Skattamál

72. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 00:35:09 (3244)


[00:35]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Gallinn við allar þessar erlendu skýrslur sem menn eru að vitna til varðandi virðisaukaskattinn og lægra þrep á matvæli er að verslunarmunstrið í þeim löndum er allt annað en hér á Íslandi. Þess vegna er í raun og veru mjög hæpið að draga einhverja ályktun af þeim veruleika sem þar er.
    Í öðru lagi er mjög hæpið að vitna nú í nokkurra ára gamlar skýrslur í þessum efnum vegna þess að sú nýjung er nú til reiðu í flestum stórverslunum á höfuðborgarsvæðinu og er að breiðast núna út til allra stærri verslana sem versla með matvæli að um leið og menn greiða fyrir vöruna, þá er hægt að stimpla virðisaukaskattinn sérstaklega með einfaldri breytingu á forritinu á þann miða sem viðskiptavinurinn fær þar sem hvert einasta atriði er skráð sem hann hefur keypt. Meira að segja er hægt með einfaldri breytingu á forritinu sem tekur fáeinar mínútur að láta merkja sér við þær vörur sem eru í lægra þrepi og sér við hinar sem eru í hærra þrepi. Tæknibyltingin í matvöruversluninni eyðileggur því meginhlutann af þeim röksemdum sem færðar hafa verið fram af þessum svokölluðu sérfræðingum í þessum efnum.
    Auðvitað er það þannig að ríkisskattstjóraembættið vill hafa eins þrepa kerfið. Það segir sig sjálft. Það er einfaldara fyrir þá. Og auðvitað er það þannig að sumir embættismenn í fjmrn., sem sumir voru ráðnir þangað af fyrirrennara mínum í embætti og höfðu alist upp við þennan boðskap á lærimeistarans hné í rúmt ár áður en ég komu í ráðuneytið, voru ekki alveg tilbúnir að halda öðru fram þegar ég var kominn í ráðuneytið. Þetta eru því bara engin sérstök vísindi sem sannindi sem hér er verið að vitna til. Þegar það er svo vegið og metið á móti markmiðinu að skapa pólitíska samstöðu og kannski vinnufrið í landinu vegna lægri skattheimtu á matvælum, þá eru engar þær kerfisröksemdir til sem gera það að verkum að menn eigi að taka áhættu af ófriði á vinnumarkaði fyrir kerfisrökin frá embætti ríkisskattstjóra.