Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 17:39:29 (3189)


[17:39]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Þarna er að koma inn breyting á ákvæði til bráðabirgða sem að mörgu leyti er óhjákvæmilegt og þarf að gera til þess að heimildirnar séu til staðar á árinu 1994 til þess að úthluta úr Atvinnuleysistryggingasjóði til ráðstöfunar í sveitarfélögunum. Þar að auki má segja að þarna sé gerð ákveðin bragarbót hvað það snertir að það á að koma mótframlag frá ríkinu í atvinnusköpun í sveitarfélögum sem er allt að 600 millj. Ég get hins vegar ekki stutt þessa tillögu eins og hún liggur hér fyrir, bæði vegna þess að það er sagt ,,allt að 600 millj. kr.`` sem getur auðvitað verið hvað sem er þar fyrir neðan, og að auki get ég ekki fellt mig við að inni í þessari tillögu skuli standa þau orð ,,enda verði dregið samsvarandi úr greiðslum atvinnuleysisbóta á viðkomandi stað`` því ég held að með þessari takmörkun sé ekki hægt að leysa mál skólafólksins sem er atvinnulaust. Ég mun því sitja hjá við þessa tillögu.