Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 23:29:44 (3233)


[23:29]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir afstöðu okkar kvennalistakvenna til skattlagningar matvæla, en sú skattlagning er ekki svo ýkja gömul. Ég tók jafnframt fram að skoða yrði gaumgæfilega hvaða aðgerðir væru helst til þess fallnar að koma launafólki til góða nú þegar tekjuskerðing launafólks er orðin slík að mjög alvarlegt má teljast og sést það best á því hversu margir úr hópi láglaunafólks hafa þurft að leita á náðir hjálparstofnana núna fyrir jólin.
    Allmiklar upplýsingar liggja fyrir, en því miður eru þær afskaplega misvísandi og ég ætla ekki að efast um að það leikur vafi á að margar leiðir er hægt að fara til að bæta stöðu láglaunafólks eins og umræðurnar hér hafa sýnt. Það er mín niðurstaða að styðja eindregið lækkun virðisaukaskatts á matvælum. Ég lít á það sem skref í áttina að því að fella skattinn alveg niður en það er eitt brýnasta hagsmunamál launafólks, ekki síst láglaunafólks, sem eyðir a.m.k. 1 / 4 hluta tekna sinna að meðaltali í matvæli, sem merkir það að þeir verst settu eyða stærri hluta tekna sinna í mat og þær tekjur eru ekki ríflegar.
    Nokkuð hefur verið deilt um það hvort lækkun virðisaukaskatts muni skila sér til þeirra sem helst þurfa á að halda. Það sem mér finnst sitja þarna eftir er fyrst og fremst það að barnmargar láglaunafjölskyldur eru sá hópur sem líklegast er að njóti góðs af þessu burt séð frá öllum krónutöluútreikningum. Því miður hafa þessar tölur ekki verið samkeyrðar þrátt fyrir að einhver okkar hafi sóst eftir þeim upplýsingum. En ég læt fólki hér eftir að draga sínar ályktanir því það er ljóst að í þeim töflum frá Þjóðhagsstofnun sem koma fram í nál. 2. minni hluta efh.- og viðskn. kemur fram að tekjulægsti hópurinn sem er tilgreindur þar eyðir fjórðungi tekna sinna í matvörur á meðan sá tekjuhæsti sem þar er tilgreindur eyðir um 15% af sínum tekjum, 15,8% svo ég sé nú nákvæm, en það eru 24,9% sem tekjulægsti hópurinn eyðir. Aftur á móti kemur einnig fram að hjón með börn yngri en 16 ára, með fjögur börn og fleiri, eyða að meðaltali 24,7% í matvæli miðað við neyslu. Þarna er um að ræða allar fjölskyldur með fjögur börn, ekki bara þær tekjulágu. Þannig að ef þessar tölur væru reiknaðar saman þá geri ég ráð fyrir því að þar fengjum við barnmargar tekjulágar fjölskyldur sem eyddu verulegum hluta tekna sinna, ég vil segja svívirðilega miklum hluta tekna sinna, til þessara nauðþurfta sem er að brauðfæða fjölskylduna. Þetta finnst mér vega afskaplega þungt og mér þykir mjög miður að við höfum ekki haft þessar tölur undir höndum, þar sem tekinn er sérstaklega sá hópur sem hefur lágar tekjur og mörg börn á framfæri. En þessar tölur hafa ekki legið fyrir þrátt fyrir fyrirspurnir um þær og þetta hefur ekki verið tekið sérstaklega fyrir í þessari umræðu.
    Mér finnst nauðsynlegt að líta á þetta þar sem á sama tíma eru aðrar góðar hugmyndir uppi um að hækka m.a. barnabótaauka til þessa hóps. Það eru mjög góðar hugmyndir. En ef það á að fara út í einhvern samanburð þá verður sá samanburður að vera á réttum nótum þannig að það sé verið að líta á sama hópinn, þá sem þurfa á því að halda, vegna fjölda barna og lágra tekna, að fá verulega kjarabót. Meðaltalstölur sem við höfum séð í þessum umræðum, að láglaunafólk muni fá að meðaltali eitthvað um 3.000 kr. viðbótarráðstöfunartekjur á mánuði með þeim aðgerðum sem hér hafa verið samþykktar í 2. umr., segja ekki nema hálfa söguna því það vantar þarna inn í að afmarka barnafjölskyldurnar sérstaklega og þá sérstaklega barnafjölskyldurnar sem hafa mörg börn á framfæri og litlar tekjur til að mæta útgjöldum sínum.
    Það sem er kannski nöturlegast í allri þessari umræðu er að við erum að tala um, hvaða leið sem farin yrði, aðgerðir sem duga ekki til þess að hleypa þessum stóra hópi sem nú er að leita neyðarhjálpar upp á það stig að geta framfleytt sér og sínum svo sæmd sé að, án þess að vera með neina ofrausn. Þetta finnst mér einfaldlega staða sem við eigum ekki að sætta okkur við í þessu samfélagi sem við búum í.
    Það hefur líka svolítið verið rætt hvort hér sé um að ræða skattlagningu á réttum matvælum og ég tek undir gagnrýni þeirra sem benda á að hér er verið að lækka virðisaukaskatt af munaðarvöru sem telst til matvæla. Það tel ég að sé óþarfi og ég held að það hafi ekki verið nauðsynlegt. Það er miður að hluti af þessu tekjutapi ríkissjóðs skuli fara í slíkt vegna þess að þetta er einfaldlega ekki forgangsefni. En þetta lýsir sama hugsunarhætti og því að sjá allt því til foráttu að skattleggja sérstaklega lúxusvarning af öllu tagi. Þetta er gjarnan gert í skjóli þess að kerfisbreytingar séu svo erfiðar. Ég held að ég láti mér nægja að vísa til ræðu hv. 6. þm. Vestf. um það að menn mikla dálítið fyrir sér kerfisbreytingar, en hún flutti sína ræðu við 2. umr. þessa máls.
    Sem betur fer hefur barátta okkar stjórnarandstæðinga fyrir því að reyna að ná út hluta af því versta sem fólst í þessu frv. borið nokkurn árangur og vísa ég þá sérstaklega á þann árangur sem hefur náðst vegna fólksflutninga og ferðaþjónustu, að þeim hluta sem þar á við. Þarna hefði að sjálfsögðu verið betra að ná meiri árangri, en við erum allavega að horfa fram á það að staðan er betri en hún hefði verið ef frv. stjórnarsinna hefði verið samþykkt óbreytt.
    Ég held að ég lengi þessa umræðu ekki mikið meira með athugasemdum að þessu sinni og vísa til þess sem hv. 15. þm. Reykv. sagði um brtt. okkar kvennalistakvenna, þótt full ástæða væri til að fara nánar út í þau mál.
    Ég vil að lokum geta þess varðandi þá brtt. að ég held að við göngum afskaplega skammt í átt til þess að veita þá þróunarhjálp sem okkur væri sæmandi sem þjóð. Þar af leiðandi sé það meira en sjálfsagt að reyna a.m.k. að koma til móts við þau fyrirtæki sem kjósa að verja sínum fjármunum til þróunarhjálpar, því þar er mikið verk að vinna og við þurfum bæði að vera tilbúin til þess að líta alvarlega á stöðu þeirra sem verst eru settir í okkar þjóðfélagi og þeirri veröld sem við lifum í.