Ferill 105. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 105 . mál.


297. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1993.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 18. október sl. Nefndin hefur lokið umfjöllun um frumvarpið og mælir meiri hlutinn með samþykkt frumvarpsins með þeim breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Nefndin kannaði frumvarpið rækilega í einstökum atriðum og leitaði skýringa hjá fjármálaráðuneytinu og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir frá fjárlögum þessa árs. Að lokinni þeirri athugun og að fengnu áliti fjármálaráðuneytis ásamt skýringum fagráðuneyta féllst meiri hluti nefndarinnar á allar tillögur ráðuneytanna um auknar greiðsluheimildir sem fram koma í frumvarpinu.
    Meiri hlutinn gerir nítján breytingartillögur við frumvarpið sem flestar eru minni háttar. Samtals nema tillögur um auknar greiðsluheimildir við 2. umræðu 355 m.kr. Einstakar breytingartillögur eru skýrðar í stuttu máli í athugasemdum hér að neðan, en nánari skýringar verða gefnar í framsögu.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR



00 Æðsta stjórn ríkisins


610    Umboðsmaður Alþingis. Gerð er tillaga um að rekstrarfjárveiting verði aukin um 1,5 m.kr. til að mæta kostnaði sem leitt hefur af fjölgun erinda til embættisins.


01 Forsætisráðuneyti


101    Forsætisráðuneyti, aðalskrifstofa. Í frumvarpi til fjáraukalaga 1993 er sótt um 20 m.kr. framlag til eflingar heimilis- og listiðnaði undir fjárlagalið Byggðastofnunar. Þar sem forsætisráðuneytið mun sjálft hafa með höndum umsjón með verkefninu er lagt til að framlagið verði flutt yfir á fjárlaganúmer aðalskrifstofunnar en tilsvarandi liður hjá Byggðastofnun falli á brott.
171    Byggðastofnun. Samkvæmt lánsfjárlögum 1993 er heimilt að veita 20 m.kr. víkjandi lán til að mæta framlögum á afskriftarreikning vegna lánafyrirgreiðslu stofnunarinnar til atvinnuuppbyggingar á þeim svæðum sem hafa orðið fyrir mestum samdrætti í sauðfjárframleiðslu. Lánin eru veitt í samræmi við ákvæði í viðauka II við búvörusamninginn frá 11. mars 1991. Lagt er til að þessu 20 m.kr. víkjandi láni verði breytt í fjárveitingu sem verði greidd út eftir því sem útlán Byggðastofnunar falla til.


02 Menntamálaráðuneyti


972    Íslenski dansflokkurinn og Listdansskólinn. Leitað er eftir heimild til að auka framlag til Listdansskólans um 6 m.kr. vegna launavanmats í fjárlögum beggja áranna 1992 og 1993 og að auki um 1,5 m.kr. vegna annarra gjalda. Einnig er lagt til að stofnunin fái 7,5 m.kr. aukafjárveitingu til greiðslu á leiguhækkun til Fasteigna ríkissjóðs frá miðju ári 1991 til ársloka 1993.
523    Fósturskóli Íslands. Farið er fram á 2 m.kr. viðbótarheimild til að greiða leiguskuld við Fasteignir ríkissjóðs frá miðju ári 1991 til ársloka 1993.
983    Ýmis fræðistörf. Gerð er tillaga um 4 m.kr. viðbótarframlag vegna kostnaðar við Fransk-íslenska orðabók umfram forsendur fjárlaga.
999    Ýmislegt. Lagt er til að veitt verði 1 m.kr. til endurbóta á skrúðgarðinum Skrúði að Núpi í Dýrafirði.


03 Utanríkisráðuneyti


401    Alþjóðastofnanir. Farið er fram á 14 m.kr. til að mæta auknum greiðslum til friðargæslu Sameinuðu þjóðanna á Balkanskaga sem Ísland er skuldbundið til að standa skila á sem aðildarríki að samtökunum.


