Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 23:39:37 (3234)


[23:39]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er spurning hvort hægt væri, hæstv. forseti, að fá að ná eyrum hæstv. utanrrh. sem í raun og hóf þessa umræðu veru með þeim hætti sem hún hefur staðið nú um nokkurt skeið, þannig að það sé hægt að fara aðeins yfir málin með honum með hliðsjón af því að fáir menn eiga sér í rauninni skrautlegri sögu í matarskattsmálum en einmitt hæstv. utanrrh. En áður en ég kem að því sérstaklega og meðan það er kannað, sem ég vænti að forseti geri, hvort kostur er að fá ráðherrann hingað, þá ætla ég að víkja að nokkrum atriðum sem hér hafa komið fram hjá öðrum aðilum.
    Hæstv. forseti. Um árabil, mér liggur við að segja um áratuga skeið, hefur það verið þannig að þegar kjarasamningar hafa verið gerðir sem hafa náð til flestallra aðila á hinum almenna vinnumarkaði, ASÍ og VSÍ, hefur það aftur og aftur gerst að þar hafa fengist pólitískar niðurstöður sem Alþingi hefur síðan tekið til meðferðar. Og það hefur verið reglan að langflestir stjórnmálaflokkar hafa, jafnvel þó þeir hafi viljað gagnrýna einstök atriði í því sem fram hefur komið, tekið við þessum niðurstöðum. Ég hygg að það sé á engan flokk hallað þó það sé fullyrt að enginn flokkur hafi gengið framar í kröfum að því er þessa hluti varðar en Framsfl. Framsfl. hefur gert kröfur til þess að Alþingi og ríkisstjórn á hverjum tíma tæki jafnan við því sem kæmi frá svokölluðum aðilum vinnumarkaðarins í öllum meginatriðum.
    Það sem mér er efst í huga í þessu efni eru samningarnir 1986 þegar Framsfl. fór með stjórnarforustu og stýrði samsteypustjórn með Sjálfstfl. Þá voru gerðir samningar sem m.a. breyttu mjög verulega

húsnæðiskerfinu sem reyndist mjög erfitt að standa við. Um þetta leyti voru einnig gerðir samningar sem höfðu það í för með sér að bifreiðar lækkuðu stórkostlega í verði. Og það var talin kjarabót fyrir hina almennu launamenn í landinu. Þá var flokkur á Alþingi Íslendinga sem hét Bandalag jafnaðarmanna og hreyfði athugasemdum við þessari kjarasamninganiðurstöðu en þorði þó ekki að lokum að greiða atkvæði gegn niðurstöðunni eins og hún lá fyrir í frumvarpsformi hér. Þorði ekki, segi ég, hæstv. forseti, fyrst og fremst vegna þess að þáv. ráðherrar Framsfl. og Sjálfstfl. höfðu hamast á þingmönnum þessa flokks fyrir ábyrgðarleysi að því er þessa hluti varðar.
    Ég lít ekki þannig á, hæstv. forseti, að það eigi að taka öllu sem svokallaðir aðilar vinnumarkaðarins samþykkja eins og endanlegum sannleika og að hlýða því. Það er ekki svo. Og ég get viðurkennt að það hefur oft komið fyrir í þeim ríkisstjórnum sem ég hef átt þátt í að mér hefur nánast að segja blöskrað það sem komið hefur út úr þessum samningum. Engu að síður þegar um heildarsvip mála hefur verið að ræða hafa menn kosið að fallast á þessa hluti í öllum meginatriðum. Og hvers vegna segi ég þetta, hæstv. forseti? Ég segi það vegna þess að fyrr í kvöld lét varaformaður Framsfl. falla orð sem ég tel algerlega ný af hálfu framsóknarmanna á Alþingi, a.m.k. þann tíma sem ég hef hér setið. Orðin voru þessi: Hver ætlar svo í verkfall út af því? Með öðrum orðum var spurt eða sagt nánast með þessari spurningu að ríkisstjórnin hefði átt að taka þá áhættu að menn hefðu jafnvel lagt til verkfalls fremur en að fallast á þá niðurstöðu sem kom út úr kjarasamningunum sem var þó ekki fundin upp af verkalýðshreyfingunni heldur birtist í tilboði sem ríkisstjórnin sjálf gerði aðilum vinnumarkaðarins. Og hefði það þá ekki verið sérkennilegt eftir að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur höfðu fallist á þetta tilboð ríkisstjórnarinnar að menn hefðu þá sagt sem svo við þessa aðila vinnumarkaðarins: Látið þið þetta eiga sig. Förum aðra leið. Og hver ætli svo sem fari í verkfall út af því?
