Ferill 282. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 282 . mál.


359. Frumvarp til laga



um Þróunarsjóð sjávarútvegsins.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



1. gr.


    Stofna skal sjóð er nefnist Þróunarsjóður sjávarútvegsins. Hlutverk Þróunarsjóðs er að stuðla að aukinni arðsemi í sjávarútvegi. Í því skyni kaupir sjóðurinn fiskvinnslustöðvar og framleiðslutæki þeirra og greiðir styrki vegna úreldingar fiskiskipa til að draga úr afkastagetu í sjávarútvegi. Jafnframt getur sjóðurinn stuðlað að skipulagsbreytingum í sjávarútvegi í samvinnu við lánastofnanir enda leiði slík endurskipulagning til verulegrar hagræðingar. Þá er sjóðnum heimilt að veita ábyrgðir, lán og styrki til að greiða fyrir þátttöku sjávarútvegsfyrirtækja í verkefnum erlendis.
    

2. gr.


    Sjávarútvegsráðherra skipar þrjá menn í stjórn Þróunarsjóðs til fjögurra ára í senn. Skal einn skipaður samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar atvinnurekenda í sjávarútvegi en tveir án tilnefningar. Ráðherra skipar formann sjóðstjórnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.

3. gr.


    Þróunarsjóður tekur við öllum eignum og skuldbindingum Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins, sbr. lög nr. 65/1992, eignum og skuldbindingum atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar vegna sjávarútvegsfyrirtækja, sbr. lög nr. 42/1991, og öllum eignum og skuldbindingum hlutafjárdeildar Byggðastofnunar, sbr. lög nr. 42/1991. Yfirtakan miðast við stöðu eigna og skulda við gildistöku laga þessara að frádregnum 950 milljóna króna endurlánum ríkissjóðs til atvinnutryggingardeildar sem ríkissjóður tekur að sér að greiða. Jafnframt ábyrgist Þróunarsjóður gagnvart ríkissjóði það sem á kann að falla vegna ríkisábyrgðar á verðbættu nafnvirði A-hlutdeildarskírteina hlutafjárdeildar. Halda skal fjárreiðum framangreindra sjóða aðskildum í bókhaldi sjóðsins. Þá skal ríkissjóður leggja sjóðnum til að láni jafnvirði 4.000 milljóna króna á árunum 1993, 1994 og 1995. Skal hver hluti lánsins afborgunarlaus fyrstu tvö árin en endurgreiðast síðan með jöfnum árlegum afborgunum þannig að þau verði að fullu greidd árið 2005.

Þróunarsjóðsgjald.


4. gr.


    Eigendur fiskiskipa 10 brúttótonn og stærri, sem skráð eru á skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins hinn 1. janúar ár hvert, skulu árlega greiða gjald til Þróunarsjóðs. Skal gjaldið nema 750 kr. af hverju brúttótonni en þó skal gjaldið aldrei nema hærri fjárhæð en 285.000 kr. fyrir hvert skip. Gjalddagi þróunarsjóðsgjalds er 1. janúar ár hvert og greiðist gjaldið án tillits til þess hvort skipi er haldið til veiða eða ekki. Liggi brúttótonnamæling skips ekki fyrir skal miða gjaldið við brúttórúmlest.
    Gjald skv. 1. mgr. skal innheimt gegnum greiðslumiðlunarkerfi sjávarútvegsins og skal hluti þess fjár, sem greiðist inn á vátryggingareikning skipa skv. 2. tölul. 7. gr. laga nr. 24/1986, ganga til greiðslu gjaldsins. Skal Landssamband íslenskra útvegsmanna mánaðarlega skila þessu gjaldi til Þróunarsjóðs uns fullnaðarskil vegna viðkomandi almanaksárs hafa verið gerð.
    Sé gjaldið ekki greitt fyrir lok álagningarárs skal greiða í Þróunarsjóð dráttarvexti af því sem gjaldfallið er samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma, sbr. III. kafla vaxtalaga, nr. 25/1987, með síðari breytingum. Lögveð er í skipum fyrir þróunarsjóðsgjaldi.
    Þróunarsjóðsgjald skv. 1. mgr. er grunngjald. Ráðherra er heimilt með reglugerð að breyta gjaldi þessu þannig að það breytist í réttu hlutfalli við þá breytingu sem kann að verða á vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. lög nr. 42/1987. Grunntaxti gjaldsins er miðaður við byggingavísitölu í ágúst 1993, þ.e. 192,5 stig.
    

5. gr.


    Eigendur fasteigna sem nýttar eru til fiskvinnslu skulu greiða sérstakt gjald til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins.
    Gjaldskylda hvílir á aðilum sem skattskyldir eru samkvæmt ákvæðum I. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo og opinberum aðilum sem eiga fasteignir sem nýttar eru til fiskvinnslu.     
    Stofn til þróunarsjóðsgjalds skal vera fasteignamatsverð í árslok á fasteign sem nýtt er til fiskvinnslu, ásamt tilheyrandi lóð enda þótt um leigulóð sé að ræða, þó að frádregnu afgjaldskvaðarverðmæti leigulóðar. Ef fasteignamat er ekki fyrir hendi skal miða við kostnaðar- eða kaupverð eignar eða áætlað fasteignamatsverð.
    Við ákvörðun á því hvaða eignir mynda stofn til þróunarsjóðsgjalds skal miða við raunverulega notkun fasteignanna til fiskvinnslu. Með fiskvinnslu er átt við vinnslu sjávarafurða hverju nafni sem nefnist, t.d. frystingu, söltun, fiskbræðslu, þurrkun og herslu. Niðurlagning og niðursuða sjávarafurða, umstöflun afla í gáma og starfsemi fiskmarkaða telst ekki til fiskvinnslu í þessu sambandi. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um hvers konar starfsemi teljist fiskvinnsla samkvæmt þessari grein og hvaða eignir fiskvinnslunnar falla undir gjaldskylduna. Sé sama eignin notuð til fiskvinnslu og annars skal við ákvörðun gjaldstofns skipta verðmæti eignarinnar hlutfallslega.
    Með skattframtali skal fylgja skrá yfir eignir sem falla undir ákvæði þessarar greinar ásamt upplýsingum um heildarfasteignamatsverð þeirra eða eftir atvikum kostnaðarverð eins og það var í lok næstliðins árs. Enn fremur skal skrá þar upplýsingar um notkun þeirra svo og upplýsingar um rúmmál eigna sem um er getið í lok 4. mgr. þessarar greinar.
    Aðilar sem gjaldskyldir eru skv. 2. mgr. þessarar greinar en undanþegnir eru tekjuskatts- og eignarskattsskyldu skulu fyrir hvert ár skila skrám skv. 5. mgr. til skattstjóra í því umdæmi þar sem þeir eiga lögheimili.
    Þróunarsjóðsgjald skal nema 0,75% af gjaldstofni skv. 3. mgr. þessarar greinar. Gjald sem ekki nær 10.000 kr. skal fella niður við álagningu.
    Um álagningu og innheimtu gjalds samkvæmt þessari grein fer eftir ákvæðum VIII.– XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á. Ríkisbókhald skal skila mánaðarlega til Þróunarsjóðs innheimtum gjöldum.
    Gjald samkvæmt þessari grein telst rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
    

6. gr.


