Hægt er að sækja Word Perfect útgáfu af skjalinu, sjá upplýsingar um uppsetningu á Netscape fyrir Word Perfect skjöl.

1993--94. -- 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. -- 244 . mál.


402. Nefndarálit og 245.


um frv. til l. um prestssetur og frv. til l. um kirkjumálasjóð.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málin og með vísan til 1. mgr. 30. gr. þingskapa skilar hún einu áliti um þau bæði. Nefndin fékk á sinn fund til viðræðna frá dómsmálaráðuneytinu Þorstein Geirsson ráðuneytisstjóra og Guðmund Þ. Guðmundsson deildarstjóra, Geir Waage, formann Prestafélags Íslands, Þorbjörn Hlyn Árnason biskupsritara og Allan V. Magnússon héraðsdómara. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Baldri Vilhelmssyni, prófasti Ísafjarðarprófastsdæmis, Jóni Dalbú Hróbjartssyni, prófasti Reykjavíkurprófastsdæmis vestra, Einari Þór Þorsteinssyni, prófasti Múlaprófastsdæmis, Hauki Guðlaugssyni, söngmálastjóra þjóðkirkjunnar, Erni Friðrikssyni, prófasti Þingeyjarprófastsdæmis, Braga Benediktssyni, prófasti Barðastrandarprófastsdæmis, Hjálmari Jónssyni, prófasti Skagafjarðarprófastsdæmis, Guðmundi Þorsteinssyni, dómprófasti Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, Jóni E. Einarssyni, prófasti Borgarfjarðarprófastsdæmis, Braga Friðrikssyni, prófasti Kjalarnesprófastsdæmis, Þorleifi Kristmundssyni, prófasti Austfjarðaprófastsdæmis, Tómasi Guðmundssyni, prófasti Árnessprófastsdæmis, Árna Sigurðssyni, prófasti Húnavatnsprófastsdæmis, Fjölskylduþjónustu kirkjunnar og Ríkisendurskoðun.
    Frumvörpin um prestssetur og kirkjumálasjóð eru flutt samhliða og er markmið þeirra að færa stjórnsýslu á sviði kirkjumála frá ríkisvaldi til þjóðkirkju. Frumvörpin hafa verið kynnt bæði fyrir kirkjuráði og kirkjuþingi sem samþykkti þau fyrir sitt leyti.
    Með frumvarpi til laga um prestssetur er lagt til að sérstök lög gildi um prestssetur landsins. Frumvarpinu er ætlað að taka af öll tvímæli um að sérstakar reglur og sjónarmið gilda um prestssetur. Hingað til hefur lögum um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins, nr. 27/1968, verið beitt um prestsbústaði og að nokkru leyti einnig um íbúðarhús á prestssetursjörðum. Verði frumvarpið lögfest mun verða breyting þar á. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að sérstakur sjóður, prestssetrasjóður, verði stofnaður er annist um stjórnsýslu og rekstur prestssetra. Engin afstaða er tekin til eignarréttar yfir prestssetrunum í frumvarpinu enda eru að störfum sérstakar nefndir ríkis og kirkju sem hafa það hlutverk að fjalla um framtíðarskipan kirkjueigna.
    Í frumvarpi til laga um kirkjumálasjóð er mælt fyrir um stofnun sérstaks sjóðs, kirkjumálasjóðs, er lúti stjórn kirkjuráðs. Sjóðnum eru ætlað að skila ár hvert fjárhæð er renni til prestssetrasjóðs, eftir nánari ákvörðun kirkjuráðs, en auk þess er kirkjumálasjóði ætlað að standa straum af ýmsum verkefnum sem talin eru upp í 4. gr. frumvarpsins. Kirkjumálasjóði er einnig ætlað að standa straum af kostnaði við prestssetur landsins að miklu leyti.
    Nefndin leggur til að frumvörp þessi verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á aðgreindum þingskjölum. Breytingartillögurnar við frumvörpin eru hliðstæðar. Lagt er til að aukið verði við 9. gr. laga um prestssetur og 5. gr. laga um kirkjumálasjóð þannig að í báðum frumvörpunum verði tilvísun til laga um Ríkisendurskoðun, sem nú eru nr. 12 frá árinu 1986, á viðeigandi stöðum. Er hér ekki um efnisbreytingar að ræða.

Alþingi, 15. des. 1993.


Sólveig Pétursdóttir,
Valgerður Gunnarsdóttir.
Björn Bjarnason.

form., frsm.


Ey. Kon. Jónsson.
Ingi Björn Albertsson,

með fyrirvara.