04 Landbúnaðarráðuneyti


420    Greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu. Sótt er um 40 m.kr. viðbótarheimild til að fjármagna niðurgreiðslur á gærum sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlögum.


05 Sjávarútvegsráðuneyti


201    Fiskifélag Íslands. Óskað er eftir auknu framlagi að fjárhæð 13,5 m.kr. til að standa straum af kostnaði við biðlaun sem hlotist hefur af endurskipulagningu félagsins.
299    Sjávarútvegsmál, ýmis starfsemi. Gerð er tillaga um 5 m.kr. aukafjárveitingu til greiðslu á árgjaldi Íslands til Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins, NAMMCO, sem ekki var gert ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga.


07 Félagsmálaráðuneyti


951    Brunamálastofnun ríkisins. Farið er fram á 2 m.kr. heimild sem renni til námssjóðs stofnunarinnar, en á móti verði aflað sértekna sem því nemur.


08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti


367    Sjúkrahúsið Keflavík. Farið er fram á 17 m.kr. aukafjárveitingu til greiðslu á skuldum sjúkrahússins við sýslumann sem stafa af hallarekstri fyrri ára.
371    Ríkisspítalar. Í ljósi þess að liðið var á árið þegar sýnt þótti að ekki yrði af sölu á hlutabréfum í Þvottahúsi ríkisspítalanna er lagt til að veitt verði aukaframlag sem nemi helmingi áætlaðra sölutekna eða 30 m.kr. Að auki er farið fram á 13 m.kr. viðbótarheimild til að endurgreiða Borgarspítalanum rekstrarkostnað Fæðingarheimilis Reykjavíkur á tímabilinu frá janúar til mars á árinu 1992, en fyrirhugað hafði verið að Ríkisspítalar yfirtækju reksturinn í upphafi þess árs.
373    St. Jósefsspítali, Landakoti. Farið er fram á 90 m.kr. aukafjárveitingu vegna hallareksturs á árinu 1992. Í öðru lagi er lagt til að 10 m.kr. af liðnum 370 Sjúkrahús í Reykjavík verði ráðstafað til sjúkrahússins, en til þess þarf að breyta stofnkostnaðarfjárveitingu í rekstrarframlag.
400    St. Jósefsspítali, Hafnarfirði. Sparnaðaráform, sem fyrirhuguð voru í fjárlögum ársins 1992, hafa ekki gengið að fullu eftir, svo sem aukin innheimta sértekna af sérhæfðri þjónustu. Lagt er til að sjúkrahúsið fái 7 m.kr. aukafjárveitingu vegna halla síðasta árs og 20 m.kr. til að mæta fyrirsjáanlegum halla á þessu ári.


10 Samgönguráðuneyti


190    Ýmis kostnaður ráðuneytis. Lagt er til að Rannsóknanefnd flugslysa fái 2 m.kr. aukafjárveitingu þar sem rannsóknir á slysum og óhöppum í flugi hafa verið óvenjuumfangsmiklar í ár.
333    Hafnamál. Gerð er tillaga um 15 m.kr. millifærslu fjárveitingar frá framkvæmdum við ferjubyggjur til hafnarmannvirkja þar sem ekki verður af byggingu ferjubryggju á Nauteyri í ár. Þar af eru 10 m.kr. ætlaðar til uppgjörs á framkvæmdum í Bolungarvík og 5 m.kr. til uppgjörs á framkvæmdum á Ísafirði. Þá er lagt til að 4,5 m.kr. til viðbótar verði færðar af lið Nauteyrar á lið Mjóafjarðar.

Alþingi, 30. nóv. 1993.



    Sigbjörn Gunnarsson,

Sturla Böðvarsson.

Einar K. Guðfinnsson.


         form., frsm.

    Gunnlaugur Stefánsson.

Árni Johnsen.

Árni M. Mathiesen.