Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 22:51:41 (3224)


[22:51]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta eru fróðleg orðaskipti hér milli Framsfl. og Alþfl. um stefnu flokkanna í málefnum virðisaukaskatts. En það er ekki svo að Alþfl. hafi alla tíð talað um að það eigi að vera eitt skattþrep í virðisaukaskatti. Ég minni á að eftir flokksstjórnarfund á síðasta ári, í október 1992, birtist á forsíðu Alþýðublaðsins viðtal við formann Alþfl. og frásögn af þessum flokksstjórnarfundi og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Fækka ber undanþágum og lækka álagningarprósentu í virðisaukaskatti, segir m.a. í ályktun sem samþykkt var á flokksstjórnarfundi Alþfl. sem haldinn var á laugardag. Jón Baldvin Hannibalsson formaður flokksins segir að með þessu sé verið að ítreka vilja flokksins til að skattstofninn verði breikkaður, tekin upp tvö þrep í virðisaukaskattinum og hann jafnframt lækkaður.``
    Síðan er lýst yfir sérstökum fögnuði yfir þessari stefnu í leiðara blaðsins þennan sama dag, 6. okt. 1992, fyrir 14 mánuðum.