Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 16:09:34 (3165)


[16:09]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. utanrrh. lýsti yfir ánægju sinni yfir því að hér væri leyst deilumál. Í þessu frv. er sagt að forræði hæstv. landbrh. sé ótvírætt á þessu málefni. Hvað er það þá sem um var deilt í þessu sambandi sem hæstv. utanrrh. hefur fengið fram og gerir að hann er ánægður með það, úr því að niðurstaðan er algert forræði hæstv. landbrh. og eftir því segir hæstv. utanrrh. að hann hafi látið algerlega undan? En reyndar sagði hæstv. landbrh. hér áðan að það hefði alltaf verið gott samkomulag á milli þeirra þó að hann gæti fyrir örfáum dögum ekki svarað því hvar forræðið mundi liggja í framtíðinni um þessi mál. Þannig að ég get ekki séð eða skilið samhengi í þessum málflutningi og hlýt því að taka undir með Morgunblaðinu í setningunni sem segir: Hvers konar stjórnarhættir eru þetta?