Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 23:18:04 (3232)


[23:18]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hæstv. utanrrh. er kominn heim og það minnir okkur á að stutt er til jóla. ( Gripið fram í: Hefur þú einhverja tryggingu fyrir að hann ætli að vera heima á jólunum?) En það er umhugsunarefni að þrátt fyrir mikið upplýsingaflæði úti í heimi þá grípur hann til varnar og vitnar í fyrstu vörn sögunnar, sem hljóðaði eitthvað á þessa leið: Konan sem þú gafst mér --- í þessu tilfelli var það Alþýðusamband Íslands --- sagði mér eða neyddi mig til. Og það sem merkilegra var, hann lýsti því yfir að í þessu máli hefði vitið ekki verið til staðar. Hann fór fram á það eða spurði hv. 1. þm. Austurl. hvort hann treysti sér til að koma fyrir þá vitinu.
    Nú er það svo að sé þetta rétt hjá hæstv. utanrrh. að það þurfi að koma vitinu fyrir ASÍ í þessum efnum, sem hefur ekki löggjafarvald, ræður ekki skattalögum, setur landinu ekki lög, þá hljóta menn að spyrja hversu miklu brýnni nauðsyn er þá ekki að koma vitinu fyrir þá ríkisstjórn sem ber ábyrgð á málunum og er að setja þessi lög, sem einir fjórir aðilar hafa á stuttum tíma lýst yfir að ætti að setja þrátt fyrir að þeir hafi allir undirstrikað að þeir notuðust ekki við sitt vit í þeirri ákvarðanatöku. Sá fyrsti sem reið á vaðið með þessa yfirlýsingu var hæstv. fjmrh. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson veifaði þessu einnig, að vísu á miklu skrautlegri og myndríkari hátt. Eitthvað á þá leið: Ef það væri hljómplata með tíu góðum lögum og einu slæmu, mundir þú ekki kaupa hljómplötuna? spurði þessi mikli sérfræðingur efnahagsmála Íslands. Fréttamaðurinn spurði ekki frekar.
    Hæstv. viðskrh. þessarar þjóðar skrifaði grein í Morgunblaðið þar sem hann þvær hendur sínar eins og Pílatus forðum af þessu verki. Og hæstv. utanrrh. kemur erlendis frá og stígur brúnn og sannlegur í stólinn og gerir grein fyrir því að Alþýðusamband Íslands hafi haft ríkisstjórnina í herkví og þeir hafi orðið að samþykkja þessa hluti.
    Þetta leiðir hugann að því að Alþfl. gaf út stefnu flokksins í skattamálum. Tillaga til þingsályktunar um stighækkandi eignarskatt til tveggja ára, með leyfi hæstv. forseta. Þykkt plagg eins og allir sjá. Hér

er látið að því liggja að það sé hægt að afnema tekjuskattinn og taka upp eignarskatt í staðinn. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh.: Hverjir hræddu Alþfl. frá því að framkvæma þetta? --- Hvar er hæstv. utanrrh.? Er hann horfinn úr salnum? Nú á ég allt undir náð og miskunn hæstv. forseta, hvort hæstv. forseta tekst að tæla hæstv. utanrrh. í salinn eða leitist eftir því í nafni embættis síns að hæstv. utanrrh. komi í salinn.
    ( Forseti (VS) : Forseti hefur þegar gripið til aðgerða og óskað eftir því að hæstv. utanrrh. komi í salinn.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa fært þetta yfir á málfar sem hæfir hershöfðinga ef því er að skipta.
    Ég tel að Alþfl. íslenski, sem er sérfyrirbrigði í jafnaðarmannaflokkum heimsins, skuldi þjóðinni skýringar á því hvers vegna þetta merkilega plagg er látið gleymt og grafið. Hann skuldi þjóðinni skýringar á því hvort þetta plagg sem var samið og boðað um land allt af hæstv. utanrrh. sem boðskapur Alþfl., stefnumörkun hans þegar hann kæmist til valda. 1. flm. er hæstv. Jón Baldvin Hannibalsson, 2. flm. er hæstv. núv. félmrh. Ef einhverjir skyldu halda að hér væru tómir flóttamenn flutningsmenn, þá er það misskilningur. Þetta eru þeir sem stóðu eftir sem fara í broddi fylkingar. Og svo ég þreyti forseta ekki með því að fara yfir efnislega, lið fyrir lið, þá vil ég geta þess að þetta er skilmerkilega samið. Hér merkt 8.9 ( ÓRG: Hvað stóð á miðanum til Jóns, hvernig . . .  ) Ég þakka nú gott tilboð. Þetta er ekki nándar nærri eins hættulegt eins og það sem hæstv. utanrrh. Jón Baldvin fékk frá ASÍ. Hér stendur, með leyfi hæstv. forseta, að stefna Alþfl. í skattamálunum er í örfáum orðum þessi: ,,Að létta skattbyrði launþega.``
    Það hafa aldrei verið hærri skattar lagðir á launþega í þessu landi en nú. Segjum að við tökum trúanlega skýringuna með virðisaukaskattinn. Hæstv. utanrrh. er ekki eini maðurinn sem hefur tapað vitinu af hræðslu. Þetta hefur hent áður, menn hafa orðið það alvarlega hræddir. Það hefur hent áður. Edison vildi prófa það forðum, sem ungur maður, hvort það væri hægt að gera svertingja svo hræddan að hann yrði hvítur. Það hafa verið gerðar ýmsar tilraunir í þessum efnum. En hver er skýringin á því ( Gripið fram í: Að Jón er enn þá hvítur?) að aðalatriði þessa máls, með að létta skattbyrði launþeganna, hefur verið fleygt í ruslakörfuna? Ég verð nú bara að segja eins og er . . .   Ég skil það vel að mönnum finnist þetta skrýtið. --- Hæstv. utanrrh. er horfinn úr salnum, nýkominn til landsins. Hæstv. forseti er þegar búinn að grípa til aðgerða til að ná honum inn í salinn. Og hv. þm. Björn Bjarnason tárast af hlátri og það hef ég aldrei séð hann gera áður.
    En hvað um það. Ég tel að það séu fyrst og fremst kjósendur Alþfl. sem þurfa að fá svar við þessu og það svar þarf hæstv. utanrrh. að gefa þeim. Hann treystir sér greinilega ekki til að gefa það svar í kvöld. Hann treystir sér ekki til þess. En þetta plagg er slík pólitísk sprengja, ef farið er yfir það lið fyrir lið, að annaðhvort eru allar hugsjónir Alþfl. í skattamálum farnar vegna þess að einhver hefur hrætt þá eða þá að það er rangt sem ráðherrann sagði að þeir hefðu verið neyddir til að breyta um stefnu. Það er e.t.v. svo að hæstv. utanrrh. er búinn að gleyma öllum hugsjónum sem voru til staðar þegar hann flutti þetta máli inni á Alþingi Íslendinga, endanlega búinn að gleyma því að jafnaðarmannaflokkur þarf að hafa aðra stefnu í skattamálum en þá sem samrýmist stefnu hægri sinnaðasta flokksins í landinu á hverjum tíma. Það gengur ekki upp og það gengur ekki upp í neinu landi nema á Íslandi sá fáránleiki, að jafnaðarmannaflokkur landsins og hægri sinnaðasti flokkur landsins fari í eina sæng í skattamálum þannig að maður sér ekki á milli hvor er ánægðari með þá skattastefnu sem framkvæmd er.