    Frá og með því fiskveiðiári sem hefst 1. september 1996 skal Fiskistofa innheimta gjald til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins af úthlutuðu aflamarki. Skal gjaldið nema a.m.k. 1.000 kr. fyrir hverja þorskígildislest miðað við þá verðmætastuðla af einstökum tegundum sem sjávarútvegsráðuneytið ákveður. Gjaldið fellur í gjalddaga með þremur jöfnum greiðslum hvert fiskveiðiár, hinn 1. september, 1. janúar og 1. maí. Hafi greiðsla ekki borist innan mánaðar frá gjalddaga fellur veiðileyfi skipsins niður. Fiskistofa skal standa Þróunarsjóði jafnharðan skil á innheimtu gjalda.
     Ráðherra er heimilt með reglugerð að breyta gjaldinu í samræmi við þær breytingar sem kunna að verða á vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. lög nr. 42/1987. Grunntaxti gjaldsins er miðaður við byggingarvísitölu í ágúst 1993, þ.e. 192,5 stig.

Fækkun fiskiskipa.


7. gr.


    Styrkur vegna úreldingar fiskiskipa skal vera tiltekið hlutfall af húftryggingarverðmæti fiskiskips að hámarki 45%. Skal ráðherra ákveða styrkhlutfall fyrir upphaf hvers almanaksárs að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins. Greiði sjóðurinn styrk vegna úreldingar skips, sem orðið hefur fyrir tjóni sem bætt er af vátryggingarfélagi, skal samtala tjónbóta og úreldingarstyrks aldrei nema hærri fjárhæð en húftryggingarmati skipsins. Úreldingarstyrkur vegna hvers einstaks skips skal þó aldrei vera hærri en 75 millj. kr. Sú fjárhæð er grunnfjárhæð sem breytist í sama hlutfalli og gjald til sjóðsins skv. 4. mgr. 4. gr.
    Sjóðurinn veitir eingöngu styrki vegna úreldingar þeirra skipa sem gjaldskyld eru skv. 1. mgr. 4. gr. Skal styrkur miðaður við það hlutfall er gilti á því ári er umsókn um styrkinn barst og styrkur reiknaður af húftryggingarverðmæti skips í upphafi þess árs.
    

8. gr.


    Skilyrði fyrir veitingu loforðs um styrk vegna úreldingar fiskiskips er að eigandi þess lýsi því yfir að skipið verði tekið af skipaskrá, að réttur til endurnýjunar þess verði ekki nýttur og enn fremur að allar veiðiheimildir skipsins verði sameinaðar aflaheimildum annarra skipa.
    Óheimilt er að greiða úreldingarstyrki fyrr en fyrir liggur vottorð Siglingamálastofnunar ríkisins um afskráningu skipsins af skipaskrá og yfirlýsing frá Fiskistofu um að allar aflaheimildir skipsins hafi varanlega verið sameinaðar aflaheimildum annarra skipa og fallið hafi verið frá rétti til endurnýjunar skipsins. Þá er óheimilt að veita skipi leyfi til veiða í atvinnuskyni ef Þróunarsjóður hefur greitt styrk vegna úreldingar þess.

Kaup á fiskvinnslustöðvum.


9. gr.


    Sjóðnum er heimilt fram til ársloka 1996 að kaupa fiskvinnslustöðvar og framleiðslutæki þeirra í því skyni að auka arðsemi fiskvinnslu í landinu.
    Varðandi kaupverð þeirra fiskvinnslustöðva og fiskvinnslutækja sem sjóðurinn festir kaup á skal stjórn sjóðsins taka mið af markaðsverði sambærilegra eigna en þó skal kaupverð aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur 75% af fasteignamati fasteigna og 25% af verðmæti framleiðslutækja samkvæmt mati sjóðsins. Skal miða við fasteignamat fasteigna eins og það var í upphafi þess árs er kaupin eru gerð.
    Halda skal fjárreiðum vegna eignakaupa samkvæmt þessari grein aðskildum í bókhaldi sjóðsins.
    

10. gr.


    Skilyrði fyrir því að stjórn sjóðsins sé heimilt að festa kaup á fiskvinnslustöð er að viðkomandi stöð hafi fengið útgefið fullgilt vinnsluleyfi af Fiskistofu, sbr. lög nr. 93/1992, eða fiskvinnsla hafi verið stunduð í fasteigninni með tilskildu vinnsluleyfi á árinu 1991 eða 1992 og henni hafi ekki verið ráðstafað varanlega til annarra nota. Það er jafnframt skilyrði að þær eignir, sem sjóðurinn festir kaup á, séu afhentar veðbandalausar. Þó er stjórn sjóðsins heimilt að inna kaupverð að hluta eða öllu leyti af hendi með því að taka við áhvílandi veðlánum.
    Stjórn sjóðsins skal leitast við að selja fasteignir, sem sjóðurinn eignast, til óskyldrar starfsemi. Skal þeirri kvöð þinglýst á fasteignirnar að þær verði ekki framar nýttar til fiskvinnslustarfsemi.

Þátttaka í verkefnum erlendis.


11. gr.


    Þróunarsjóði er heimilt að stuðla að þátttöku íslenskra aðila í sjávarútvegsverkefnum erlendis. Í því felst að sjóðnum er heimilt að veita styrki, lán og ábyrgðir vegna slíkra verkefna.
    Enn fremur er stjórn sjóðsins heimilt að leggja fram keypt framleiðslutæki sem hlutafé í sjávarútvegsfyrirtækjum utan Íslands eða hlutafélögum sem stofnuð eru hér á landi til að taka þátt í sjávarútvegsverkefnum erlendis. Þá er sjóðnum heimilt að leggja fram hlutafé í reiðufé til slíkra fyrirtækja, veita þeim ábyrgðir eða víkjandi lán enda liggi fyrir að alþjóðleg lánastofnun hafi á grundvelli fyrirliggjandi arðsemisáætlana mælt með fjármögnun viðkomandi verkefnis.

Hlutafjárdeild og atvinnutryggingardeild.

12. gr.


    Hlutverk hlutafjárdeildar er að fara með og selja hlutabréf í eigu deildarinnar. Hlutafjárdeild er óheimilt að kaupa ný hlutabréf. Deildinni er þó heimilt við samruna félaga eða skipti á hlutabréfum að taka við nýjum hlutabréfum sem samsvara fyrri hlutabréfaeign. Hlutafé í eigu deildarinnar skal boðið til sölu a.m.k. einu sinni á ári og skal starfsfólk og aðrir eigendur fyrirtækisins, sem í hlut á, njóta forkaupsréttar. Hlutdeildarskírteini deildarinnar skulu skráð á nafn og geta gengið kaupum og sölum. Hlutafjárdeild skal tilkynnt um eigendaskipti á hlutdeildarskírteinum.

