Ferill 251. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 251 . mál.


409. Nefndarálit



um frv. til l. um breytingar í skattamálum.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fjallað um skattafrumvarp ríkisstjórnarinnar á mörgum fundum. Þrátt fyrir ítarlega umfjöllun gefst nefndinni ekki tími til að fara yfir frumvarpið með þeim hætti sem nauðsynlegt væri vegna þess hve seint það kom fram og einnig vegna þess að nauðsynleg úttekt á áhrifum þeirra breytinga, sem lagðar eru til, liggur ekki fyrir. Undirritaðir nefndarmenn hafa sjaldan orðið vitni að öðrum eins vinnubrögðum og þeim sem beitt hefur verið í þessu máli og lýsa allri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni vegna þeirrar ringulreiðar sem nú ríkir í skattamálum.
    Skattafrumvarp ríkisstjórnarinnar felur í sér margar breytingar en þeirra veigamest er sú ákvörðun að lækka virðisaukaskatt á matvælum í 14%. Það hefur um árabil verið skoðun undirritaðra nefndarmanna og stjórnmálasamtaka, sem þeir eru fulltrúar fyrir, að það beri að lækka verð á matvælum, einkum þeim sem vega þyngst í matarkaupum fjölskyldnanna í landinu. Breytingar á sköttum, svo og endurgreiðslum, koma auðvitað sterklega til greina þegar leitað er leiða til lækkunar matarverðs. Ríkisstjórnin hefur hins vegar staðið þannig að verki við undirbúning og afgreiðslu þess máls sem hér er til umræðu að ógjörningur er að styðja það.
    Á síðasta vori gerðu ASÍ, VSÍ og ríkisstjórnin kjarasamninga sem fólu í sér auknar niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum þannig að þær bera nú 14% virðisaukaskatt. Þar með voru flestar þær matvörur, sem skipta heimilin í landinu, ekki síst heimili láglaunafólks, mestu máli, lækkaðar í verði. Síðan var samið um að lækka virðisaukaskatt á öðrum matvælum niður í 14% frá og með næstu áramótum. Þar er fyrst og fremst um að ræða innflutt matvæli og hráefni (80%). Þessi lækkun felur í sér tekjutap ríkissjóðs upp á 2,6 milljarða kr. Til að mæta tekjutapi ríkissjóðs var m.a. gert ráð fyrir að komið yrði á fjármagnstekjuskatti, auk annarra aðgerða. Þrátt fyrir að kjarasamningar væru til lykta leiddir fyrir mitt ár og ljóst væri að þarna væri um viðamikla breytingu á virðisaukaskattkerfinu að ræða hefur nánast enginn undirbúningur átt sér stað til að mæta breytingunni og frumvarp til laga vegna þeirra leit ekki dagsins ljós fyrr en í lok nóvember. Ríkisstjórnin gafst enn einu sinni upp á því að koma á fjármagnstekjuskatti.
    Þau gögn, sem liggja fyrir um áhrif lækkunar virðisaukaskatts á matvælum á hag heimilanna, eru mjög misvísandi. Það er þó ljóst að sú lækkun á virðisaukaskatti, sem ætlað er að taka gildi um næstu áramót, skilar ótrúlega litlu í krónum talið og jafnar kjörin lítið. Í þeim gögnum, sem nefndarmönnum tókst að útvega sér eftir krókaleiðum úr fjármálaráðuneytinu, kemur fram að þegar á heildina er litið fer meiri hlutinn af þeirri upphæð, sem þessi lækkun skilar, til þeirra fjölskyldna sem meiri tekjur hafa auk þess sem milliliðir og skattsvik taka drjúgan toll. Í því áliti sem efnahags- og viðskiptanefnd barst frá ASÍ segir:
    „Samninganefnd ASÍ var þegar í vor ljóst að lækkun matarskattsins væri ekki sú markvissasta tekjujöfnunaraðgerð sem hægt væri að grípa til, hins vegar mætti meta slíka breytingu sem tiltölulega varanlega aðgerð.“
    Önnur samtök launafólks, svo sem BSRB og BHMR, hafa gagnrýnt lækkun virðisaukaskatts sem leið til kjarajöfnunar og benda á að við núverandi aðstæður séu aðrar leiðir betri og að þessi lækkun muni koma í bak launafólki á einn eða annan hátt sem reyndar má þegar sjá stað í öðrum skattahækkunum. Það er því ljóst að hér er verið að fara umdeilda leið sem samningsaðilum er ljóst að skilar láglaunafólki litlu.
    Þá er þess að geta að þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir nefndarmanna liggur ekkert mat fyrir á því hvað þessi breyting á skattkerfinu muni kosta ríkissjóð, m.a. í auknu eftirliti, kynningu o.fl., hvað þá fyrirtækin sem eiga að framkvæma þessa breytingu. Þar við bætist að kaupmenn telja fyrirvarann allt of skamman þar sem reglur liggi ekki fyrir og óljóst hvaða vörur lenda í hvoru þrepi.
    Í umræðunni um lækkun virðisaukaskatts á matvælum hefur mikið verið um það rætt hversu heppilegt sé að koma á tveggja þrepa virðisaukaskatti. Það er mál sem þarfnast miklu meiri umræðu, könnunar og úttektar, ekki síst í ljósi þeirrar reynslu sem aðrar þjóðir hafa af slíku og þess að víðast hvar er unnið að einföldun á virðisaukaskattskerfum þannig að þau verði ódýrari, skilvirkari og gefi minni kost á undanskotum. Það er því tillaga 2. minni hluta að komið verði á fót nefnd til að kanna hvernig best megi jafna kjör landsmanna í gegnum skattkerfið og að jafnframt verði skoðaðir kostir þess og gallar að koma á tveggja þrepa virðisaukaskattskerfi.
    Það er niðurstaða 2. minni hluta að með þeim breytingum á skattalögum, sem ríkisstjórnin leggur til, sé verið að vinna tjón á skattkerfinu, auka óréttlæti og leggja stein í götu fyrirtækja, m.a. í flugi og landflutningum, sem kunni að hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir landsmenn. Þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar hafnar 2. minni hlutinn og telur að hægt sé að bæta kjör landsmanna, ekki síst hinna lægst launuðu, með öðrum og hagkvæmari aðferðum en samið var um sl. vor og leggur því til viðamiklar breytingar á því frumvarpi til breytinga á skattalögum sem hér er fjallað um.

