Tilkynning um dagskrá

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 18:25:07 (3200)


[18:25]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvað það hefur mikið upp á sig að fara út í umræður um það nú hvað hefði verið hægt og hvað ekki á laugardagskvöld og laugardagsnótt. Ég hygg að það sé út af fyrir sig ljóst að þegar staðar er numið og komið aftur til leiks á nýjan leik þá tekur vissan tíma að koma hlutunum í gang og þeir ganga kannski rólegar fyrir sig fyrstu klukkutímana eins og raun hefur orðið á í dag. Ég vil einnig taka undir það að efh.- og viðskn. þarf að hittast eins og einu sinni til að útkljá væntanlega ein tvö atriði sem þar eru ófrágengin. Ég vænti þess ekki að það vefjist fyrir þeirri vösku sveit að gera það fljótt og skipulega og það sem þá er aðallega eftir eru tæknilegar afgreiðslur hér og atkvæðagreiðslur.