Fjárlög 1994

73. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 02:10:39 (3267)


[02:10]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Á síðustu klukkustundum sem fjárln. var að ganga frá tillögum sínum fyrir 3. umr. við fjárlagafrv. komu fram þær skoðanir eða hugmyndir frá heilbrrn. að lífeyristryggingar væru vanáætlaðar um 200 millj. kr. Verður það að teljast nokkuð seint komið fram að svo mikil fjárvöntun skuli allt í einu koma í ljós við þennan mikilvæga málaflokk. Til þess að bjarga í horn hefur hæstv. heilbr.- og trmrh. lagt fram nokkrar tillögur um að mæta þessum útgjaldaauka með því að skera niður í sjúkratryggingunum. Ég fór nokkuð yfir það í ræðu minni hér í fyrradag, virðulegur forseti, hvaða skoðanir ég hefði á þeim tillögum. Ég tel að þær séu ómarkvissar og ekki líklegar til þess að ná árangri. Það er hins vegar gott ef það verður. Ég hef ekki á móti sparnaði, en ég hef mínar efasemdir um að þetta muni ná fram að ganga. Ég mun því sitja hjá við þessar tvær tillögur, 64 og 65.