Fjárlög 1994

73. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 01:49:22 (3259)


[01:49]
     Guðmundur Bjarnason (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 463 höfum við hv. þm. Jón Kristjánsson flutt nokkrar brtt. við tekjugrein fjárlagafrv., 3. gr. þess, sem m.a. byggja á þeim tillögum sem 2. minni hluti efh.- og viðskn. hafði flutt við breytingar á skattalögum sem hér hafa verið til umræðu og afgreiðslu næst á undan.
    Við teljum að þær tillögur sem hér eru fluttar hefðu mætt betur þörfum þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu, betur en þær tillögur sem ríkisstjórnin bar fram og við teljum líka að þær hefðu jafnað betur kjörin í landinu. Við teljum einnig að þessar tillögur hefðu nokkuð, hefðu þær gengið fram, lagað stöðu ríkissjóðs og dregið úr halla hans um nær hálfan milljarð kr. Þessu til stuðnings vil ég leyfa mér að vitna til skjals frá Þjóðhagsstofnun, sem dags. er 17. des. sl., þar sem lagt er mat á þessar tillögur og þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Umræddar tillögur hafa með ýmsum hætti áhrif á kaupmátt. Þannig hefur minni verðbólga í för með sér aukinn kaupmátt og í sömu átt ganga að sjálfsögðu hækkanir bóta. Á móti vegur hins vegar að skattar á eignir eru hækkaðir. Í tillögunum felast því tilfærslur á skattlagningu á þá leið að kaupmáttur launa og hvers konar bóta eykst nokkuð en ráðstöfunarfé eignamanna minnkar.``
    Nú hefur, virðulegur forseti, meiri hluti Alþingis fellt þessar brtt. frá 2. minni hluta efh.- og viðskn. sem ég gat um áðan og því teljum við ekki tilgang í því að fram fari atkvæðagreiðsla um þær tillögur sem hér eru fluttar á þskj. 463 og drögum þær því til baka.