Ferill 131. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 131 . mál.


348. Nefndarálit



um frv. til l. um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk Finn Sveinbjörnsson og Pál Ásgrímsson frá viðskiptaráðuneytinu á sinn fund til að skýra einstök ákvæði. Þá hefur nefndin fengið umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Búnaðarfélagi Íslands, Byggðastofnun, Fiskveiðasjóði Íslands, Iðnlánasjóði, Íslenskri verslun, Verslunarráði Íslands, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum verðbréfafyrirtækja og Seðlabanka Íslands. Flestir umsagnaraðilar taka jákvæða afstöðu til frumvarpsins en nokkrir gera þó fyrirvara um breytingar.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Þær breytingar eru eftirfarandi:
    Breytingar á 2. gr. fela í sér að færa það ákvæði í sama horf og í frumvarpinu þegar það var flutt á síðasta löggjafarþingi og leiðrétta þannig þau mistök sem urðu við frágang frumvarpsins nú.
    Með breytingu á 3. gr. frumvarpsins er ítrekuð sú almenna regla að lánastofnanir verði einungis stofnaðar sem hlutafélög. Þessar stofnanir fá víðtækar heimildir til að veita margs konar fjármálaþjónustu og farsælasta leiðin til að tryggja samræmd rekstrarskilyrði er að gera kröfu um sams konar rekstrarform. Auk þess gilda um hlutafélög fastmótaðar lagareglur. Að sjálfsögðu verður hægt að stofna til lánastofnana með öðrum hætti samkvæmt sérstökum lögum ef það þykir hentugt. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir breytingum að því er varðar þær lánastofnanir sem nú starfa og engin afstaða er tekin til þess hvort skipulagi þeirra skuli breytt.
    Breytingin á 8. gr. er aðeins orðalagsbreyting til að gera ákvæðið skýrara.
    Breytingin á 9. gr. felur í sér að það er ráðherra sem á að hafa frumkvæði að setningu reglna um eignarleigustarfsemi en ekki bankaeftirlitið. Nefndin telur eðlilegra að hafa ákvæðið svona þótt ráðherra muni væntanlega hafa um þetta samráð við bankaeftirlitið í framkvæmd.
    Ingi Björn Albertsson og Rannveig Guðmundsdóttir voru fjarstödd afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. des. 1993.



Halldór Ásgrímsson,

Vilhjálmur Egilsson.

Sólveig Pétursdóttir.


form., frsm.



Kristín Ástgeirsdóttir.

Steingrímur J. Sigfússon,

Guðjón Guðmundsson.


með fyrirvara.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson.