Ferill 103. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 103 . mál.


387. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum sem varða réttarfar, atvinnuréttindi o.fl. vegna aðildar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.

Frá 1. minni hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið á 116. og 117. löggjafarþingi og fengið á fund sinn frá dómsmálaráðuneytinu Ara Edwald, aðstoðarmann dómsmálaráðherra, og Ólaf W. Stefánsson skrifstofustjóra, frá félagsmálaráðuneytinu Berglind Ásgeirsdóttur ráðuneytisstjóra og frá utanríkisráðuneytinu Pétur G. Thorsteinsson sendifulltrúa, Markús Sigurbjörnsson prófessor við Háskóla Íslands, Tryggva Gunnarsson hrl. og Eirík Tómasson hrl.
    Nefndinni bárust umsagnir frá BHMR, Samtökum landflutningamanna, lögreglustjóranum í Reykjavík, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Lögfræðingafélagi Íslands, Ökukennarafélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Félagi fasteignasala, Sýslumannafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Dómarafélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda, BSRB, héraðsnefnd Vestur-Húnavatnssýslu, réttarfarsnefnd, Búnaðarfélagi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, héraðsnefnd Suðurnesja, Stéttarsambandi bænda og Umferðarráði. Auk þess barst nefndinni erindi frá Amnesty International.
    Frumvarp þetta skiptist í tíu kafla þar sem fjallað er um breytingar á lögum í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og eru þær í meginatriðum eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi leiðir af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að þegnar annarra ríkja, sem njóta réttinda samkvæmt samningnum, munu samkvæmt ákvæðum hans verða jafnsettir innlendum þegnum á sama stað, m.a. hvað varðar atvinnuréttindi og heimildir til fjárfestingar. Í þessu tilliti er kveðið á um breytingar á þrennum lögum sem áskilja íslenskt ríkisfang til að öðlast tiltekin réttindi. Eru það lög um prentrétt, nr. 57/1956, lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966, og lög um fasteigna- og skipasölu, 34/1986. Þá er mælt fyrir um breytingar á lögum um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965, um heimildir útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér og meðferð mála, sem að þessu snúa, fyrir stjórnvöldum.
    Í öðru lagi er mælt fyrir um breytingar á lögum vegna reglna sem settar hafa verið um viðurkenningu á prófskírteinum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Snýr það einkum að skilyrðum sem sett eru fyrir réttindum eða starfsgengi sem bundin hafa verið embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands. Eru það lög um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns, nr. 74/1938, lög um málflytjendur, nr. 61/1942, lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989.
    Í þriðja lagi er mælt fyrir um breytingar á lögum um leyfisbundna þjónustustarfsemi málflutningsmanna, fasteigna- og skipasala og niðurjöfnunarmanna sjótjóns.
    Loks er gert ráð fyrir breytingum á lögum um gagnaöflun fyrir dómstólum. Varðar það almenn hegningarlög, nr. 19/1940, og lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
    Fyrsti minni hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 14. des. 1993.



Sólveig Pétursdóttir,

Gísli S. Einarsson.

Björn Bjarnason.


form., frsm.



Ey. Kon. Jónsson,


með fyrirvara.