Ferill 284. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 284 . mál.


361. Frumvarp til laga



um ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins til að vega á móti skerðingu þorskveiðiheimilda.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



1. gr.


    Aflaheimildum Hagræðingarsjóðs vegna fiskveiðiársins 1. september 1993 til 31. ágúst 1994 skv. 5. gr. laga nr. 65/1992, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, sem óráðstafað er við gildistöku laga þessara, skal úthlutað án endurgjalds til þeirra fiskiskipa sem orðið hafa fyrir mestri skerðingu við úthlutun aflamarks á yfirstandandi fiskveiðiári.
    Skal Fiskistofa úthluta aflaheimildum til þeirra skipa sem orðið hafa fyrir meira en 9,8% skerðingu aflamarks í þorskígildum talið á milli fiskveiðiáranna, sbr. 2. gr., þannig að skerðing umfram framangreind mörk verði að fullu bætt. Skal aflaheimildum skipt milli tegunda í hlutfalli við samsetningu aflaheimilda Hagræðingarsjóðs og úthlutað þannig til einstakra skipa.

2. gr.


    Fyrir hvert fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni með aflahlutdeild, sbr. lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, skal reikna aflamark fyrir hverja tegund annars vegar fyrir fiskveiðiárið er hófst 1. september 1992 og hins vegar fyrir yfirstandandi fiskveiðiár miðað við aflahlutdeild viðkomandi skips í hverri tegund 7. desember 1993. Skal miðað við úthlutað heildaraflamark hvors fiskveiðiárs fyrir hverja tegund að teknu tilliti til breytinga sem orðið hafa á heildaraflamarki innan hvors fiskveiðiárs. Við þessa útreikninga skal þó ekki taka tillit til úthlutunar á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs, sbr. lög nr. 112/1993. Þannig reiknað aflamark hvers skips fyrir hvort fiskveiðiár um sig skal reiknað til þorskígilda miðað við verðmætastuðla skv. 5. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 274/1993. Sú hlutfallslega breyting, sem orðið hefur á aflaheimildum einstakra skipa milli fiskveiðiára miðað við framangreindar forsendur, skal lögð til grundvallar við úthlutun skv. 1. gr.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta .


    Leyfilegur heildarafli á þorski hefur verið dreginn verulega saman eða úr 205 þúsund lestum á síðasta fiskveiðiári í 165 þúsund lestir á yfirstandandi fiskveiðiári. Að auki hefur leyfilegur hámarksafli á fleiri mikilvægum tegundum verið minnkaður þó í minna mæli sé. Afleiðingar þessa verða augljóslega að útgerðin mætir auknum vandkvæðum í rekstri og sér í lagi þær útgerðir sem hafa stærstan hluta sinna aflaheimilda í þorski. Til að létta undir með þeim útgerðum sem hafa orðið fyrir mestri skerðingu í aflaheimildum af þessum sökum er lagt til að aflaheimildum Hagræðingarsjóðs verði úthlutað útgerðum endurgjaldslaust en sjóðurinn ræður yfir aflaheimildum er nema 12.000 þorskígildislestum. Er það í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 27. júní sl. Í 7. gr. laga nr. 65/1992, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, er kveðið á um að sveitarfélög geti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum fengið forkaupsrétt að aflaheimildum sjóðsins. Fjórar umsóknir bárust sjóðnum vegna yfirstandandi fiskveiðiárs og var ein þeirra tekin til greina og viðkomandi sveitarfélagi boðinn forkaupsréttur. Var hann nýttur að tæplega 162 þorskígildislestum. Langmestum hluta aflaheimilda sjóðsins er því óráðstafað. Í frumvarpi þessu er lagt til að þeim aflaheimildum Hagræðingarsjóðs sem hefur ekki verið ráðstafað verði úthlutað endurgjaldslaust til að bæta hlut þeirra fiskiskipa sem hafa orðið fyrir mestri hlutfallslegri skerðingu í aflaheimildum milli fiskveiðiáranna er hófust 1. september 1992 og 1. september 1993. Verði frumvarp þetta að lögum mun ekkert fiskiskip verða fyrir meiri skerðingu en sem nemur 9,8% í þorskígildum talið. Fyrst og fremst eru það þær útgerðir sem háðar eru þorskveiðum sem hér eiga í hlut. Í frumvarpinu er lagt til að sami háttur verði hafður á við úthlutun uppbótanna og gert var með bráðabirgðalögum nr. 86/1993 sl. vor varðandi úthlutun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs á síðastliðnu fiskveiðári, sbr. nú lög nr. 112/1993.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að þeim aflaheimildum Hagræðingarsjóðs sem ekki hefur verið ráðstafað verði úthlutað endurgjaldslaust til þeirra fiskiskipa sem hafa orðið fyrir mestri skerðingu á úthlutuðu aflamarki milli ára. Ljóst er að heimildir sjóðsins nægja til að bæta þeim skipum sem orðið hafa fyrir meiri skerðingu milli fiskveiðiáranna en sem nemur 9,8% í þorskígildum talið. Eftir að úthlutunin hefur farið fram mun því ekkert skip hafa orðið fyrir meiri skerðingu en 9,8%. Er um að ræða 781 fiskiskip sem mundi fá úthlutað viðbótaraflamarki ef frumvarp þetta nær fram að ganga. Aflaheimildir Hagræðingarsjóðs eru í þorski, ýsu, ufsa, karfa, grálúðu og skarkola. Gert er ráð fyrir að úthlutunin fari þannig fram að hverju skipi verði úthlutað viðbótaraflamarki sem nemur skerðingu þess umfram 9,8% í þorskígildum talið þannig að hlutfallsleg skipting milli tegunda endurspegli samsetningu tegundanna sem Hagræðingarsjóði var úthlutað.

Um 2. gr.


    Í greininni er lýst þeirri aðferð sem nota skal við að reikna út þá skerðingu sem skipin hafa orðið fyrir vegna samdráttar í aflaheimildum milli fiskveiðiára. Lagt er til að sami háttur verði hafður á nú og þegar aflaheimildum Hagræðingarsjóðs var úthlutað í sama tilgangi sl. vor, sbr. nú lög nr. 112/1993. Aflamark hvers skips fyrir hvort fiskveiðiáranna fyrir sig skal reiknað út miðað við úthlutaðan heildarafla í hverri kvótabundinni tegund og aflahlutdeild skipanna eins og hún var í skrá Fiskistofu 7. desember sl. Einnig skal tekið tillit til breytinga á leyfilegum hámarksafla sem orðið hafa innan hvors fiskveiðiárs fyrir sig. Þá skal aflamark í hverri tegund reiknað til þorskígilda og heildaraflamark hvers skips í þorskígildum fundið hvort fiskveiðiárið fyrir sig. Við umreikning aflamarks til þorskígilda er gert ráð fyrir að við bæði fiskveiðiárin sé notast við verðmætastuðla, sbr. 5. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 274/1993.
    Gert er ráð fyrir að sú hlutfallslega breyting á aflamarki einstakra skipa í þorskígildum talið sem á þennan hátt kemur fram verði lögð til grundvallar þegar ákveða skal úthlutun aflamarks úr Hagræðingarsjóði skv. 1. gr.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.