Skattamál

72. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 00:10:36 (3240)


[00:10]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að blanda mér í þessa furðulegu umræðu Framsfl. og Alþfl. hér í kvöld. En satt að segja er málflutningur þeirra hæstv. utanrrh. og hv. 1. þm. Austurl. með slíkum hætti að það er mjög erfitt að sitja í salnum og segja ekki nokkur orð þótt senn sé kominn nýr dagur og þinginu ætlað að ljúka störfum.
    Ég veit satt að segja ekki í hvaða heimi þessir tveir ágætu menn, sem ég hef starfað mikið með og með góðum árangri, eru eiginlega í þessari umræðu. Það væri þess vegna vissulega tilefni til að rekja nokkuð ítarlega margt í kvöld en ég ætla þó ekki að gera það heldur bara drepa á fáein atriði.
    Hv. 1. þm. Austurl. hefur vitnað í ýmsar greinargerðir sem hafa verið til frá minni tíð í fjmrn. og það er alveg rétt hjá honum. Þessar greinargerðir voru allar til þegar Framsfl. mótaði sína flokksstefnu í mars á þessu ári að taka upp tveggja þrepa virðisaukaskatt. Það hefur engin greinargerð komið fram í dagsljósið sem máli skiptir eftir að Framsfl. samþykkti þá stefnu. Vissi Framsfl. þá ekki hvað hann var að gera í mars á þessu ári eða hvað? Framsfl. hafði öll þau gögn frá embætti ríkisskattstjóra og embættismönnum fjmrn. sem hann þurfti á að halda í þessu máli frá tíð okkar í síðustu ríkisstjórn.
    Staðreyndin er hins vegar sú að það er margt í þessum gögnum embættismanna ríkisskattstjóra og embættismanna fjmrn. sem segir bara mjög takmarkaða sögu í þessum málum. Þess vegna ég féllst aldrei á röksemdir ríkisskattstjóra eða ýmissa ágætra embættismanna í fjmrn. í þessu máli meðan ég var fjmrh. Ég tel að stjórnmálamenn sem vísa bara í embættismenn og segja: Þeir segja þetta, þess vegna skipti ég um skoðun, séu að bregðast hlutverki sínu. Stjórnmálamenn sem eru bara orðnir tæki fyrir embættismenn gegna ekki hlutverki sínu.
    Staðreyndin er nefnilega sú að hættan á skattsvikum í virðisaukaskattskerfinu liggur ekki í tveggja þrepa virðisaukaskatti. Það er rangt. Það er í grundvallaratriðum rangt að stærsta hættan á skattsvikum liggi þar. Stærsta hættan á skattsvikum í virðisaukaskatti liggur í nótulausum viðskiptum. Hún liggur í kössum þar sem ekki er stimplað inn eða sem ekki eru til á viðskiptastað eða þar sem skúffan er alltaf opin. Stærsta hættan í virðisaukaskattskerfinu liggur í þessu neðanjarðarhagkerfi sem tveggja þrepa virðisaukaskattur á matvælum kemur aldrei inn á vegna þess að matvælaverslunin í landinu fer fram í skipulagðri verslunarstarfsemi, aðallega í stórum fyrirtækjum sem hafa 80--90% af versluninni með matvæli í landinu. Og það eru fyrirtæki sem yfirleitt telja fram með svo öruggum hætti að ekki aðeins allt bókhald þeirra heldur viðskipti hvers einasta viðskiptamanns eru tölvuvædd.
    Og að fyrrv. ráðherra og núv. hæstv. utanrrh. komi hér í ræðustólinn og tali eins og vandamálin í virðisaukaskattinum liggi í tveggja þrepa skatti er þess vegna eins og menn hafi bara ekki fylgst með, hvorki þegar hæstv. utanrrh. var fjmrh. né heldur síðar. Ef menn vildu í raun berjast gegn skattsvikum í virðisaukaskatti, þá ættu þeir að taka upp baráttu gegn þessu, en það er ekki ein einasta tillaga um það.
