Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 21:24:48 (3209)


[21:24]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil í fyrsta lagi fagna því samkomulagi sem tókst í efh.- og viðskn. um breytingar á frv. Þó svo brtt. varðandi 9. gr. sé prentuð á þskj. meiri hlutans er það ljóst að öll nefndin styður þá tillögu að núverandi 9. gr. frv., eins og það liggur fyrir á þskj. eftir 2. umr., falli brott. Af tæknilegum ástæðum og til að flýta fyrir var ákveðið að prenta þá breytingu á tillögu sem meiri hlutinn hafði þegar lagt fram.
    Í öðru lagi er rétt að minna á að við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. var felld út sú grein frv. sem

varðaði tekjutengingu ekknabóta. Þegar þessir tveir liðir frv. eru fallnir út eru báðir þættirnir sem vörðuðu breytingar á lögum um almannatryggingar fallnir á brott. Það er tvímælalaust til mikilla bóta hvað upphaflega gerð frv. snertir. Þessum framförum sem málið hefur tekið vil ég stórlega fagna.
    Þá vil ég svo að lokum, hæstv. forseti, mæla fyrir brtt. sem við flytjum, ég og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, og dreift hefur verið á þskj. 480 og varðar lið sem hér hefur verið nokkuð til umræðu. Það er breyting við núverandi 35. gr. frv. eins og það liggur fyrir eftir 2. umr. Við leggjum til að í síðasta málslið falli niður orðin ,,áður óþekktum`` og svo bætist við greinina: en hann [þ.e. veiðistjóri í þessu samhengi] getur þó undanþegið einstök leitarverkefni slíku fyrir fram samhengi. Málsliðurinn mundi þá hljóða svo þannig breyttur, hæstv. forseti:
    ,,Ríkissjóður tekur ekki þátt í kostnaði við leit að tófugrenjum nema veiðistjóri samþykki leitina fyrir fram, en hann getur þó undanþegið einstök leitarverkefni slíku fyrir fram samþykki.``
    Þetta á sér þau rök, hæstv. forseti, að það hefur verið nokkuð um það rætt hvort yfirleitt væri mikil ástæða til að leita að tófugrenjum nema þau væru óþekkt. Jafnframt er mat manna að ekki sé líklegt né mikil hætta á því að veiðistjóri muni heimila leit í stórum stíl að grenjum nema þau séu óþekkt því að veiðistjóri hefur góða yfirsýn yfir þessi mál. Þá hefur enn fremur komið fram sú ábending að í reynd sé það rökleysa að tala um að grenin séu óþekkt með öllu því að aldrei geti farið svo að a.m.k. refurinn þekki ekki til grenjanna. Það standist því ekki í raun að þau séu með öllu óþekkt ef þau séu til. ( ÓÞÞ: Er seinni hlutinn eingöngu fyrir refinn?)
    Þess vegna er það, hæstv. forseti, að mati okkar flm. rétt að leggja til þessar lagfæringar. Við teljum að veiðistjóri hafi þó, samanber þá tillögu sem við leggjum til að bætist við greinina, möguleika á því að undanþiggja leit á einstökum svæðum fyrir fram samþykki. Hann geti því geti hagað framkvæmdinni að því leyti til eftir því sem handhægast þykir. En það er alveg ljóst að af okkar hálfu er ekki verið að leggja til efnisbreytingu á ákvæðinu heldur að reyna að skýra það og færa það á betra orðalag. Og enn fremur alveg skýrt, til þess að allir séu nú róaðir niður sem hafa áhyggjur af þeim þætti málsins, að það er ekki hætta á því að þetta leiði til útgjaldaauka fyrir ríkissjóð nema síður sé. Ef eitthvað er, þá bindur þetta enn betur þá stöðu sem veiðistjóri hefur til að halda utan um þessi mál. Ætti þá öllum að vera rótt sem áhyggjur hafa haft af þessu máli, bæði þungar og stórar og hafa aðallega snúst um tvennt. Annars vegar málfarið á ákvæðinu og hins vegar hagsmuni ríkissjóðs. (MB: Hefur refurinn áhyggjur af þessum breytingum?) Það er svo út af fyrir sig spurning um það, sem hv. 1. þm. Vestf. vekur máls á í frammíkalli, hvort refurinn hafi ástæðu til að hafa áhyggjur af þessum breytingum. Við teljum að svo sé ekki sérstaklega. Hann megi sæmilega við una eins og aðrir þessari sanngjörnu málamiðlun sem við leggjum til.