frv. gerir ráð fyrir, stjórn og stjórnarandstaða, hver sem hún kann að vera á hverjum tíma, geti fylgst með framvindu þessa máls jafnvíðtækar breytingar og í því felast fyrir landbúnaðinn í þessu landi og reyndar fyrir alla íslensku þjóðina.