    Þannig væri hægt að fara mörgum orðum um það að öll þessi kenning um að það liggi einhver stórfelld skattsvikahætta í tveggja þrepa virðisaukaskatti er einfaldlega röng. Ég hef sjálfsagt ásamt örfáum mönnum hér í þessum sal þurft að eyða mestum tíma allra í að hlusta á og fara í gegnum umræður um akkúrat þetta atriði. Það var þess vegna þó að ég væri ötull baráttumaður fyrir öruggu skattkerfi á Íslandi að ég sannfærðist aldrei um að röksemdin fyrir öryggi virðisaukaskattskerfisins væri svo sterk að hún

ætti að upphefja pólitíska réttlætið í því að hafa lægri skattprósentu á matvælum.
    Annað atriði sem hvorugur þessara ágætu manna hefur minnst á í þessum umræðum, og hafa þeir þó báðir verið ötulir talsmenn alþjóðlegrar samræmingar á íslenska hagkerfinu, er sú staðreynd að í velflestum viðskiptalöndum okkar í Evrópu er margþrepa virðisaukaskattur og lægra þrep á matvælum. Í hverju á aðlögun íslenska efnahagskerfisins að efnahagskerfinu í Evrópu að felast? Hún á ekki bara að felast í einhverjum reglum sem settar eru af Evrópubandalaginu. Ef hún er marktæk, þá verður hún einnig að felast í samræmdri skattastefnu. Þetta veit hæstv. utanrrh. og þetta veit einnig hv. 1. þm. Austurl. Það gengur ekki upp að ætla sér að aðlaga efnahagslífið í gegnum EES en gera það ekki í gegnum skattkerfið, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, hæstv. utanrrh. Það er þess vegna sem við hér á Íslandi, vegna þeirrar aðlögunar, verðum að taka upp skattlagningu fjármagnstekna og verðum einnig að hafa svipað virðisaukaskattskerfi á Íslandi eins og Evrópuþjóðirnar hafa. Og hvað eru Evrópuþjóðirnar að ákveða? Jú, þær eru einmitt að ákveða að hafa lægra skattþrep á matvælum. Það er það sem Evrópuþjóðirnar eru að ákveða. Ég sé að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hristir höfuðið. Það er nefnilega dálítið merkilegt að sá hluti Framsfl. sem studdi EES-samninginn skuli vera baráttumenn fyrir því að vilja ekki aðlaga íslenska virðisaukaskattskerfið að því sem er að gerast hjá löndunum í Vestur-Evrópu þar sem Danmörk, sem maður vitnar nú aðallega í, er undantekningin og hún er einmitt í þeim vanda hvernig Danmörk ætlar að laga sig að því virðisaukaskattskerfi sem hin ríkin í Evrópubandalaginu eru að þróa hjá sér.
    Það er þess vegna hægt, virðulegi forseti, að fara hér ítarlega út í það að sýna fram á með a.m.k. jafngildum rökum og þessir tveir ágætu þingmenn, hæstv. ráðherra og hv. 1. þm. Austurl. hafa gert, að sýna fram á að það er enginn algildur sannleikur um það að hér verði einhver héraðsbrestur í skattkerfinu þó tekinn verði upp tveggja þrepa skattur á matvælum í virðisaukakerfinu. Það er bara einfaldlega villukenning.
    Ég ætlast hins vegar ekki til þess að hæstv. utanrrh. trúi mér í kvöld í þessum efnum vegna þess að hann er satt að segja búinn að syngja þennan söng alveg síðan 1987 og kannski fyrr. Ég fer ekkert fram á það að hann trúi mér frekar í kvöld heldur en hann trúði mér þegar við vorum saman í ríkisstjórn. (Utanrrh.: Enda gerir hann það ekki.) Við höfum einfaldlega alltaf verið ósammála um þetta atriði. En það mun koma í ljós, hæstv. utanrrh. og hv. 1. þm. Austurl., að það verður enginn héraðsbrestur í virðisaukskattskerfinu þó hér verði tekið upp tveggja þrepa kerfi í matvælum 1. janúar og jafnvel þótt fjmrn. og ríkisskattstjóri hafi lítið gert til að undirbúa það.
