Tekjustofnar sveitarfélaga

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 17:09:12 (3182)


[17:09]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því við þessa atkvæðagreiðslu að hér er tvennt á ferðinni sem verður að flokkast undir sögulegan viðburð. Annað er það að það er verið að taka inn í tekjustofnalögin ákvæði um skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og ekki aðeins til eins árs heldur með varanlegum hætti. Í öðru lagi er verið að setja hér ákvæði í lög um lágmarksútsvar. Þannig að sveitarfélög sem ákveða eða vilja leggja á lægra útsvar en 8,4% mega það ekki að viðlagðri refsingu sem liggur að vísu ekki enn þá fyrir. Hér er með öðrum orðum um algjörlega einstakan viðburð að ræða, virðulegi forseti, eins og hér hefur skýrt komið fram í umræðunni. Ég greiði því ekki atkvæði.