Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 15:57:34 (3162)


[15:57]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ef það er sjálfsagður hlutur að hafa þetta fyrir opnum tjöldum af hverju þarf þá að hafa alveg einstaka lagasetningu í sambandi við þetta? Það er það sem hlýtur að vekja tortryggni. En það er rétt að utanrrn. á ekki fulltrúa í nefndinni. En hv. þm. fjallaði oft um utanrrh. og utanrrn. í ræðu sinni hér áðan og við vitum að það er ekki langur vegur milli hæstv. utanrrh. og viðskrh. þannig að það er auðvitað augljóst að það er auðvelt að koma málinu til ríkisstjórnarinnar af þeim sökum.
    Mér er kunnugt um það að hv. þm. hefur kynnt sér vel málefni einstakra búgreina en hv. þm. sagði að EES-samningarnir væru ekki farnir að hafa áhrif og það var það sem ég var að benda á að því miður eru þeir farnir að hafa dapurleg áhrif. Ég hitti einn garðyrkjumann fyrir örfáum dögum sem hafði skorið allt niður í sínum húsum af þeim sökum.