13. gr.


     Hlutverk atvinnutryggingardeildar er að innheimta skuldabréf í eigu deildarinnar. Henni er óheimilt að veita ný lán. Þó er stjórn sjóðsins heimilt að skuldbreyta lánum atvinnutryggingardeildar í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu sjávarútvegsfyrirtækja, í samvinnu við aðrar lánastofnanir, við sameiningu eða verulega minnkun á afkastagetu einstakra fyrirtækja. Byggðastofnun annast reikningshald og innheimtu fyrir atvinnutryggingardeild eftir nánara samkomulagi við stjórn Þróunarsjóðs.

Ýmis ákvæði.


14. gr


    Stjórn Þróunarsjóðs hefur yfirumsjón með starfsemi sjóðsins. Hún ræður framkvæmdastjóra og annað starfsfólk til að annast daglegan rekstur hans eða semur um það við fjármálastofnanir eftir því sem hagkvæmt þykir.
    Fyrir upphaf hvers starfsárs skal stjórn sjóðsins leggja fyrir sjávarútvegsráðherra sundurliðaða rekstrar- og greiðsluáætlun fyrir næsta starfsár til staðfestingar.
    

15. gr.


    Stjórn sjóðsins er heimilt að taka lán til að jafna misræmi milli innborgana af skuldabréfum í eigu sjóðsins og afborgana og vaxta af lánum sem sjóðurinn á að standa skil á.

16. gr.


    Þróunarsjóður sjávarútvegsins er undanþeginn fasteignagjöldum af fasteignum sem sjóðurinn kann að eignast. Öll skjöl viðvíkjandi lánum, sem sjóðurinn tekur, skulu undanþegin stimpilgjöldum.
    

17. gr.


    Ársreikningum skal fylgja skrá yfir ráðstafanir á fjármunum Þróunarsjóðs, svo sem vegna greiðslu úreldingarstyrkja vegna fiskiskipa, kaupa á fasteignum og framleiðslutækjum, sölu á hlutabréfum hlutafjárdeildar og þátttöku í hagræðingaraðgerðum.
    

18. gr.


    Stjórnarmenn og allir starfsmenn Þróunarsjóðs sjávarútvegsins eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    

19. gr.


    Þróunarsjóður er í eigu ríkisins. Miða skal við að þróunarsjóðsgjöld skv. 4., 5. og 6. gr. standi undir skuldbindingum og rekstrarkostnaði sjóðsins. Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga Þróunarsjóðs og skal hún árlega gera sérstaka athugun á möguleikum sjóðsins til að standa undir skuldbindingum sínum miðað við stöðu efnahagsreiknings og áætlun um framtíðarútgjöld og tekjur, sbr. 1. mgr. þessarar greinar.
    Komi í ljós að framtíðartekjur sjóðsins séu ekki í samræmi við skuldbindingar skal ráðherra leggja fyrir Alþingi tillögur um breytingar á tekjustofnum sjóðsins, sbr. 4., 5. og 6. gr.

20. gr.


    Sá hluti eigna og skuldbindinga atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar, sem ekki er vegna sjávarútvegsfyrirtækja, skal vera í fjárhagslega sjálfstæðri deild við Byggðastofnun. Hlutverk atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar er að innheimta skuldabréf í eigu deildarinnar. Henni er óheimilt að veita ný lán. Stjórn Byggðastofnunar er því aðeins heimilt að gefa eftir hluta lána eða gera á þeim breytingar að það sé talið nauðsynlegt vegna innheimtuhagsmuna deildarinnar og það sé liður í skuldaskilasamningum sem aðrir kröfuhafar taka þátt í.
    

21. gr.


    Þróunarsjóði er heimilt að kaupa hlutdeildarskírteini hlutafjárdeildar.
         

22. gr.


    Sjávarútvegsráðherra setur nánari reglur um starfsemi Þróunarsjóðs sjávarútvegsins með reglugerð.
    

23. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 65/1992, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Gilda ákvæði 4. gr. laga þessara um innheimtu gjalds sem þegar hefur verið lagt á eigendur fiskiskipa skv. 4. gr. laga nr. 65/1992 og rennur gjald, sem innheimtist eftir gildistöku laga þessara, til Þróunarsjóðs. Enn fremur falla úr gildi 3.–12. gr. laga nr. 9 2. mars 1989, um aðgerðir í efnahagsmálum, svo og lög nr. 42 27. mars 1991, um breytingu á þeim lögum. Ákvæði 4. gr. um gjald á fiskiskip koma til framkvæmda frá og með árinu 1994. Ákvæði 5. gr. um gjald á fiskvinnslustöðvar koma til framkvæmda við álagningu gjalda á árinu 1994 vegna gjaldstofns ársins 1993.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Of mikil afkastageta bæði í veiðum og vinnslu hefur lengi verið eitt meginvandamál sjávarútvegsins. Þessi umframafkastageta birtist m.a. í mikilli skuldsetningu sjávarútvegsfyrirtækja og er nú svo komið að skuldir greinarinnar eru áætlaðar um 110 milljarðar króna. Þessi mikla skuldsetning dregur úr möguleikum greinarinnar á að takast á við ytri áföll, svo sem lækkandi markaðsverð og slæmt ástand þorskstofnsins vegna lélegrar nýliðunar síðustu sjö árin.
    Í vor áætlaði Þjóðhagsstofnun að samanlagður halli botnfisksveiða og -vinnslu næmi 8,8% af tekjum miðað við rekstrarskilyrði á þeim tíma. Frá þeim tíma hefur tryggingargjald verið fellt niður og gengi krónunnar fellt um 7,5%. Stofnunin telur að samanlagður halli botnfisksveiða og -vinnslu í september 1993 hafi verið um 2,2% af tekjum. Ljóst er að afkoma sjávarútvegsins mun versna þegar áhrifa samdráttar í þorskafla fer að gæta í haust og í vetur. Þjóðhagsstofnun hefur áætlað að afkoma sjávarútvegsins í heild muni versna um 2,2% þegar aflasamdrátturinn á milli fiskveiðiára verður að fullu kominn fram ef tekið er mið af afurðaverði í september 1993 þannig að afkoman verði neikvæð um 4,4%. Líklegt er að nokkur hagnaður sé í öðrum greinum sjávarútvegsins en botnfisksveiðum og -vinnslu. Þjóðhagsstofnun telur óvarlegt að áætla þann hagnað meiri en sem nemur um 1% af heildarafkomu sjávarútvegsins.
    Þjóðhagsstofnun hefur á síðustu árum athugað afkomudreifingu og eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja. Þá hefur stofnunin lagt mat á hver yrðu áhrif þess á meðaltalsafkomu greinarinnar ef framleiðslan yrði flutt frá lakast settu fyrirtækjunum til þeirra fyrirtækja sem betri afkomu skila. Er það mat stofnunarinnar á grundvelli lauslegrar athugunar á ársreikningum sjávarútvegsfyrirtækja að hægt sé að bæta afkomu sjávarútvegsins í heild um 2–3 prósentustig ef framleiðsla 25% lakast settu fyrirtækjanna flyttist til þeirra fyrirtækja sem mestri arðsemi skila. Þetta frumvarp felur ekki í sér heildarlausn á umframafkastagetu í sjávarútveginum en mun þó geta auðveldað hagræðingu í mörgum tilvikum.
    Eins og kunnugt er hafa á undanförnum árum verið settar víðtækar reglur um stjórn fiskveiða. Öll fiskiskip og bátar sem stunda veiðar í atvinnuskyni þurfa sérstök veiðileyfi og ekkert nýtt skip fær leyfi nema sambærilegt skip hverfi úr flotanum í þess stað. Til viðbótar takmörkunum í formi veiðileyfa hefur leyfilegum heildarafla flestra nytjastofna verið skipt upp á milli einstakra skipa. Með því að takmarka aðganginn með útgáfu veiðileyfa og úthluta skipunum framseljanlegum aflaheimildum hafa verið sköpuð skilyrði fyrir minnkun flotans. Nokkur árangur hefur náðst í þessum efnum en það veldur hins vegar vonbrigðum að ekki hafi fiskiskipum fækkað meira en raun ber vitni. Ýmsar ástæður geta þó legið þar að baki. Í fyrsta lagi voru lög um stjórn fiskveiða framan af sett til eins, tveggja eða þriggja ára í senn. Þessi skammi gildistími laganna skapaði óvissu og í mörgum tilfellum varð það til að draga úr viðleitni til að sameina aflaheimildir á færri skip. Í öðru lagi höfðu reglur um sóknarmark og frjálsræði í veiðum smábáta áhrif til að stækka flotann. Í þriðja lagi má rekja hluta af þeirri miklu endurnýjun, sem átt hefur sér stað á fiskiskipum, til þeirra takmarkana sem voru í gildi allt fram á miðjan síðasta áratug til að endurnýja skip. Þegar þeim takmörkunum var aflétt leiddi það til mikillar skriðu nýfjárfestinga. Í fjórða lagi má loks benda á að vegna offjárfestinga í fiskiskipum víða um heim hefur verð á notuðum skipum lækkað mjög. Þessi þróun hefur annars vegar leitt til þess að erfitt hefur reynst að losna við skip úr íslenska flotanum og hins vegar til þess að íslenskum útvegsmönnum hafa boðist nýleg erlend skip til kaups fyrir brot af smíðaverði slíkra skipa.
    Aðgangur hefur hins vegar ekki verið almennt takmarkaður fyrir þá sem vilja stunda fiskvinnslu ef undan eru skilin fyrirtæki í rækju- og skelfisksvinnslu en þar er krafist sérstakra leyfa. Allir þeir sem uppfylla tiltekin efnisleg skilyrði varðandi hreinlæti og búnað hafa fengið leyfi til að stunda fiskvinnslu. Í lok síðasta árs komu til framkvæmda lög nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra. Samkvæmt þeim lögum eru gerðar ríkari kröfur en áður í hreinlætis- og gæðamálum til fiskvinnslustarfsemi til samræmis við kröfur okkar helstu markaðsþjóða.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að stofnaður verði Þróunarsjóður sjávarútvegsins. Hlutverk sjóðsins er að auðvelda sjávarútvegsfyrirtækjum að losna við umframafkastagetu jafnt í veiðum sem vinnslu. Í því skyni mun sjóðurinn taka við því hlutverki Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins að greiða styrki vegna úreldingar fiskiskipa en jafnframt mun sjóðurinn stuðla að fækkun fiskvinnslustöðva. Með fiskvinnslustöð í lagafrumvarpi þessu er átt við mannvirki á landi þar sem fram fer vinnsla á sjávarafla, þar á meðal fasteignir þar sem fram fer bræðsla á loðnu, síld, öðrum afla og fiskúrgangi. Enn fremur er gert ráð fyrir því að sjóðurinn kaupi framleiðslutæki sem eru í fasteignunum enda sé um að ræða tæki sem hægt yrði að nýta til vinnslu í öðrum fasteignum. Kaup sjóðsins á fasteignum og framleiðslutækjum eiga að leiða til minni afkastagetu í fiskvinnslu í landinu. Þá er gert ráð fyrir að sjóðurinn geti stuðlað að sameiningu sjávarútvegsfyrirtækja með því að taka þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu í samvinnu við lánastofnanir.
    Til að stuðla að minni afkastagetu í veiðum og vinnslu og enn fremur til að auka útflutningstekjur þjóðarbúsins er lagt til að Þróunarsjóði verði heimilt að stuðla að þátttöku íslenskra aðila í sjávarútvegsverkefnum erlendis. Í þessu felst m.a. að sjóðurinn getur selt eða ráðstafað framleiðslutækjum, sem hann hefur eignast, til sjávarútvegsverkefna erlendis. Þá er gert ráð fyrir að sjóðurinn geti veitt styrki eða ábyrgðir vegna slíkra verkefna og jafnvel gerst beinn þátttakandi í slíkum verkefnum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um heiti sjóðsins, hlutverk hans og hvernig því skuli sinnt. Í fyrsta lagi er hlutverk Þróunarsjóðs að draga úr stærð fiskiskipaflotans og auka þar með hagkvæmni í útgerð. Þessu hlutverki sinnir sjóðurinn með því að veita styrki til úreldingar fiskiskipa. Skilyrði fyrir veitingu styrkja til úreldingar fiskiskipa er að tryggt sé að ný skip bætist ekki í flotann eða réttur til endurnýjunar verði nýttur með öðrum hætti. Í þessu felst að aflaheimildir þess skips, sem úrelda á, eru fluttar til annarra skipa sem fyrir eru í flotanum en veiðileyfið fellt endanlega úr gildi. Þessi starfsemi sjóðsins leiðir því til þess að aflaheimildir þeirra skipa sem eftir verða í flotanum aukast þegar fram líða stundir. Í öðru lagi skal sjóðurinn stuðla að aukinni arðsemi fiskvinnslufyrirtækja. Í því skyni er sjóðnum heimilt að kaupa fasteignir sem nýttar eru til fiskvinnslu og framleiðslutæki sem kunna að vera í þeim fasteignum. Stjórn sjóðsins skal tryggja að þær fiskvinnslustöðvar, sem sjóðurinn kann að eignast, verði ekki nýttar til fiskvinnslu. Er lagt til að þeirri kvöð verði þinglýst á eignirnar. Stjórn sjóðsins er hins vegar heimilt að selja þær fasteignir, sem sjóðurinn eignast, til aðila sem hyggjast stunda aðra starfsemi en fiskvinnslu í fasteigninni eða nýta þau lóðarréttindi sem þeim fylgja. Reynist nýtanleg tæki og vélar í fasteignum sem sjóðurinn eignast skal við það miðað að ráðstöfun þeirra leiði ekki til þess að afkastageta fiskvinnslunnar í landi aukist. Það getur sjóðurinn t.d. gert með því að selja framleiðslutækin úr landi. Í þriðja lagi er sjóðnum heimilt að taka þátt í samræmdum aðgerðum lánastofnana við fjárhagslega og rekstrarlega endurskipulagningu sjávarútvegsfyrirtækja eða aðgerðum sem beinast að því að draga úr afkastagetu fiskvinnslunnar. Þessi heimild er bundin þeim skilyrðum að um sé að ræða sameiningu tveggja eða fleiri fyrirtækja og sýnt þyki að sú endurskipulagning muni leiða til aukinnar arðsemi í sjávarútvegi eða um sé að ræða verulega minnkun í afkastagetu einstakra fyrirtækja. Í fjórða lagi er sjóðnum heimilt að greiða fyrir þátttöku íslenskra aðila í sjávarútvegsverkefnum erlendis. Það getur sjóðurinn annars vegar gert með því að veita styrki, lán eða ábyrgðir til einstaklinga og fyrirtækja vegna þátttöku þeirra í slíkum verkefnum og hins vegar með beinni eignaraðild sjóðsins að slíkum fyrirtækjum. Er gert ráð fyrir að bein þátttaka sjóðsins í félögum, sem starfa að sjávarútvegsverkefnum erlendis, sé bundin því skilyrði að alþjóðlegar lánastofnanir hafi á grundvelli arðsemisáætlana mælt með fjármögnun viðkomandi verkefnis.
    

