Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 15:27:46 (3154)


[15:27]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er þetta sama atriði. Það er kannski ekki ástæða til þess að vera að þrasa mikið um þetta, en það er mikilvægt að það sé ljóst hvaða skilningur liggur hér að baki. Ég mundi leggja til að við köllum saman fund í landbn. milli 2. og 3. umr. og fengjum lögskýringu á þessu. Eins og ég skil þetta, þá er sett þessi almenna regla í 52. gr. Síðan er hún dregin til baka þegar um er að ræða innfluning í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Þá ber ráðherra að veita þær heimildir, hvort sem innlend framleiðsla fullnægir neysluþörf eða ekki. Þannig skil ég þetta. Og ég get ekki séð að 1. gr. feli í sér neitt samráð. En við getum haldið lengi áfram að þrasa um þetta og mér finnst að við ættum að fá á þessu lögskýringu.