Fjárlög 1994

73. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 02:13:57 (3269)


[02:13]
     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur á stefnuskrá sinni sameiningu Landakotsspítala og Borgarspítala. Samningar milli þessarar stofnana eru nú langt komnir. Með tilliti til þess hefði ég talið betra að skipta niðurskurði á framlögum til sjúkrahúsa í Reykjavík og safnliðnum Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi á þann hátt að sameiningin gæti farið fram á jafnræðisgrundvelli. En með hliðsjón af framsöguræðum formanns og varaformanns fjárln. og enn fremur yfirlýsingum heilbrrh. þá greiði ég tillögunni atkvæði og enn fremur í trausti þess að af sameiningu geti orðið og leiðrétting gerð þannig að niðurskurður komi aðeins hlutfallslega niður á Landakotsspítala eða sameinaðri starfsemi Landakots og Borgarspítala.