    Það er satt að segja aðalásökunarefnið á embætti ríkisskattstjóra að þegar það er búin að vera yfirlýst stefna hæstv. ríkisstjórnar síðan í vor að taka upp tveggja þrepa kerfið í virðisaukaskatti þá skuli embætti ríkisskattstjóra ekki vera með kerfið fulltilbúið nú. Það mætti hafa stór orð um slíka embættismenn sem ekki vinna heimavinnuna sína hvað það snertir. Ég vona að hæstv. fjmrh. tali aðeins við þá út af því ef það er virkilega staðreyndin að embætti ríkisskattstjóra sé ekki tilbúið.
    Það er svo einnig mjög ómerkilegt af hæstv. utanrrh. að koma hér í kvöld og segja það að verkalýðshreyfingin hafi stillt ríkisstjórninni upp við vegg. Ég spyr hæstv. utanrrh.: Af hverju er hann að ráðast svona á sessunaut sinn, hæstv. forsrh.? Er hann búinn að gleyma öllum yfirlýsingum hæstv. forsrh. frá því í vor og frá því í haust um það hvernig hæstv. forsrh. tók sér það sérstaklega fyrir hendur að beita sér fyrir þessari tillögugerð til þess að ná kjarasamningum? Ef einhver einn maður á hlut að því að þetta gerðist þá er það hæstv. forsrh. Ég tel að hann hafi sýnt stjórnvisku í þeim efnum. Ég tel það satt að segja vera eitt af hans stærri verkum í embætti að hann hafði vit og yfirsýn til þess að stýra málunum í þessa höfn þrátt fyrir andstöðu Alþfl. Mótmælti Alþfl. þá, hæstv. utanrrh.? Nei. Alþfl. mótmælti ekki þá. Og hvílíkur ódrengskapur að koma hér nú og koma sökinni yfir á aðra þegar hæstv. utanrrh. kom sjálfur á vettvang og hreyfði engum andmælum sl. vor, hreyfði engum andmælum í sumar, engum andmælum í haust fyrr en kom að endurnýjun samninganna. Satt að segja er þessi málflutningur hæstv. utanrrh. í kvöld algerlega með eindæmum. Og það á kannski ekki að taka hann neitt alvarlega frekar en þá ræðu sem hann flutti við stefnuræðu forsrh. í upphafi þings.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að verja lengri tíma til þess að láta í ljósi skoðanir mínar um þetta atriði. Ég tel þess ekki þurfa. Það hefur verið stefna Alþb. í mörg ár að það væri eðlilegt að hér væri lægra skattþrep á matvælum og ég heyrði engin þau rök þann tíma sem ég sat í fjmrn. sem sannfærðu mig um að það væri óæskilegt út frá öryggisþáttum skattkerfisins. Félagar mínir sem sátu með mér í þeirri ríkisstjórn vita að ég flutti ávallt tillöguna um tveggja þrepa virðisaukaskatt meðan ég sat sem fjmrh. og tókst að lokum að ná þeirri málamiðlun að tekið var upp endurgreiðslukerfi sem hefur verið við lýði síðan á ákveðnum þáttum innlendra matvæla og skilað góðum árangri.
    Að vísu spáðu ýmsir þingmenn Sjálfstfl. því þá, og er nú leitt að hv. 1. þm. Austurl. er farinn úr salnum, að það yrði ekki hægt að framkvæma það kerfi. Þær hrakspár reyndust hins vegar rangar. Það er eiginlega dálítið fyndið að ég skuli þurfa að standa hér í kvöld í eiginlega nákvæmlega sömu sporum gagnvart hv. 1. þm. Austurl. og hrakspám hans eins og hrakspám Sjálfstfl. varðandi þessa framkvæmd fyrir nokkrum árum síðan.
