Tekjustofnar sveitarfélaga

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 16:30:17 (3176)


[16:30]
     Frsm. meiri hluta félmn. Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 471 við frv. til laga um breytingar á lögum nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum, frá meiri hluta félmn.
    ,,Við 10. gr. Ákvæði til bráðabirgða II orðist svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 26. gr. skulu sveitarstjórnir hafa frest til 15. janúar 1994 til að ákveða hvaða hundraðshluti verði lagður á tekjur manna á því ári.
    Tilkynning til fjármálaráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 26. gr., skal hafa borist eigi síðar en 20. janúar 1994. Berist tilkynning sveitarstjórnar ekki innan þess frests skal miða við ákvörðun ársins 1993 að viðbættu 1,5% en þó skal útsvarið að lágmarki vera 8,4%.
    Innheimtuhlutfall útsvars í janúarmánuði 1994 skal miða við ákvarðað útsvar sveitarstjórna á árinu 1993 að viðbættu 1,5% en þó skal það að lágmarki vera 8,4%.``
    Virðulegi forseti. Þar sem frv. náði ekki fram að ganga í sl. viku er ljóst að útilokað er að ætla sveitarstjórnum að taka nú fyrir jól ákvarðanir um útsvarsprósentu á næsta ári. Hér er því lagt til að sveitarstjórnir fái frest til 15. jan. nk. til að samþykkja útsvarsprósentu fyrir árið 1994, en frestur sveitarstjórna til að ganga frá fjárhagsáætlunum sínum er til 31. jan. Þessi tími ætti því að nægja til að ákveða útsvarsprósentuna fyrir 15. jan.
    Þessi frestur á samþykkt frv. leiðir einnig af sér að gera verður bráðabirgðaráðstafanir vegna innheimtuhlutfalls útsvars í staðgreiðslu í janúar 1994. Hér er lagt til að það verði miðað við útsvarsprósentu í hverju sveitarfélagi 1993 að viðbættu 1,5%, en þó skal það að lágmarki vera 8,4%. Innheimtuhlutfall útsvars í staðgreiðslumánuðunum febrúar til desember 1994 yrði hins vegar byggt á ákvörðunum þeim sem sveitarstjórnirnar taka fyrir 15. jan.
    Virðulegi forseti. Önnur tillaga sem hér lá fyrir um hluta þessa máls er þar með dregin til baka.