Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 15:55:08 (3161)


[15:55]
     Frsm. meiri hluta landbn. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér er fullkunnugt um það að ýmsar greinar landbúnaðarins, m.a. garðyrkjan, á í miklum vanda og ég þarf ekki að hefja neina nýja umræðu um þau efni við garðyrkjumenn. Þau liggja þegar ljós fyrir og eru a.m.k. mér fullkomlega skiljanleg.
    En af því að hv. 2. þm. Suðurl. hélt áfram að ræða um nefndarskipunina þá vil ég vekja sérstaka athygli á því að því aðeins kemur ríkisstjórnin í heild að þessu máli á grundvelli þeirra lagaákvæða sem hér um gilda að ekki verði samkomulag í samráðsnefndinni þannig að það er ekki þar með sagt að það sé verið að gera hér sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja hæstv. utanrrh. aðgang að málinu.
    En það sem er eftirtektarvert við þessa umræðu og þessa tortryggni er að það er eins og menn telji ekki sjálfsagðan hlut að þessi mál séu rædd fyrir opnum tjöldum, að það þurfi að fela eitthvað í þessari umræðu. Skoðanir utanrrh. eða einhverra annarra aðila. Auðvitað verða menn að vinna þessi mál með trúverðugum hætti þannig að almenningur í landinu hafi traust á þeim ákvörðunum sem verða teknar í þessum efnum. Mér er alveg óskiljanleg öll þessi tortryggni og ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst að hún spilli fyrir trúverðugum málstað í þessum efnum.