Jólakveðjur

73. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 03:01:03 (3292)


[03:01]
     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Þá er komið að lokum síðasta fundar Alþingis fyrir jólahlé. Svo sem venja er til hafa verið hér miklar annir síðustu daga, en nú er lokið afgreiðslu þeirra mála sem nauðsynlegt var talið að lægju fyrir við áramót, þ.e. afgreiðslu fjárlaga, lánsfjárlaga, umfangsmikilla breytinga í skattamálum og breytinga á tekjustofnum sveitarfélaga auk að sjálfsögðu annarra mála sem miklu varða. Ég vil við þetta tækifæri láta í ljós ánægju mína með þingstörfin þessa haustönn Alþingis. Þau hafa gengið vel og má eflaust þakka það fremur öðru breytingum á þingsköpum sem gerðar voru við upphaf þings í haust. Ég vona að framhald verði á þeirri endurskoðun þingskapanna og starfshátta Alþingis, þar á meðal samvinnu stjórnarflokka og stjórnarandstöðuflokka um þingstörfin sem þá var boðuð.
    Hér hafa verið miklar annir síðustu daga og bregður ekki venju í því efni. Það verður auðvitað aldrei hjá því komist að taka duglegan lokasprett við afgreiðslu viðamikilla mála undir jól. Við þekkjum þetta frá öðrum sviðum þjóðfélagsins, t.d. kjarasamningum, að menn leggja talsvert á sig til að ljúka för þegar sést til lands. Ég verð þó að segja að það er nauðsynlegt að bæta hér úr og freista þess að jafna álagið meira við þingstörfin. Ég er sannfærð um að þar má ná árangri ef þingflokkar og ríkisstjórn leggjast á eitt.
    Jólahátíðin er í nánd. Sú hátíð sem mest og best bindur fjölskyldurnar saman. Því miður held ég að þáttur alþingismanna í undirbúningi jólanna á heimilum sínum sé ekki mikill en þannig þarf það ekki að vera og þannig á það ekki að vera. Því heiti ég á liðsinni þingmanna til þess að gera hér nokkra bót á í framtíðinni.
    Ég færi þingmönnum öllum svo og starfsfólki Alþingis bestu óskir um friðsæla jólahátíð og bið fyrir kveðjur til fjölskyldna þeirra. Þeim sem eiga um langan veg heim að fara óska ég góðrar heimferðar og heimkomu og ég bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári.