Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 23:02:19 (3226)

[23:02]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Bara örstutt vegna þess að hv. þm. sem talaði hér á undan fjallaði um nefnd sem á að fjalla um stjórnmálaflokkana. Mér virtist nú að flest það sem hann fjallaði um í sinni ræðu hlyti að koma til skoðunar í því nefndarstarfi og flest af því sem hann sagði, ef ekki allt, er í rauninni eðlilegt innlegg inn í það starf. Ég lít svo á að stjórnmálaflokkar hafi í raun verið bókhaldsskyldir. Og ég lít svo á að þeim sé skylt að gefa skattyfirvöldum allar þær upplýsingar sem þau fara fram á, t.d. hvort framlög sem eru framtalin hjá fyrirtækjum hafi runnið til viðkomandi stjórnmálaflokks og verið til viðkomandi stjórnmálastarfsemi og að stjórnmálaflokkar hafi þurft að gefa út launamiða á þá starfsmenn sem hafi verið launaðir á þeirra vegum þannig að það væri allt saman fram talið og til skila haldið. Hins vegar þarf að sjálfsögðu að setja um þetta ákveðinn lagaramma og ég hygg að allir sem að þessu standa séu tilbúnir til að vinna að því máli.