Um 2. gr.


    Lagt er til að þrír menn verði í stjórn Þróunarsjóðs. Tveir stjórnarmenn verða skipaðir af sjávarútvegsráðherra án tilnefningar en einn samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar atvinnurekenda í sjávarútvegi. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ráðherra skipar formann sjóðstjórnar. Er lagt til að skipunartími stjórnar verði fjögur ár.
    

Um 3. gr.


    Eignir og skuldbindingar Þróunarsjóðs koma frá þremur sjóðum. Í fyrsta lagi fær sjóðurinn allar fjáreignir Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins eins og þær verða þegar lögin koma til framkvæmda. Er áætlað að eignir Hagræðingarsjóðs, sem lagður verður niður verði frumvarp þetta að lögum, hafi numið um 550 milljónum króna 31. ágúst sl. Í öðru lagi tekur Þróunarsjóður við eignum og skuldbindingum atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar vegna sjávarútvegsfyrirtækja eins og þær verða við gildistöku laganna að frádregnum lánum til deildarinnar að fjárhæð 950 milljónir króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt miðað við gengi 31. desember 1992 sem ríkissjóður yfirtekur af lánum til deildarinnar. Samkvæmt uppgjöri 31. ágúst 1993 er áætlað að eignir deildarinnar vegna lánveitinga til sjávarútvegsfyrirtækja hafi numið um 6.919 milljónum króna en skuldir um 8.479 milljónum króna. Neikvætt eigið fé deildarinnar var því áætlað um 1.578 milljónir króna þann 31. ágúst sl. Þróunarsjóður mun því taka á sig neikvætt eigið fé deildarinnar umfram yfirtöku ríkissjóðs reiknaðrar samkvæmt framansögðu. Í þriðja lagi tekur Þróunarsjóður við öllum eignum og skuldbindingum hlutafjárdeildar Byggðastofnunar miðað við stöðu efnahagsreiknings við gildtöku laga þessara. Hlutafjárdeildin á hlutabréf í níu sjávarútvegsfyrirtækjum og einu iðnaðarfyrirtæki. Hinn 31. ágúst sl. nam bókfært virði hlutabréfanna 500 milljónum króna en bókfært virði hlutdeildarskírteina 1.450 milljónum króna. Hlutdeildarskírteini eru tvenns konar, A-hlutdeildarskírteini sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs og B-hlutdeildarskírteini sem eru án ríkisábyrgðar. Ábyrgð ríkissjóðs náði þó einungis til greiðslu á 600 milljónum króna sem var uppfært með verðbótum til 850 milljóna króna 31. ágúst sl. Það ræðst af endanlegu söluverðmæti hlutabréfa hlutafjárdeildar hverjar endanlegar skuldbindingar Þróunarsjóður tekur á sig. Áætlað hefur verið að hér geti verið um 350 milljónir króna að ræða en uppgjöri hlutdeildarskírteina skal að fullu lokið árið 2005.
    Gert er ráð fyrir að ríkissjóður láni Þróunarsjóði 4.000 milljónir króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt og skulu fjárhæðir miðast við kaupgengi íslensku krónunnar samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands á staðfestingardegi laganna. Lánið skal koma til útborgunar á árunum 1993, 1994 og 1995. Skal hver lántaka afborgunarlaus fyrstu tvö árin og einungis greiddir vextir. Lán tekið á árinu 1993 endurgreiðist með jöfnum árlegum greiðslum vaxta og afborgana á árunum 1996 til 2005 eða á 10 árum. Lán tekið 1994 endurgreiðist á sama hátt á árunum 1997 til 2005 sem og lán tekið á árinu 1995 á árunum 1998 til 2005.