    Ekkert af þessu varð hins vegar til þess að ég bað hér um orðið heldur voru það ummæli sem hv. 1. þm. Austurl. lét frá sér fara og hefur ítrekað síðan. Mér finnst þau satt að segja svo alvarleg að ég bara trúi því ekki að þau séu stefnuafstaða Framsfl. Það eru þau ummæli að ríkisstjórnin eigi að taka þá áhættu

að kjarasamningunum verði sagt upp ef tillaga Framsfl. verður samþykkt. Það eru ekki léttvæg orð. Og það að stjórnmálaflokkur með jafnmikinn þingstyrk og Framsfl. hefur og verið hefur í forustu ríkisstjórnar með góðum árangri skuli boða þá stefnu að þingið eigi að mynda meiri hluta gegn meginforsendu kjarasamninganna og það sé allt í lagi að taka þá áhættu að þeim verði sagt upp. Ríkisstjórnin er síðan eggjuð til þess ekki bara einu sinni heldur aftur í þessu ræðustól að taka þá áhættu. Og svo er bara spurt af stærilæti: Hver haldið þið að fari í verkfall út af því? Fyrst þegar þetta var sagt hér í kvöld hélt ég að þetta hefðu verið mistök. En svo voru þessi ummæli endurtekin og áréttuð. Er það virkilega þannig að það sé orðið stefnuatriði hjá Framsfl. að ögra verkalýðshreyfingunni, Alþýðusambandinu, gagnvart meginforsendu kjarasamninga og þingið slíti hana í sundur og þar með vinnufriðinn í landinu, þar með óvissuna í efnahagsmálum, þar með ný óvissa í vaxtamálum, þar með ný óvissa í gengismálum o.s.frv.?
    Hv. 1. þm. Austurl. veit það jafn vel og ég hvaða áhrif það hefur á efnahagslífið ef kjarasamningum er svipt í sundur. Og hvernig á verkalýðshreyfingin að ganga á ný til kjarasamninga ef hún á það á hættu að á kannski miðju samningstímabilinu verði meginforsendu samninganna svipt í burtu með þessum hætti? Ef eitthvað eflir ófrið við verkalýðshreyfingu, þá er það akkúrat slík aðgerð og það mun taka langan tíma fyrir þau sár að gróa.
    Ég veit það að forseti Alþýðusambandsins gekk í október á fund forustumanna allra stjórnarandstöðuflokkanna, mín, formanns Framsfl., Steingríms Hermannssonar og ég held Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrir Kvennalistann. Þó er ég ekki alveg viss um hver var fulltrúi Kvennalistans, en ég veit að hann átti fundi með Steingrími Hermannssyni, formanni Framsfl. eins og hann átti fund með mér til þess að kanna hug flokka okkar gagnvart framlengingu kjarasamninganna. Ég vil spyrja að því hér: Tjáði formaður Framsfl. forseta Alþýðusambandsins þá í októbermánuði að það mundi verða afstaða Framsfl. að það ætti að svipta þessari meginforsendu kjarasamninganna í burtu? Ef hann hefur ekki gert það, sem ég held að hann hafi ekki gert, þá verður þessi stefnubreyting Framsfl. enn sérkennilegri.
    Hv. þm. sagði svo í sinni seinni ræðu að ríkisstjórn sem gæti ekki sannfært aðila vinnumarkaðarins um það að breyta þessari forsendu kjarasamninganna sé óhæf til að stjórna. En hvað þá um Framsfl. og hvað þá um forustuna í efh.- og viðskn. sem búin er að leggja mikla vinnu í þetta? Haldið þið að verkalýðshreyfingin hafi ekki hlustað á það? Hefur ekki verið kallað á forseta Alþýðusambandsins? Hefur ekki verið reynt að sannfæra verkalýðshreyfinguna eða á bara ekkert að hlusta á það hvað hún hefur að segja? Ég verð að segja alveg eins og er að ég er undrandi á þessum málflutningi. Látum vera þó að menn hafi þá stefnu að hér eigi ekki að vera tveggja þrepa virðisaukaskattur. Látum það vera þó að menn hverfi frá samþykkt síns flokksþings og taki upp nýja stefnu. En að boða til viðbótar þá kenningu að hér eigi menn að beita sér fyrir því að svipta í burtu meginforsendu kjarasamninganna og taka svo bara áhættu af því hvort verkfallsátök hefjist í landinu í kjölfarið er satt að segja svo óábyrgur málflutningur að ég trúi því ekki að það sé orðin raunveruleg stefna Framsfl. að stjórna með þeim hætti.