Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 16:17:54 (3172)


[16:17]
     Frsm. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það veitti nú eiginlega ekki af því að taka hæstv. utanrrh. í eilitla sögukennslustund. Það er að heyra á orðum hans að hann sé búinn að gleyma þeim hamagangi sem var í kringum þetta mál þegar það var til umræðu á vorþinginu, hvernig þingi var slitið. Þá var það Alþfl. sem var einn orðinn andvígur því að forræði þessara mála, töku jöfnunargjalda, væri hjá landbrh. og það væri nánast pínleg staða þegar hún var komin upp á miðju sumri og hausti að framkvæmdir samninga strönduðu á þessari andstöðu Alþfl. á síðasta vori.
    Virðulegi forseti. Það kom hér fram miklu meira um það samkomulag sem býr að baki þessa frv. heldur en var gert áður í þessari umræðu. Það kom fram að þetta frv. næði einungis til EES og annarra skyldra mála. Og varðandi það þá hefur landbrh. forræði varðandi töku jöfnunargjalda. En ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann túlki þetta samkomulag þannig að landbrh. hafi einnig forræði varðandi töku jöfnunargjalda vegna GATT þegar kemur að vinnu varðandi það. Ég geri þetta að gefnu tilefni vegna þess að hæstv. ráðherra sagði að það væru hámarkstollar og við værum ekki skyldugir til að beita þeim. Ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé hans skoðun að beita þeim takmörkunum á þann hátt að það krefjist meiri framleiðniaukningar en þeirrar sem landbúnaðurinn er í dag búinn að semja um upp á um það bil 20% á örfáum árum með tilheyrandi verðlækkun.