Skattamál

72. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 00:37:43 (3245)


[00:37]
     Ingi Björn Albertsson :

    Hæstv. forseti. Það er einkum tvennt sem situr eftir eftir þessa umræðu hér í kvöld. Það er hin nýja stefna Framsfl. sem kemur fyrst fram í því að flokkurinn vill skapa hér meiri háttar óróa á vinnumarkaðinum og vill í raun og veru segja upp kjarasamningnum með afleiðingum sem enginn gæti séð fyrir. Hinn þátturinn er að Framsfl. boðar það í næstu kosningum væntanlega að þeir vilji hækka matarverðið á 50% af matarkörfu helstu nauðsynjavara heimilanna. Framsfl. vill endurgreiða matarskatt á innlend matvæli, en ætlar að hækka verðið upp aftur á erlendu og innfluttu matvörunum. Þær eru 50% af matarkörfu heimilanna. Það er því athyglisverður boðskapur sem flokkurinn er að boða hér í kvöld. Þessi boðskapur er aumkunarverður í ljósi þeirra ályktana sem gerðar voru á síðasta flokksþingi og flokkurinn er nú á harðahlaupum undan og alveg óljóst hvort sú stefna heldur meira en árið frekar en hin.
    Ég tók þátt í fyrri umræðu og skýrði mína afstöðu nokkuð að ég hygg til matarskattsins og frv. í heild. Ég get ekki tekið undir þá stefnu sem framsóknarmenn eru að boða og þá tillögu sem þeir leggja fram og hef fært fyrir því rök. Menn beita gjarnan fyrir sig að í tveggja þrepa kerfinu, sem nú er verið að taka upp, muni undanskotsleiðum fjölga og skattsvik aukast. Nefnd er talan 1 milljarður án rökstuðnings. Það er talað um að eftirlit verði erfiðara. Það þurfi að fjölga mannskap og það verði mikill kostnaðarauki við þetta og þar fram eftir götum en allt órökstutt.
    Með þessum rökum skil ég ekki hvernig flokkur eins og Framsfl. og reyndar aðrar flokkar geta þá stutt þá tillögu sem er 1. brtt. meiri hluta efh.- og viðskn. sem er við það að gera gjafir og framlög til stjórnmálaflokka frádráttarbær frá skatti. Ég sé ekki betur en að nákvæmlega sömu rök eigi þarna við, nákvæmlega sömu rök. Ég tel að undanskotsleiðum muni fjölga við þetta. Ég tel að það sé veruleg hætta á skattsvikum við þetta. Ég held þá að eftirlit hljóti að þurfa að aukast. Ég held að kostnaður hljóti þá að vaxa í sama hlutfalli þannig að ef menn eru að beita þessum rökum á einu sviði, þá hljóti þeir að beita þeim á öðrum sviðum líka.
    Það kemur fram að skatturinn viðurkenni þetta ekki nú en hafi gert það til fjölda ára. Það má spyrja hvort þetta sé ekki akkúrat viðleitni skattayfirvalda til þess að loka undanskotsleiðum og koma þá fjórflokkarnir hér með sína samtryggingu og vilja rjúfa þetta. Þeir segja: Við skulum fækka undanskotsleiðum, koma í veg fyrir skattsvik. Á hinn bóginn þegar þetta snýr að þeim sjálfum koma þeir og segja: Nú skulum við opna bara af því að það hentar okkur sem stjórnmálaflokkum. Mér finnst þetta tvöfeldni í málflutningi og það er ekki hægt að sætta sig við það.
    Forsrh. hefur sagt hér í kvöld að hann muni skipa nefnd til að kanna starf stjórnmálaflokkanna og það er vel. En þar til sú nefnd hefur skilað störfum á ekki að samþykkja slíka brtt. Það liggur ekkert á. Sú nefnd hlýtur að vera búin að skila störfum fyrir næsta þing og þá má taka slíkt mál upp og ég vona að það verði niðurstaða þessarar nefndar að í fyrsta lagi verði bókhaldið opið. Ég tel að flokkarnir séu bókhaldsskyldir í dag en það á að opna það bókhald. Helst vildi ég sjá menn fara dálítið lengra og hafa flokkana framtalsskylda. Þá væri hægt að fara slíka leið. Það mundi auka tiltrú og traust fólksins á flokkunum. En að vera með þetta pukur og þessar hættur og möguleika á skattsvikum og undanskotum eins og þetta býður upp á, það er ekki hægt að samþykkja slíkt, það er tvöfeldni í málflutningi. Þeir sem gagnrýna tvö virðisaukaskattsþrep á þessum forsendum geta ekki samþykkt þessa brtt.
    Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem nú er að ganga í salinn, sagði að það væri hættulegt lýðræðinu ef flokkarnir hefðu ekki fjármagnið. Þeir væru í fjárhagslegri spennitreyju. Það má vel vera rétt. En þá skulum við líka gera þetta svona. Við skulum opna bókhaldið og gera þá framtalsskylda og þá geta þeir fengið þennan lið samþykktan, alla vega af mér.
    Hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði að það væri þak, að þetta væri innan tiltekinna marka. Þetta er auðvitað ekki innan neinn marka. Það er 0,5% af tekjum fyrirtækjanna en hver er búinn að segja okkur hvað er þakið á tekjunum? Það getur verið fyrirtæki með eina millj., það getur verið fyrirtæki með milljarð þannig að það er langur vegur þarna á milli og það er ekki hægt að segja að það sé til neitt þak í raun og veru. Ég tel því að menn ættu aðeins að hugsa þetta mál betur, sérstaklega í ljósi þeirra yfirlýsinga sem kom frá forsrh. að þetta verði skoðað og liggi væntanlega fyrir næsta þingi. Ég sé því ekki séð að það liggi svo lífið á.
    Ég skrifaði undir frhnál. meiri hluta efh.- og viðskn. með þessum fyrirvara. Það kemur fram í nál. að ég standi við það álit sem ég setti hér fram sem 4. minni hluti við skattamálin með þeim fyrirvara að ég styddi ekki þessa 1. brtt. á þskj. 483.
    Ég vil, virðulegi forseti, fá að vitna í grein sem birtist í Dagblaðinu laugardaginn 18. des. eftir Gunnar H. Kristinsson dósent í stjórnmálafræði þar sem verið er að fjalla einmitt um frádráttarbærni styrkja og gjafa til skatts til stjórnmálaflokkanna en þar segir í fyrirsögn, með leyfi forseta: ,,Þeir hljóta þá að verða framtalsskyldir. Annað býður upp á spillingu, segir Gunnar H. Kristinsson.`` Og í greininni segir, ef ég glugga aðeins í hana:
    ,,Ef þeir ætla að gera framlög til stjórnmálaflokkanna frádráttarbær til skatts verða stjórnmálaflokkarnir að opna bókhald sitt um leið og vera framtalsskyldir sem þeir eru ekki í dag. Að öðrum kosti býður þetta upp á spillingu. Þarna væri opnuð óendanleg glufa fyrir menn verði bókhald flokkanna ekki opnað. Hver sem er gæti sagst hafa gefið svo og svo mikið til flokkanna. Þá verður líka að vera hægt að sannreyna það í framtali stjórnmálaflokkanna,`` sagði Gunnar Helgi Kristinsson, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

    Og aðeins síðar í greininni, með leyfi forseta:
    ,,Hann sagði að í öllum löndum hér í kringum okkur væri bókhald stjórnmálaflokka opið og eftirlit með því.`` Og aðeins síðar: ,,Það er líka sett þak á þá upphæð sem fyrirtæki og einstaklingar mega gefa til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna.`` Ég tel að það væri rétt að sú nefnd sem hæstv. forsrh. mun skipa hefði nú samband við þennan ágæta dósent í stjórnmálafræðum.
    Virðulegi forseti. Á sama tíma og hér er hafnað mörgum góðum breytingartillögum um litlar upphæðir, fólki gert að herða sultarólarnar, þá á einmitt að slaka á beltinu hjá stjórnmálaflokkunum. Undir þessum kringumstæðum finnst mér rangt að samþykkja slíka breytingartillögu.