Frestun á fundum Alþingis

73. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 02:55:05 (3290)


[02:55]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er greinilegt að yfirvofandi sjómannaverkfall og hinar hörðu deilur sjómanna eru viðkvæmt mál fyrir hæstv. forsrh. og ég skil það ósköp vel. Ég var hins vegar ekki að fara í efnisumræður um það mál. Ég var einfaldlega að biðja hæstv. forsrh. að gera alveg skýrt að þegar þingið situr nú allt árið og þorri þingmanna, ef ekki allir þingmenn, er á landinu í þessu þinghléi, að mestu leyti ef ekki öllu, þá væri ekki mikil fyrirhöfn að kalla þingið saman jafnvel með dags fyrirvara ef ríkisstjórnin teldi nauðsynlegt að grípa til lagasetningar. Það er athyglisvert að hæstv. forsrh. skuli ekki vera reiðubúinn til að gefa slíka yfirlýsingu hér. Ég man ekki hvort hann gaf slíka yfirlýsingu í fyrra, ég ætla ekki að fullyrða það í þessum ræðustól nú, en ég teldi það vera til mikilla bóta fyrir störf þingsins um samskipti þings og ríkisstjórnar að það lægi ljóst fyrir að það væri ætlun hæstv. forsrh. og ríkisstjórnar að draga úr bráðabirgðalagavaldinu.
    Við beindum ýmsir þeirri skoðun til hæstv. forsrh. á sínum tíma að hann hefði átt að kalla þingið saman í stað þess að setja bráðabirgðalög um Kjaradóm á sínum tíma. Hæstv. forsrh. hafnaði því þá. Hann hefur síðan lýst því yfir að hann teldi þá höfnun sína hafa verið ranga. Ég met það að hann skuli hafa séð það síðar meir að það var rangt hjá honum að hafna þeirri ósk. Ég segi við hann líka hér: Það er nauðsynlegt að gefa skýra yfirlýsingu um það að bráðabirgðalög verði ekki gefin út og þingið verði kallað saman og það eru sams konar mistök hjá hæstv. forsrh. að neita því nú eins og hann neitaði að kalla þingið saman á sínum tíma og sá svo síðar að var röng ákvörðun.