    Ég segi alveg eins og er, hæstv. forseti. Ég hef séð miklar breytingar á mönnum og flokkum og stjórnmálasamtökum í þessum sal þann tíma sem ég hef setið hér. Ég hygg að þær myndbreytingar sem mér birtast á þessu kvöldi í forustu Framsfl. séu algerlega með ólíkindum. Og ég segi: Framsóknarforustan hefði aldrei sagt þetta nema af því að hún er í stjórnarandstöðu. Hún hefði aldrei sagt þetta við verkalýðshreyfinguna eða atvinnurekendur ef hún hefði verið í stjórn af því að þá heldur framsóknarforustan ræðurnar um hina ábyrgu stjórnmálaleiðtoga.
    Með þessu, hæstv. forseti, er ég ekki að segja að menn eigi að taka hverju sem kemur út úr kjarasamningum. Ég er að segja: Mig undrar að heyra hjá varaformanni Framsfl. setningu af þessu tagi: ,,Hver ætlar í verkfall út af því?`` Sérstaklega þegar það líka lá fyrir, hæstv. forseti, og hefur legið fyrir um margra mánaða skeið að verkalýðshreyfingin hefur talið sig bundna af þeirri niðurstöðu sem þarna var um að ræða. Hvað svo sem efni málsins leið, sem ég ætla að koma að aðeins á eftir, þá töldu menn sig bundna og þess vegna hlutu menn að fylgja hlutunum eftir með þeim hætti sem gert var.
    Út af fyrir sig er það líka athyglisvert að þetta skuli gerast með þeim hætti sem við sjáum hér í salnum í kvöld. Ég tala ekki um á laugardagskvöldið þegar þess er gætt að valdamesta stofnunin í Framsfl. hefur gert samþykkt um allt annað á sínu síðasta flokksþingi. Það er býsna athyglisvert, hæstv. forseti. Ég vænti þess að allmargir alþingismenn hafi lesið eða muni lesa síðasta bindið af ævisögu Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Þar segir glöggt frá glímu hans við flokksþing Framsfl. um árabil og með hvaða hætti hann vildi að hlutirnir gengju þar fyrir sig. Þá var uppi sú lína í Framsfl. og reyndar í fleiri flokkum að flokksþingin ættu að geta bundið þingmenn. Á þeim tíma töldu ýmsir af forustumönnum þess flokks og reyndar annarra líka að það væri fráleitt en aðrir töldu það rétt.
    Auðvitað stenst það ekki að flokksþing bindi þingmenn á höndum og fótum. Það er rétt sem hv. 1. þm. Austurl. hefur hér sagt aftur og aftur. Auðvitað er það ekki svo. En það kemur engu að síður á óvart að hlutirnir gerist með þeim hætti sem þeir hafa birst okkur hér.
    Nú eru þeir sem tala fyrir þessari stefnu hér einir á báti. Vissulega er hér um að ræða má segja flokkslega stefnu Alþb. og ég skil það vel að það sé erfitt fyrir ríkisstjórnina, Alþfl. og Sjálfstfl., að tala fyrir stefnu Alþb. Það hefur vafist fyrir þeim og þeim er auðvitað nokkur vorkunn í þeim efnum. Það hefur líka oft verið hálfvesældarlegur málflutningur til réttlætingar á þessum niðurstöðum enda má segja að þeir séu ekki í mikilli æfingu að tala fyrir stefnu Alþb. En gott og vel, þakka ber þá tilraun sem uppi hefur verið höfð í þeim efnum.
