Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 23:11:38 (3228)


[23:11]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg viss um að ég hafi skilið nákvæmlega hvert hv. þm. Kristín Einarsdóttir var að fara. En ég get upplýst hana um það að tildrög þess að tekið var inn í skattalög á sínum tíma einstakar gjafir til menningarmála, vísindalegra rannsóknastarfa o.s.frv, voru einmitt þau að þessar gjafir eða styrkir höfðu verið frádráttarbærir. Það hafði verið framkvæmd skattalaga og þetta hafði verið talið til kostnaðar í þeim skilningi. En síðan hófu skattstjórar að gera athugasemdir við þessa liði og hv. þm. á þeim tíma þótti ófært að fyrirtækin gætu ekki dregið slíka liði frá skatti. Þannig að það er hin sögulega skýring á því af hverju þessir liðir eru inni. Meiningin var sú að gera þessa frádráttarliði það víðtæka að þeir mundu ná utan um þessa starfsemi.
    Síðan hafa framlögin til stjórnmálaflokkanna verið í framkvæmdinni frádráttarbær. En núna fara skattyfirvöld allt í einu að fetta fingur út í þau og þá verður að taka af öll tvímæli um það hver sé hin rétta löggjöf í þeim efnum. Ég vil t.d. nefna það að mér finnst t.d. ótækt að skattyfirvöld fari að fetta fingur út í það hvað fyrirtæki sem auglýsa í Veru, sem er tímarit sem hv. þm. þekkir ágætlega, séu að greiða fyrir slíka auglýsingu og séu með einhverjar skoðanir á því hvað slík auglýsing hafi mikið markaðsgildi, en það eru ótal dæmi um slík afskipti af hálfu skattstjóra.