Ferill 205. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 205 . mál.


227. Frumvarp til laga


um breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 93/1993.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir.


1. gr.


    Við 16. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú hefur maður lokið samfelldri afplánun refsivistar sem staðið hefur a.m.k. síðustu 12 mánuði, að meðtalinni gæsluvarðhaldsvist, og skal hann þá hafa rétt til atvinnuleysisbóta þó að hann uppfylli ekki skilyrði 3. tölul. 1. mgr. þessarar greinar, enda uppfylli hann önnur skilyrði til greiðslu bótanna.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 93/1993, sem samþykkt voru á síðasta vori, er gert ráð fyrir að hafi einstaklingur verið sviptur frelsi sínu með dómi geti hann geymt áunninn rétt til atvinnuleysisbóta í allt að tvö ár á meðan á afplánun dóms stendur. Hins vegar er ljóst að fæstir þeirra sem afplána dóm um lengri eða skemmri tíma hafa stundað vinnu reglubundið. Í þeim tilvikum er því ekki um neinn áunninn rétt að ræða sem þessir einstaklingar geta nýtt sér að aflokinni fangelsisvist. Því er hér lagt til að lögum um atvinnuleysistryggingar verði breytt til hagsbóta fyrir þá sem koma atvinnulausir úr fangelsi.
    Eins og lögum um atvinnuleysistryggingar er nú háttað verða menn að uppfylla lágmarksvinnustundafjölda á síðustu 12 mánuðum til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Ekki er að finna í lögum neina undanþágu frá því ákvæði sem um ræðir, þ.e. 3. tölul. 1. mgr. 16. gr. laganna, til hagsbóta fyrir þá sem er ókleift að uppfylla þetta skilyrði vegna þess að þeir hafa verið sviptir frelsi sínu með refsidómi á umræddu tímabili. Ekki er þó nein ástæða til að ætla að fyrir löggjafanum hafi vakað að gera rétt manna minni fyrir það að þeir hafi setið af sér refsidóm.
    Ekki er eðlilegt að láta menn uppfylla skilyrði ákvæðisins með þeirri vinnu sem stendur til boða í fangelsum, enda er sjaldnast um að ræða fullan vinnudag. Þá er, vegna aðstæðna í fangelsunum, ekki vinnu að hafa í þeim öllum. Fangar geta að auki ekki ráðið sjálfir í hvaða fangelsi þeir afplána refsingu sína heldur er sú ákvörðun tekin af Fangelsismálastofnun ríkisins.
    Samkvæmt frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að þeir sem hafa afplánað skemmri dóm en eitt ár geti unnið sér inn rétt til atvinnuleysisbóta á þann hátt. Gert er ráð fyrir að undanfarandi gæsluvarðhald teljist til afplánunar í þessu sambandi ef afplánun kemur í beinu framhaldi og viðkomandi hefur ekki verið frjáls maður á milli gæsluvarðhalds og afplánunar. Einnig er gert ráð fyrir að einungis með samfelldri afplánun geti maður aflað sér réttarins á þennan hátt.