Skattamál

72. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 00:51:35 (3249)


[00:51]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta var að mínu viti flótti frá matarskattsumræðunum. Við vorum hér að tala

um hvernig Framsfl. hygðist ná matarskattinum niður og það liggur fyrir að hann ætlar að hækka helminginn af matarkörfu heimilanna. Hann ætlar að greiða niður innlenda þáttinn en hann ætlar að hækka upp innflutta þáttinn. Þetta hefur ekki verið hrakið. Þetta hrakti þingmaðurinn ekki. Og svo er það algerlega út í hött að segja það að ég viti ekki af skattsvikum í landinu. Ég var að benda á það að umræðan hefur kristallast í kringum þjónustu, verslun og iðnað. En þingmenn Framsfl. og jafnvel fleiri flokka vilja ekki tala um allt sviðið vegna þess að skattsvikin eru alls staðar, í öllum greinum, landbúnaði líka og öllum greinum landbúnaðarins og sjávarútveginum. Og ég fór yfir það í minni ræðu við 1. umr. og nefndi fjölmörg dæmi um það. Það er út um allt. En að slá fram tölum eins og einum milljarði í þessari umræðu án þess að rökstyðja það á einn eða annan hátt en að fela sig sí og æ á bak við einhverja skattsvikaskýrslu sem eru bara gefnar forsendur. Það eru engar staðreyndir. Það eru engin sérstök vísindi þar á bak við. Það er ekki merkilegur málflutningur þannig að ég lýsi enn eftir rökstuðningi framsóknarmanna við þeim fullyrðum sem þeir setja fram. Hvar sjá þeir þennan milljarð? Hann er ekki til. En vantraust á allt og alla er til staðar.