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að sérstakt gjald til Þróunarsjóðs verði lagt á fiskiskipaflotann. Gjaldskyldan nær til allra fiskiskipa 10 brúttólesta og stærri sem skráð eru á skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins hinn 1. janúar hvert ár. Ekki er því lagt gjald á skip það ár sem það er skrásett, þ.e. ef það er skrásett 2. janúar eða síðar. Hins vegar er greitt fullt árgjald vegna skipa árið sem þau eru tekin af skrá. Er þetta í samræmi við þá framkvæmd sem viðhöfð hefur verið í Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins. Gjaldið samsvarar þeirri fjárhæð sem lagt hefur verið á fiskiskip af Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins og er áætlað að það muni skila Þróunarsjóði um 80 milljónum króna á ári.
    Samkvæmt reglum nr. 244/1987 um mælingar skipa eiga skip sem eru 24 metrar eða lengri og stunda alþjóðlegar siglingar og skráð eru á Íslandi að taka upp nýjar mælingar og mælibréf. Samkvæmt reglugerð nr. 294/1993 um breytingu á reglugerð nr. 244/1987 taka hinar nýju reglur að fullu gildi 18. júlí 1994. Í tilefni af setningu þessarar reglugerðar ritaði samgönguráðuneytið sjávarútvegsráðuneytinu bréf þann 8. júlí sl. og fór þess á leit að það hlutaðist til um að nauðsynlegar breytingar yrðu gerðar á lögum og reglum er undir sjávarútvegsráðuneytið heyra til samræmis við þessar nýju mælingarreglur. Með hliðsjón af framansögðu er lagt til að við álagningu á þróunarsjóðsgjaldi vegna fiskiskipa verði miðað við brúttótonn en ekki brúttórúmlestir eins og í gildandi lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Engu að síður er til öryggis kveðið á um í 1. mgr. að liggi brúttótonnamæling ekki fyrir þá skuli þess í stað miðað við brúttórúmlestir. Þessi breyting á gjaldstofni leiðir til þess að gjald vegna einstakra skipa getur bæði hækkað og lækkað frá því sem nú er í Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins. Það ræðst af því hvort brúttótonnamælingin er hærri eða lægri en brúttórúmlestamælingin sem notuð var sem gjaldstofn í Hagræðingarsjóði. Við ákvörðun gjaldsins var hins vegar miðað við að heildartekjur Þróunarsjóðs af gjaldi á fiskiskip yrðu þær sömu og tekjur Hagræðingarsjóðs. Þar sem skip mælast í flestum tilvikum stærri í brúttótonnum en brúttórúmlestum er lagt til að gjaldið verði 750 kr. á brúttótonn en til samanburðar þá nam gjald til Hagræðingarsjóðs árinu 1993 945 kr. á brúttórúmlest. Hámarksgjald á hvert fiskiskip verður 285.000 kr.
         

Um 5. gr.


    Hér er kveðið á um að gjald verði lagt á fiskvinnslustöðvar til samræmis við það gjald sem lagt er á fiskiskip skv. 4. gr. Gjaldinu er ætlað að skila Þróunarsjóði um 80 milljónum króna í árlegar tekjur og verður það lagt á í fyrsta sinn árið 1994. Lagt er til að stofn til gjaldtöku verði fasteignamat fasteigna sem nýttar eru til fiskvinnslustarfsemi. Ekki liggja fyrir ítarlegar skrár um fasteignamat þessara eigna þar sem fiskvinnslueignir eru ekki sérstaklega skráðar hjá Fasteignamati ríkisins. Áætlað er að 0,75% gjald af fasteignamatsverði muni skila sjóðnum þeim tekjum sem að er stefnt.
    

Um 6. gr.


    Frá og með því fiskveiðiári sem hefst hinn 1. september 1996 verður lagt gjald á úthlutað aflamark til einstakra fiskiskipa. Er lagt til að gjaldið nemi a.m.k. 1.000 krónum á hverja þorskígildislest miðað við þau verðmætahlutföll milli fisktegunda sem sjávarútvegsráðherra ákveður í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni fyrir hvert fiskveiðiár. Í þessari tillögu felst ekki að ráðherra geti hækkað gjaldið umfram þessa fjárhæð. Það sem felst í ákvæðinu er hins vegar það að ef til þess kemur að taka þurfi ákvörðun gjaldsins til endurskoðunar á grundvelli ákvæða 19. gr. þá verði tillögugerð ráðherra við það miðuð að gjaldið verði ekki lækkað niður fyrir 1.000 kr. á hverja þorskígildislest.
    Við ákvörðun gjaldsins var miðað við meðalafla kvótabundinna fisktegunda á árunum 1987 til 1991 og er miðað við að gjaldið hefði að meðaltali gefið um 525 milljónir árlega í tekjur á því tímabili. Ljóst er að gjaldið getur á einstökum árum skilað sjóðnum bæði lægri og hærri fjárhæð en heildartekjur af gjaldinu ráðast af ákvörðunum um leyfilegan heildarafla. Miðað við leyfilegan heildarafla yfirstandandi fiskveiðiárs hefði gjaldið t.d. skilað um 417 milljónum króna. Þá er lagt til að ráðherra verði heimilt að breyta gjaldinu í samræmi við þær breytingar sem kunna að verða á vísitölu byggingarkostnaðar.
    Lagt er til að Fiskistofu verði falið að annast innheimtu gjaldsins sem fellur í gjalddaga með þremur jöfnum greiðslum ár hvert. Verður gjaldið innheimt í fyrsta skipti á því fiskveiðiári sem hefst hinn 1. september 1996.
    

Um 7. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um það hvernig sjóðurinn sinnir því hlutverki sínu að stuðla að fækkun fiskiskipa. Það gerir sjóðurinn með því að greiða styrki þegar skipi, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, er fargað eða selt úr landi án þess að nýtt skip bætist í flotann í þess stað. Styrknum er ætlað að hvetja til þess að sameina aflaheimildir á færri skip og stuðla þannig að betri rekstrarafkomu þeirra skipa sem eftir verða. Til að hraða fækkun fiskiskipa er lagt til að hámark styrkhlutfallsins verði allt að 45% af húftryggingarverðmæti fiskiskips í stað 30% í gildandi lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Enn fremur er lagt til að samanlögð fjárhæð úreldingarstyrks og tjónbóta, sem greiddar eru af tryggingafélögum vegna skipa sem verða fyrir tjóni án þess að viðgerð fari fram, geti aldrei orðið hærri fjárhæð en sem nemur húftryggingarverðmæti skips. Með þessu móti er tryggt að staða þeirra aðila, sem verða fyrir hlutatjóni, verði aldrei betri en þeirra sem verða fyrir altjóni en sjóðurinn greiðir ekki styrki vegna skipa sem verða fyrir altjóni og eru að fullu bætt af tryggingafélögum. Loks er gerð tillaga um að fjárhæð úreldingarstyrks geti aldrei orðið hærri en sem nemur 75 milljónum króna vegna einstaks skips en í gildandi lögum um Hagræðingarsjóð er þessi fjárhæð 50 milljónir króna. Hámarksfjárhæðin tekur sömu verðlagsbreytingum og gjald sem lagt er á skipin skv. 4. gr.     
    Skilyrði fyrir greiðslu úreldingarstyrks er að ekki bætist nýtt skip í flotann í þess stað að réttur til endurnýjunar skipsins verði nýttur á annan hátt. Í hvert skipti sem sjóðurinn greiðir styrk með þessum hætti fækkar því þeim skipum sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni. Styrknum er því ætlað að hvetja til að útvegsmenn sameini aflaheimildir og stuðla að því að takmarkaður afli sé sóttur með sem minnstum tilkostnaði.
    Á árinu 1991 voru greidd iðgjöld af 637 fiskiskipum til Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins. Samanlagt voru þessi skip 117.226 brúttórúmlestir að stærð. Á þessu ári eru greidd iðgjöld af 590 fiskiskipum sem eru samtals 117.376 brúttórúmlestir að stærð. Fiskiskipum 10 brúttórúmlestir og stærri hefur því fækkað um 47 frá því í ársbyrjun 1991. Hagræðingarsjóður hefur greitt og veitt úreldingarstyrki vegna 41 skips en heildarfjárhæð styrkja og loforða nemur 406 milljónum króna. Sum þeirra skipa sem sjóðurinn hefur greitt úreldingarstyrki fyrir hafa verið seld úr landi en öðrum eytt. Samanlagt voru þessi 41 skip 2.496 brúttórúmlestir eða um 2% af samanlagðri stærð þess flota sem iðgjöld eru greidd af til sjóðsins.
    

