Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 15:37:04 (3156)


[15:37]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka fram að það er öldungis réttur skilningur sem komið hefur fram hjá formanni landbn. að 1. mgr. þessa frv. er alveg skýr og afdráttarlaus um það að samkvæmt búvörulögunum er óheimilt að flytja inn landbúnaðarvörur ef nóg er til af þeim í landinu og er óþarfi að snúa út úr því. Ég hygg að það hafi raunar komið skýrt fram einnig í störfum nefndarinnar án þess að ég hafi spurt nákvæmlega um það.
    Ég vil í annan stað segja að ég vil láta í ljós undrun mína á ummælum hv. 6. þm. Suðurl. Ég vil að það komi alveg skýrt fram að þó svo að í sumum atriðum hafi verið deildar meiningar milli mín og hæstv. utanrrh. um einstök atriði í sambandi við þá samningsgerð sem var lögð fyrir, bæði í sambandi við Evrópska efnahagssvæðið og eins í sambandi við GATT, þá var fullkomin samstaða milli okkar um túlkun og framkvæmd þeirra samþykkta sem ríkisstjórnin hafði gert og það á einnig við um GATT-samningana þannig að mér finnst algerlega ástæðulaust að vera að gefa eitthvað annað í skyn í þeim efnum. Ég vil líka minna á að eftir að þessi ríkisstjórn var mynduð var tekið upp samstarf á milli landbrn. og utanrrn. um það að landbrn. fengi að fylgjast nákvæmlega með þeim atburðum og þeim samningum sem við vorum aðilar að á erlendum vettvangi. Við höfum fengið upplýsingar til landbrn. um þau efni og það er líka alveg ljóst að fulltrúar Íslands erlendis stóðu fast á sjónarmiðum Íslands fram á síðustu stund í sambandi við GATT-samningana. Við Íslendingar erum á hinn bóginn ekki það sterkir að við getum vænst þess þegar allar aðrar þjóðir veraldar hafa komist að niðurstöðu að einmitt við getum knúið fram sérstöðu okkur til handa sem aðrar meiri og stærri þjóðir hafa gefist upp við að ná. Ég vil að þetta nái fram.