Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 233 . mál.


389. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn til viðræðna frá félagsmálaráðuneytinu Húnboga Þorsteinsson skrifstofustjóra og Sturlaug Tómasson deildarstjóra, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson formann og Þórð Skúlason framkvæmdastjóra, frá Alþýðusambandi Íslands Láru V. Júlíusdóttur framkvæmdastjóra og Gylfa Arnbjörnsson hagfræðing, frá Vinnuveitendasambandi Íslands Þórarin V. Þórarinsson framkvæmdastjóra og Hannes G. Sigurðsson hagfræðing, frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja Ögmund Jónasson formann og Rannveigu Sigurðardóttur hagfræðing, frá Fasteignamati ríkisins Magnús Ólafsson forstjóra og Elís Reynarsson rekstrarstjóra, frá Reykjavíkurborg Eggert Jónsson borgarhagfræðing og frá Neytendasamtökunum Jóhannes Gunnarsson formann. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sveitarstjórn Breiðdalshrepps, bæjarstjórn Selfoss, sveitarstjórn Hofshrepps, borgarstjóranum í Reykjavík, bæjarstjórn Sauðárkróks, sveitarstjórn Laxárdalshrepps, bæjarstjórn Egilsstaðabæjar, bæjarstjórn Vestmannaeyja, bæjarstjórn Akraness, bæjarstjórn Grindavíkur, Fasteignamati ríkisins, Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, sveitarstjórn Hofshrepps, sveitarstjórn Hólmavíkurhrepps, bæjarstjórn Mosfellsbæjar, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, fjármálaráðuneytinu, bæjarstjórn Hafnarfjarðar, bæjarstjórn Kópavogs, bæjarstjórn Seltjarnarness og bæjarstjórn Garðabæjar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Lögð er til breyting á 6. gr. frumvarpsins. Í gildandi lögum um tekjustofna sveitarfélaga eru ákvæði um að útsvar megi ekki vera hærra en 7,5% af útsvarsstofni. Hvað útsvarið varðar gerir frumvarpið ekki ráð fyrir öðrum breytingum en þeim að þetta tiltekna hámark verði 9,2%. Í breytingartillögunni felst að lágmarksútsvar verði lögbundið 8,4% og eru veigamestu rökin fyrir þeirri breytingu að mismunur á útsvarsálagningu sveitarfélaganna verður minni og útsvarsgreiðslur íbúa landsins jafnari.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 10. gr. frumvarpsins sem er nýtt ákvæði til bráðabirgða. Lagt er til að aukið verði við 1. efnismgr., í fyrsta lagi til að taka af tvímæli um að viðbótarfasteignaskattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði á árinu 1994, sem ákvæðið veitir heimild til, skuli renna óskiptur til sveitarsjóðs og í öðru lagi að álagning og innheimta þessa skatts verði í höndum sveitarstjórnar en hún geti jafnframt falið sérstökum innheimtuaðila þá innheimtu.
                  Lagðar eru til nokkrar breytingar á 2. efnismgr. Í fyrsta lagi er lagt til að í stað þess að tímafrestur eigenda til að senda skrá yfir eignir ásamt tilgreindum upplýsingum miðist við árslok 1993 verði framkvæmdin sú að viðkomandi sveitarstjórn auglýsi hver frestur þessi verði, en vegna þess hve langt er nú liðið á árið er ekki mögulegt að miða við næstu áramót. Í öðru lagi er felldur brott þáttur Fasteignamats ríkisins í viðtöku skráa og upplýsinga samkvæmt ákvæðinu. Er það í samræmi við þá framkvæmd sem verið hefur, að skrár yfir eignir séu sendar sveitarfélögunum, auk þess sem það einfaldar framkvæmdina að hafa hana hjá einum og sama aðila. Í þriðja lagi er síðan lögð til viðbót við 2. efnismgr. sem er í samræmi við gildandi framkvæmd, að skattayfirvöld séu ráðgjafaraðili sveitarstjórna við framkvæmd skattlagningar.
                  Loks eru lagðar til breytingar á 10. gr. sem miða að því að taka af öll tvímæli um að viðbótarskattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði verði tekjustofn sveitarfélaga þar til ákvörðun hefur verið tekin um að koma þeirri skattheimtu fyrir með öðrum hætti. Markmiðið er að hinn sérstaki fasteignaskattur verði aðeins lagður á á árinu 1994, en rétt þykir, svo að réttarstaða sveitarfélaganna sé ljós að þessu leyti, að leggja til að við greinina bætist ný málsgrein þess efnis að ákvæðið verði í gildi þar til félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafi unnið að nánari útfærslu málsins auk þess sem að ártöl eru felld brott úr 1. efnismgr. í sama tilgangi.
    Lagt er til að í 10. gr. frumvarpsins bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Í 26. gr. laganna segir að sveitarsjórn skuli ákveða fyrir 1. desember ár hvert hvaða hundraðshluti verði lagður á tekjur manna á næsta ári og skuli tilkynna ákvörðun sveitarstjórnar til fjármálaráðuneytisins eigi síðar en 15. desember á sama ári. Með bráðabirgðaákvæðinu er lagt til að ráðherra verði heimilt, þrátt fyrir ákvæði 26. gr., að auglýsa á árinu 1993 sérstaka fresti sveitarstjórna til að ákveða hundraðshluta útsvars en tilkynning til ráðuneytis skuli hafa borist eigi síðar en tveimur dögum eftir að ákvörðun sveitarstjórnar átti að liggja fyrir. Breytingin helgast af gildistöku þessa frumvarps. Þá er einnig lagt til að heimilt verði að miða við ákvörðun fyrra árs að viðbættu 1,5% vanræki sveitarstjórn tilkynningarskyldu sína samkvæmt ákvæðinu. Væri viðmið fyrra árs 7,5% yrði niðurstaðan þannig 9% hjá viðkomandi sveitarfélagi. Er þessi áætlunarheimild í samræmi við ákvæði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 1. gr. laga nr. 42/1988.
    Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. des. 1993.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Guðjón Guðmundsson.

Eggert Haukdal.


form., frsm.



Einar K. Guðfinnsson.

Valgerður Gunnarsdóttir.