    Alþýðusamband Íslands hefur stutt þessa stefnu og þessar kröfur og Vinnuveitendasamband Íslands. Það hafa fleiri aðilar gert eins og Stéttarsamband bænda t.d. Og það er skrýtið að í umræðum hér í kvöld er talað um það eins og einhverjir örfáir aðilar úti í þjóðfélaginu standi að þessu í kringum hina helgu verkalýðsforustu þegar þess er gætt að á bak við þetta eru flokkssamþykktir fleiri en eins stjórnmálaflokks og fleiri en tveggja. Það eru samþykktir alþýðusambandsþinga, verkalýðssambandaþinga hvarvetna og það eru samþykktir frá stjórn Stéttarsambands bænda af stjórnarfundi sem var haldinn 15. des. 1993. Það eru samþykktir frá fleiri aðilum sem eru á bak við þessa stefnumótun og þeim mun sérkennilegra er það að menn skuli telja að það sé hægt að henda henni út í hafsauga og hafa hana að engu.
    Vitaskuld er það svo að það er að mörgu leyti eðlilegt miðað við allar aðstæður að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja skuli hafa haft uppi aðrar áherslur en Alþýðusambandið í þessum málum. Rökin fyrir því eru alveg augljós, þ.e. fyrst og fremst þau, hæstv. forseti, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur talið að ASÍ hafi iðulega tekið fram fyrir hendurnar á opinberum starfsmönnum að því er varðar einstakar samningsniðurstöður. Það hafi m.a. haft það í för með sér að þrengt hefur að því sem ella hefði verið hjá opinberum starfsmönnum og kennurum. Það er veruleiki sem við sem höfum komið nálægt þessum málum á undanförnum árum og áratugum þekkjum. En það breytir ekki því að við hljótum að horfa á málin eins og þau eru.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. birtir á þskj. 411 mjög ítarlegt nál. um þessi mál þar sem kemur fram hvaða áhrif lækkun matarskattsins hefur á kjör fjölskyldnanna í landinu. Hver er niðurstaðan? Hún er sú að það muni langmest um þessa lækkun hjá stórum fjölskyldum og barnafjölskyldum. Þeim mun meira eftir því sem fjölskyldurnar eru stærri og börnin eru fleiri. Það liggur alveg fyrir. Þetta eru útreikningar Þjóðhagsstofnunar. Þetta eru ekki útreikningar Alþýðusambandsins. Þetta eru ekki tölur upp úr Vinnunni eins og var vitnað í hér áðan. Þetta eru útreikningar frá Þjóðhagsstofnun. Það er því alveg skýrt að þegar kemur að hinum stóru fjölskyldum, barnafjölskyldum, sem eyða langmestum hluta tekna sinna í mat þá liggur það þannig að hér er um tekjujöfnunaraðgerð að ræða. En um það hafa út af fyrir sig verið deilur.
    Árið 1978 þegar Alþb. knúði það fram að söluskattur var felldur niður af matvælum var á það deilt. Árið 1987--1988 þegar Alþfl. knúði fram söluskatt á mat, matarskattinn fræga, var um það deilt. Haustið 1988 þegar formaður Sjálfstfl. lét sér detta það í hug að lækka skatt á matvælum var það kallað rýtingsstunga og lagði að velli heila ríkisstjórn. Nú er greinilegt að það svíður enn eftir matarskattsumræðuna 1987--1988. Það er það sem liggur hér fyrir, hæstv. forseti. Það er sérkennilegt að horfa upp á það hverjir virðast vera efnislega séð bandamenn á þessu kvöldi.
    Niðurstaða kjarasamninganna liggur hér fyrir. Um það eru ekki neinar deilur. Og ég fullyrði að Framsfl. hefði samþykkt þessa niðurstöðu ef hann hefði verið í stjórn. Ég fullyrði að Framsfl. hefur ekki breyst svo mikið þrátt fyrir það sem sagt hefur verið hér í kvöld að hann hefði snúið af þeim vegi. En ég spyr hv. 1. þm. Austurl. og hæstv. utanrrh.: Munu þeir, fengju þeir til þess afl, beita sér fyrir því að loknum næstu kosningum að leggja matarskatt á á Íslandi að nýju?