Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 15:41:03 (3158)


[15:41]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það kom fram í máli hv. formanns landbn. að hér væri verið að fjalla um mikilvægt og afdrifaríkt mál. En mér virðist samt að í störfum landbn. að þessu frv. hafi ekki verið fjallað mikið um það hver áhrifin yrðu fyrir íslenskan landbúnað af þessu og það var ekki heldur í framsöguræðu hæstv. landbrh. þannig að það væri hægt að vita hver væri stefna hæstv. landbrh. í málefnum landbúnaðarins nú og hvernig landbúnaðurinn ætti að snúast við þessum gjörbreyttu aðstæðum.
    Þetta frv. tekur á einu atriði málsins og eftir því hefur verið beðið lengi. Þegar hæstv. landbrh. hefur verið spurður um það á Alþingi þá hefur komi fram að málið sé í meðferð hjá ríkisstjórninni. Ég held að þá hafi enginn getað skilið það að þar væri allt í sátt og samlyndi milli hæstv. landbrh. og hæstv. utanrrh. Því get ég tekið undir það sem hv. 6. þm. Suðurl. sagði hér áðan að það eru ný tíðindi fyrir hv. alþm.
    En þó að við fjöllum ekki hér um landbúnaðarstefnuna á breiðum grundvelli þá eru samt spurningar sem beint eru tengdar þessu frv. sem fjallar um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það eru atriði sem oft er búið að spyrja um í umræðum á Alþingi hvernig standi á samningagerðinni vegna útreikninga á hráefni í sambandi við álagningu gjalda. Hæstv. landbrh. hefur sagt að hann voni það besta en önnur svör hafa ekki komið. Ég vil spyrja hv. formann landbn. að því hver svör fengust í landbn. nú við þessu atriði, þ.e. á hvaða grundvelli á að byggja við þær leyfisveitingar sem frv. kveður á um?
    Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hvernig staðan verður þar og ég vildi spyrja hv. formann landbn. að því hvort niðurstaða í þeim samningum sem enn eru óljósir geti ekki haft nein áhrif á lagasetningu hér hjá okkur. Verðum við aðgerlega að taka við því eins og hv. 6. þm. Suðurl. sagði áðan eða getum við á einhvern hátt hagað löggjöf okkar í samræmi við þá niðurstöðu sem ég hef bent á að hæstv. landbrh. sagði í umræðu á Alþingi fyrr á þessu þingi að hefði grundvallarþýðingu í þessu máli?
    En í sambandi við stöðu landbúnaðarins almennt, þá lýsti hv. 6. þm. Suðurl. því m.a. hvernig íslensk garðyrkja væri nú á vegi stödd þar sem þegar væru farin að koma fram áhrifin af samningnum um ,,cohesions-listann`` og það grúfði sannarlega skammdegi yfir þeim atvinnuvegi. Hæstv. landbrh. vék ekkert að þeim orðum hv. 6. þm. Suðurl. nema lýsti sig andvígan, að mér skildist, öllu sem hann sagði. Vissulega væri ástæða til þess nú við afgreiðslu þessa frv. að hæstv. ráðherra segði okkur eitthvað frá því hvernig hann mæti stöðu íslenskrar garðyrkju og hvort einhver von væri um að það skammdegi sem nú grúfir yfir henni færi að hverfa.
    Þá vil ég að lokum víkja svo að síðustu setningunni í 3. mgr. 1. gr. þessa frv. þar sem fjallað er um málskotið til ríkisstjórnar. Ég gagnrýndi þá setningu við 1. umr. málsins og það hefur nú verið staðfest að við meðferð málsins í landbn. að hér sé um óeðlilegt og ónauðsynlegt ákvæði að ræða. En vissulega er gott að heyra það að vegna stjórnskipunar okkar taki þetta ákvæði ekki vald af hæstv. landbrh. Hins vegar er það ljóst að þessi setning er komin inn eftir samninga og togstreitu milli hæstv. landbrh. og hæstv. utanrrh. Það held ég að fari ekki fram hjá neinum þrátt fyrir ummæli hæstv. landbrh. hér áðan. Auðvitað er það rétt sem hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason, sagði hér áðan að ráðherrar geta komið sér saman um að bera svona málefni upp í ríkisstjórn. En þessi setning staðfestir það að innan ríkisstjórnarinnar er svo mikil tortryggni að þeir telja ekki nægja þann möguleika og þá heimild sem þeir hefðu til þess að gera með sér óformlegt samkomulag um að landbrh. hagaði þannig störfum. Slíkt samkomulag virðist ekki nægja nema það sé kveðið á um það í lögum að ríkisstjórnin fái málið örugglega til meðferðar. Mér finnst nú að þessi setning stuðli ekki að því að gera þessa mikilvægu breytingu að öðru leyti trúverðuga. Mér finnst hún vera tortryggileg. Væri það ekki nægjanlegt að hæstv. ráðherrar, landbrh. og utanrrh., gerðu með sér skriflegan samning? Þeir gætu gert hann hér við ráðherraborðið og í votta viðurvist alþingismanna að þannig ætli þeir að haga málum en setja ekki svona hortitti inn í lög og gera þar með minna úr landbúnaðinum sem atvinnuvegi en öðrum atvinnugreinum. Ég vil því eindregið leggja áherslu á að þessi setning falli niður svo að frv. verði trúverðugt og skýrt.