Um 8. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um þau skilyrði sem sett eru fyrir greiðslu úreldingarstyrkja vegna fiskiskipa. Eru skilyrðin þau sömu og í gildandi lögum nr. 65/1992, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, og þarfnast því ekki frekari skýringa.
    

Um 9. gr.


    Í 1. mgr. eru gefnar almennar leiðbeiningar um þau markmið sem sjóðurinn skal stefna að með kaupum á fiskvinnslustöðvum og framleiðslutækjum sem kunna að vera í þeim fasteignum sem sjóðurinn festir kaup á. Er lagt til að heimild sjóðsins til kaupa á fiskvinnslustöðvum falli niður í árslok 1996. Hér er því um tímabundna ráðstöfun að ræða.
    Kaup sjóðsins á fasteignum fiskvinnslustöðva fara eftir ákvörðun stjórnar sjóðsins á hverjum tíma. Við mat á því hvort sjóðurinn festir kaup á fasteignum fiskvinnslustöðva þarf stjórnin að taka tillit til margra þátta og sérstaklega að hafa í huga að kaupin leiði til betri rekstrarskilyrða fyrir þær fiskvinnslustöðvar sem halda áfram rekstri. Að þessu leyti eru verkefni sjóðsins vegna fiskvinnslustöðva og fækkunar fiskiskipa ólík. Sjóðnum er skylt að greiða úreldingarstyrki vegna fiskiskipa ef tilteknum skilyrðum er fullnægt. Sjóðnum er hins vegar ekki á nokkurn hátt skylt að kaupa fiskvinnslustöðvar sem honum kunna að verða boðnar til kaups.
    Sjóðurinn þarf að nýta vel þá takmörkuðu fjármuni sem hann hefur til ráðstöfunar og því þarf að haga kaupum á fasteignum fiskvinnslustöðva þannig að þau leiði til sem mestrar arðsemi fyrir þá fiskvinnslustarfsemi sem eftir verður. Þá er ljóst að ekki er í öllum tilvikum nægjanlegt að festa einungis kaup á fiskvinnslustöðvunum sjálfum heldur verður jafnframt að tryggja að öll framleiðslutæki viðkomandi stöðvar verði ekki nýtt til að auka afkastagetu í öðrum fiskvinnslustöðvum.
    Í 2. mgr. eru ákvæði er varða kaupverð fiskvinnslustöðva og framleiðslutækja þeirra. Er lagt til að aðalreglan verði sú að sjóðurinn kaupi fasteignir og framleiðslutæki á markaðsverði. Þó er lagt til að sú regla verði lögfest að sjóðurinn geti ekki greitt hærra verð fyrir fasteign en sem nemur 75% af fasteignamati og 25% af verðmæti framleiðslutækja samkvæmt mati sjóðsins.
    

Um 10. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um þau skilyrði sem sett eru fyrir kaupum sjóðsins á fiskvinnslustöðvum. Er lagt til að sjóðnum sé einungis heimilt að kaupa fiskvinnslustöð sem hefur fengið útgefið fullgilt vinnsluleyfi af Fiskistofu í samræmi við ákvæði laga nr. 93/1992. Þetta skilyrði á að tryggja að takmarkaðir fjármunir sjóðsins sé nýttir til að kaupa raunverulega afkastagetu, þ.e. fiskvinnslustöðvar sem fullnægja reglum sem settar eru fyrir leyfi til framleiðslu og útflutnings sjávarafurða. Þó eru ákvæði þess efnis að sjóðnum sé heimilt að festa kaup á fiskvinnslustöð sem hefur starfað með fullgilt vinnsluleyfi á árinu 1991 eða 1992. Skilyrði fyrir kaupum sjóðsins á slíkum stöðvum er að viðkomandi stöð hafi ekki verið ráðstafað varanlega til annarrar starfsemi. Með þessu móti er komið til móts við þau fyrirtæki sem hafa hagrætt í rekstri á undanförnum árum. Þá er sjóðnum óheimilt að greiða út andvirði fasteigna og framleiðslutækja fyrr en öllum veðum, sem á þessum eignum kunna að hvíla, hefur verið aflétt.
    Eignist sjóðurinn fasteignir og framleiðslutæki þarf að sjá til þess að endurráðstöfun þeirra leiði ekki til aukinnar afkastagetu. Sjóðnum er einungis heimilt að ráðstafa fasteignum til óskyldrar starfsemi og er gert ráð fyrir að þeirri kvöð verði þinglýst á eignirnar að þær verði ekki framar nýttar til fiskvinnslustarfsemi. Sjóðurinn þarf jafnframt að tryggja að endurráðstöfun framleiðslutækja leiði ekki til þess að afkastageta fiskvinnslunnar aukist. Það getur sjóðurinn t.d. gert með tvennum hætti; með því að ráðstafa tækjunum úr landi, t.d. í samræmi við ákvæði 11. gr., eða þá að skipta þeim innan lands og fá í staðinn sambærileg tæki hvað afkastagetu varðar. Þeim framleiðslutækjum sem sjóðurinn fengi í staðinn yrði síðan eytt eða þeim ráðstafað úr landi.
    

Um 11. gr.


    Á undanförnum árum hefur áhugi á þátttöku íslenskra fyrirtækja í sjávarútvegsverkefnum erlendis farið vaxandi. Kemur þar einkum tvennt til. Í fyrsta lagi búa Íslendingar yfir mikilli þekkingu á flestum sviðum sjávarútvegsmála sem hefur orðið til þess að margar þjóðir, sem eru að byggja upp sjávarútveg sinn, hafa haft frumkvæði að því að reyna að fá íslenska aðila til samstarfs. Í öðru lagi hefur minnkandi afli og breytt ráðstöfun hans leitt til mikillar umframafkastagetu í veiðum og vinnslu. Ýmsar hindranir hafa þó staðið í vegi fyrir þátttöku Íslendinga í slíkum verkefnum þó svo að margt hafi áunnist á síðustu árum. Að sumu leyti stafa þessir erfiðleikar af skorti á fjármagni bæði til að undirbúa og taka þátt í slíkum verkefnum og eins af vandkvæðum við að afla nýrra trygginga fyrir þær lánastofnanir sem eiga veð í skipum og framleiðslutækjum sem íslensk fyrirtæki vildu leggja fram í slík verkefni. Þar sem meginhlutverk Þróunarsjóðs er að stuðla að minni afkastagetu í veiðum og vinnslu hér á landi er lagt til að sjóðnum verði heimilt að stuðla að slíkum verkefnum erlendis. Er lagt til að Þróunarsjóður geti með veitingu ábyrgða og styrkja greitt fyrir þátttöku íslenskra aðila og fyrirtækja í sjávarútvegsverkefnum erlendis. Þá er enn fremur lagt til að sjóðurinn geti með beinum hætti tekið þátt í slíkum verkefnum með hlutafjárframlagi. Það framlag getur bæði verið í því formi að sjóðurinn leggi fram sem hlutafé framleiðslutæki, sem hann hefur fest kaup á skv. 9. og 10. gr., og eins með beinu fjárframlagi eða ábyrgðum enda liggi fyrir að alþjóðleg lánastofnun hafi á grundvelli arðsemisáætlana mælt með fjármögnun viðkomandi verkefnis.
    

