Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 23:57:50 (3238)


[23:57]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. 1. þm. Austurl. að það á að taka tillit til staðreynda og ekki gera lítið úr staðreyndum. Og staðreyndirnar eru þessar: Þessi niðurstaða í skattamálum að því er varðar matarskatt var niðurstaða kjarasamninga. Það er sú staðreynd sem menn stóðu frammi fyrir. Hún er þannig til komin að ríkisstjórnin bauð þessa niðurstöðu. Og hæstv. forsrh. var að enda við að tilkynna það í sjónvarpinu áðan að þetta væri í rauninni skásta niðurstaðan miðað við allar aðstæður. Ég skil það hins vegar mjög vel að það sé erfitt fyrir Alþfl. að tala fyrir þessari stefnu Alþb. sem er þvert á matarskattsstefnu alþýðuflokksforustunnar.