Skattamál

72. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 00:32:28 (3243)


[00:32]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykn. stóðst ekki mátið og vildi miðla okkur af þriggja ára reynslu sinni í fjmrn. og sagði efnislega tvennt: Í fyrsta lagi að hann hefði aldrei sannfærst af rökum sem fram hefðu verið borin af sérfræðingum um það að tveggja eða margþrepa kerfi byði upp á undandrátt eða skattsvik. Það má vel vera að svo sé. Engu að síður er það staðreynd að niðurstöður rannsókna sem framkvæmdar hafa verið í fjármálaráðuneytum hér á landi og annars staðar sl. rúman áratug ber allar að sama brunni. Færasti sérfræðingur fjmrn. íslenska metur það svo að það sem eftir situr hjá framleiðendum, aðallega erlendum, og milliliðum við þessa tilteknu breytingu geti numið allt að, á mjög íhaldssamri áætlun, 625 millj. kr. Nauðsynlegur kostnaður við aukið eftirlit kerfisins nemi um 200 millj. kr. og áætluð undanskot, sem hann áætlar í ljósi reynslu innan lands og erlendis en á mjög ,,konservatívum`` forsendum, 500 millj. kr., þ.e. 1.325 millj. kr. skili sér ekki. Þetta til viðbótar því að hin tekjulægri heflt framteljenda ber minna úr býtum en tekjuhærri hefltin mun meira.
    Annað atriði sem hv. þm. nefndi var að það væri óhjákvæmilegt vegna alþjóðlegrar samræmingar að taka upp margþrepa kerfi vegna þess að Evrópubandalagið, snyrtileg rök frá hv. þm., væri að taka það upp. Svarið við því er mjög einfalt. Evrópubandalagið mótaði sér þá stefnu árið 1985 að svo skyldi vera en hefur ekkert gengið allan þann tíma síðan 1985. Seinasta skýrslan um þetta mál sem var skýrsla á vegum á vegum Norska verkamannaflokksins 1993 segir orðrétt:
    ,,Hvorki aðild að EES né tillitið til EB gefur neins staðar tilefni til að taka upp mishá skatthlutföll.`` Svo mikið um þessi tvö meginatriði.
    Að lokum, virðulegi forseti. Þeir alþýðubandalagsmenn gagnrýna hv. þm. Halldór Ásgrímsson fyrir það að hafa notað setninguna: ,,Hver ætli svo sem fari í verkfall?`` Það verð ég hins vegar að taka undir vegna þess að ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin ber sameiginlega ábyrgð á þessum tillögum, svo gallaðar sem þær eru, er sú að við vildum ekki fórna þeim mikla árangri sem náðst hefur ef það leiddi til ófriðar á vinnumarkaðinum.