Um 12. gr.


    Í 12. gr. er kveðið á um starfsemi hlutafjárdeildar sem Þróunarsjóður tekur við frá Byggðastofnun, sbr. ákvæði 3. gr. Ekki er lagt til að neinar breytingar verði gerðar á starfsemi deildarinnar að öðru leyti. Hlutverk Þróunarsjóðs verður að fara með eignarhlut deildarinnar í þeim fyrirtækjum sem hún á hlutabréf í og standa eigendum hlutdeildarskírteina skil á andvirði þeirra í samræmi við ábyrgð ríkissjóðs.
    

Um 13. gr.


    Hér er kveðið á um þann þátt í starfsemi Þróunarsjóðs sem felst í því að sjóðurinn tekur við eignum og skuldbindingum atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar vegna sjávarútvegsfyrirtækja. Hlutverk sjóðsins verður fyrst og fremst að innheimta skuldabréf í eigu deildarinnar og er lagt til að Þróunarsjóður feli Byggðastofnun að annast þessa starfsemi með sama hætti og verið hefur. Lagt er til að stjórn sjóðsins verði heimilt að skuldbreyta lánum til einstakra fyrirtækja ef tilteknum skilyrðum er fullnægt. Er lagt til að slík skuldbreyting verði einungis heimiluð við fjárhagslega endurskipulagningu í tengslum við sameiningu sjávarútvegsfyrirtækja eða ef um er að ræða verulega minnkun á afkastagetu einstakra fyrirtækja sem sýnt þykir að leiða muni til betri rekstrarskilyrða annarra sjávarútvegsfyrirtækja.
    

Um 14. gr.


    Stjórn Þróunarsjóðs hefur fullt forræði yfir allri daglegri starfsemi sjóðsins. Það verður því verkefni stjórnarinnar að ákveða vistun sjóðsins og taka ákvarðanir um ráðningu framkvæmdastjóra og annars starfsfólks ef þörf krefur.
    Í 2. mgr. er lagt til að sú vinnuregla verði lögfest að stjórn sjóðsins leggi fyrir sjávarútvegsráðherra fyrir upphaf hvers starfsárs sundurliðaða rekstrar- og greiðsluáætlun fyrir næsta starfsár. Er þetta í fullu samræmi við það sem viðgengst varðandi þær stofnanir sem heyra undir ýmis ráðuneyti.
    

Um 15. gr.


    Misræmi verður á milli innborgana og útborgana sjóðsins, sérstaklega á árunum 1995 til 2002. Til að jafna þetta misræmi er í þessari grein kveðið á um að stjórn sjóðsins verði heimilað að taka lán til viðbótar láni til sjóðsins skv. 3. gr. til að jafna greiðslustreymi sjóðsins. Þessar lántökur sem og aðrar lántökur sjóðsins koma til kasta Alþingis á hverjum tíma í tengslum við lánsfjárlög fyrir hvert ár.
    

Um 16. gr.


    Hér er lagt til að sjóðurinn þurfi ekki að greiða fasteignagjöld af þeim fasteignum sem hann eignast. Þetta þykir eðlilegt þar sem engin starfsemi mun fara fram í þessum fasteignum á meðan þær eru í eigu sjóðsins. Verði þeim hins vegar síðar ráðstafað af sjóðnum til annarra nota yrðu fasteignagjöld lögð á að nýju. Þá er lagt til að skjöl viðvíkjandi lánum, er sjóðurinn tekur, skuli undanþegin stimpilgjöldum.
    

Um 17. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um þær upplýsingar um fjármálalegar ráðstafanir sem sjóðnum verður gert að birta samhliða ársreikningi hvers árs.
    

Um 18. gr.


    Hér er kveðið á um þagnarskyldu stjórnarmanna og starfsmanna sjóðsins.
    

Um 19. gr.


    Í 1. mgr. er tekinn af allur vafi um að Þróunarsjóður verði í eigu ríkisins og þróunarsjóðsgjald skuli standa undir öllum skuldbindingum sjóðsins.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Ríkisendurskoðun skuli árlega gera sérstaka athugun á stöðu sjóðsins þar sem sérstaklega verði kannaðir möguleikar hans til að standa undir skuldbindingum sínum miðað við stöðu efnahagsreiknings og áætlun um framtíðartekjur og -útgjöld sjóðsins. Er jafnframt í 3. mgr. lagt til að ráðherra verði falið að leggja tillögur fyrir Alþingi um breytingar á tekjustofnum sjóðsins reynist áætlun sjóðsins um framtíðartekjur og -útgjöld ekki í samræmi við skuldbindingar.

    

Um 20. gr.


    Grein þessi þarfnast ekki skýringa.
    

Um 21. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um að Þróunarsjóði sé heimilt að festa kaup á hlutdeildarskírteinum hlutafjárdeildar. Eins og rakið var í athugasemdum við 3. gr. eru hlutdeildarskírteini hlutafjárdeildar tvenns konar, þ.e. A-hlutdeildarskírteini og B-hlutdeildarskírteini. A-skírteinin eru með ábyrgð ríkissjóðs og ábyrgist Þróunarsjóður greiðslu ríkisins ef eignir hlutafjárdeildar duga ekki til. B-skírteinin eru hins vegar ekki með ríkisábyrgð. Það ræðst af mati eigenda þessara skírteina, sem fyrst og fremst eru fjármálastofnanir, hvert framtíðarvirði skírteinanna er en samkvæmt gildandi lögum um hlutafjársjóð á að leysa sjóðinn upp árið 2005 og greiða handhöfum skírteinanna út virði þeirra.
    

Um 22. gr.


    Grein þessi þarfnast ekki skýringa.
    

Um 23. gr.


    Hér er kveðið á um gildistöku laganna. Þá er í síðasta málslið kveðið á um að gjald á fiskvinnslustöðvar verði fyrst lagt á við álagningu gjalda á árinu 1994 vegna gjaldstofns ársins 1993.