Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 22:08:36 (3215)

[22:08]
     Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frhnál. 3. minni hluta efh.- og viðskn. Um afstöðu okkar til málsins í heild vísast til ítarlegs nefndarálits á þskj. 411 og sömuleiðis brtt. sem fluttar eru og endurfluttar verða eða endurvaktar verða við 3. umr. að svo miklu leyti sem þær eru ekki þegar sjálfafgreiddar eða verða sjálfafgreiddar með því samkomulagi sem orðið hefur í málinu.
    Það hefur orðið sú ánægjulega breyting á milli 2. og 3. umr. að tekist hefur um það samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar að gera tilteknar breytingar á málinu og því fögnum við. Þetta snýr fyrst og fremst að því að fella niður áður áformaða upptöku virðisaukaskatts á almenningssamgöngur og þjónustu ferðaskrifstofa. Við hljótum hins vegar að harma það að skrefið var ekki stigið til fulls eins og ég hygg að ærin rök hafi verið til og virðisaukaskattur tekinn af allri ferðaþjónustunni. Það hefur rækilega komið fram í þessari umræðu að þar er á ferðinni sú grein sem menn binda miklar vonir við hvað varðar störf og gjaldeyristekjur í landinu á komandi árum og einmitt yfirstandandi ár er okkur ánægjuleg sönnun þess hvaða möguleikar búa í þessari atvinnugrein en talið er að gjaldeyristekjur munu aukast milli ára um 2.500 millj. af greininni, þar af að raungildi um um það bil helming af þeirri upphæð þrátt fyrir gengisbreytingar og ætla má að beinar tekjur ríkissjóðs af þessum vexti greinarinnar, af þessum viðgangi í ferðaþjónustunni, séu nálægt 500 millj. kr. Það er þess vegna augljóst mál að þeir hagsmunir sem ríkið á í því að greinin fái að dafna og vaxa með sama hætti á næstu árum og hún hefur gert er miklum mun meiri en þeir sem felast í skattlagningu af þessu tagi. Þvert á móti er veruleg ástæða til að ætla að upptaka skattlagningarinnar og þar með lakari starfsskilyrði ferðaþjónustunnar muni í heild sinni skila sér í minni tekjum en ekki meiri til ríkissjóðs þegar dæmið verður gert upp.
    Það er alveg ljóst að þessar breytingar eru þó til mikilla bóta og sérstaklega eins og áður sagði

fögnum við því að almenningssamgöngurnar eru þarna teknar sem heild en ekki eins og áður var áformað fyrir 2. umr. einungis skattinum létt af að hluta til hér á almenningssamgöngum á vegum sveitarfélaga.
    Eins og komið hefur fram þá styður Alþb. upptöku lægra skattþreps á matvöru. Það er í samræmi við þá stefnu sem við höfum haft að það beri að hafa lægri skatta eða enga á brýnustu lífsnauðsynjar eins og matvæli, á svið eins og menninguna og almenningssamgöngur. Við teljum að til lengri tíma litið sé það almenningi tvímælalaust til hagsbóta að haga tekjuöfluninni þannig að þessum mikilvægu sviðum sé hlíft við skattlagningu.
    Um brtt. þær sem liggja nú fyrir af hálfu meiri hlutans er því fljótsvarað að við getum stutt þær nánast allar. Ég vil þó hafa þann fyrirvara á um brtt. varðandi húsnæðissamvinnufélögin eða hlutaeignaríbúðir, sem fjallað er um í 2. tölul. brtt. á þskj. 483, að það er afar óljóst að hve miklu liði ef nokkru þessi breyting kemur þeim sem í hlut eiga og ástæða er til að ætla eins og hv. síðasti ræðumaður gerði að umtalsefni að það geti orðið næsta lítil búbót að því fyrir þá sem eiga í hlut. Ég tel þó að í þessari brtt. felist viss viðurkenning á því að réttur þeirra sem þarna eiga í hlut og hafa verið algerlega útundan, sé viðurkenndur hversu haldgóð sem þessi breyting svo er. Ég leyfi mér því að vona að komi það í ljós að með þessari útfærslu náist ekki sá árangur sem ætlað var til að létta greiðslubyrði þeirra sem búa í húsnæðissamvinnufélögum þá verði það lagfært. Og það er auðvitað alveg ljóst að til þess að dæminu sé lokað þarf að taka saman áhrifin af því annars vegar að þeir sem eru í búseturéttaríbúðum njóti vaxtabóta á búseturéttarhlutnum og hins vegar húsaleigubætur sem taka til leigukostnaðarins eða útgjaldanna að öðru leyti. Þegar það tvennt hefur verið skoðað í samhengi þá ætti ekki að vera vandkvæðum bundið að finna út sambærilegan stuðning við þennan hóp, þ.e. þá sem eiga hluta af sínu húsnæði sjálfir og borga af þeirri fjárfestingu, en greiða að öðru leyti leigu en það er í raun tilfelli með þá sem búa í búseturéttaríbúðum. Því leyfi ég mér að vísa til þess að þessi atriði verði skoðuð í samhengi en hæstv. ríkisstjórn hefur eins og kunnugt er boðað framlagningu frv. um húsaleigubætur á Alþingi eftir áramótin.
    Að lokum vil ég, hæstv. forseti, gera að umtalsefni það samkomulag fjögurra flokka sem gerð hefur verið grein fyrir og kemur fram í brtt. meiri hlutans í 1. tölul. og lýtur að því að taka af vafa um það að framlög til stjórnmálaflokka séu frádráttarbær með þeim takmörkunum sem greinir í 4. gr. þeirra laga. 3. minni hluti styður þetta samkomulag og við gerum það ekki síst í trausti þess að það nefndarstarf, sem hæstv. forsrh. hefur gefið yfirlýsingu um, leiði til samkomulags um skynsamlegar reglur á þessu sviði sem að okkar mati er löngu tímabært að setja.
    Ég held að ég hafi ekki um þetta fleiri orð, hæstv. forseti. Það er að mínu mati heppilegast að þessi nefndarskipan komist á hið fyrsta og ekki ástæða til þess að menn gangi bundnir af yfirlýsingum hér á þessari stundu til þeirrar endurskoðunar eða þess starfs sem þar bíður.
    Ég vil svo að lokum, hæstv. forseti, segja að við fögnum þeim breytingum til bóta sem orðið hafa á þessu frv. og getum í heildina sæmilega við málið unað eins og það er nú orðið, ekki síst í ljósi þess að með lögfestingu lægra skattþreps á matvæli kemst gamalt og nýtt baráttumál Alþb. í höfn.