Eitt þrep eða tvö.
    Á undanförnum árum hafa farið fram athuganir á því hvort hagstætt er að taka upp tvö þrep í virðisaukaskatti. Allar þessar athuganir benda til þess að ekki náist fram þau tekjujöfnunaráhrif sem almennt er verið að sækjast eftir. Í nágrannalöndunum hafa farið fram ítarlegar úttektir á sama máli og allar skýrslur, sem fram hafa komið um það, benda til sömu niðurstöðu, að það sé óráðlegt að taka upp tvö þrep í virðisaukaskatti.
    Nýlega fór fram úttekt á málinu í Noregi sem leiddi til þess að hætt var við að taka upp tvö þrep og í stað þess var ákveðið að auka endurgreiðslur á fyrsta stigi. Eina landið, sem hefur ákveðið að ganga til baka í þessa átt, er Svíþjóð en þar er virðisaukaskattur 21% á matvælum en 24% á öðrum vörum. Þessi ákvörðun var tekin þrátt fyrir að allar athuganir bentu til þess að hægt væri að ná betri niðurstöðu á annan hátt.
    Fjármálaráðherra hefur upplýst að engin formleg skýrsla liggi til grundvallar þessari ákvörðun á Íslandi. Hann hefur neitað að afhenda nefndinni þau gögn sem liggja fyrir skrifuð í ráðuneytinu um málið. Með því sýnir fjármálaráðherra Alþingi vanvirðingu og telur rétt að gögn málsins séu ekki lögð á borðið þegar löggjafarþingið tekur ákvörðun. Þessum gögnum hefur hins vegar verið dreift til annarra aðila í þjóðfélaginu eins og forustumanna aðila vinnumarkaðarins og margra annarra. Formanni efnahags- og viðskiptanefndar hefur tekist að afla gagna um málið eftir krókaleiðum. Á lokastigi málsins varð breyting á og hefur á síðustu stundu tekist að fá skýrari mynd af því.
    Þetta gerist á sama tíma og ætlunin var að auka sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þar hefur engin breyting orðið á og ríkisstjórnin stýrir störfum með sama hætti og áður. Þótt augljóslega sé verið að framkvæma einhver verstu afglöp í skattamálum sem sögur fara af er ekkert tillit tekið til rökstuðnings og gagna um málið. Öll áhersla er lögð á að stinga sannleikanum undir stól, slökkva ljósin og hlaupa út í myrkrið. Svör meiri hluta Alþingis og ríkisstjórnarinnar er að samið hafi verið um málið við aðila vinnumarkaðarins en engin tilraun er gerð til að ná betri niðurstöðu. Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar því að það var hún sem bauð þessa leið og engin önnur raunhæf tilboð, sem eru aðgengileg fyrir verkalýðshreyfinguna, hafa verið sett fram.
    Meginatriði í breytingartillögum 2. minni hluta eru eftirfarandi:

Virðisaukaskattur.
    Tillögurnar gera ráð fyrir því að virðisaukaskattur verði lækkaður í 23% í stað þess að taka upp tvö skattþrep, 14 og 24 1 / 2 %. Samkvæmt útreikningum lækka meðalútgjöld fjölskyldunnar jafnmikið ef virðisaukaskattur er lækkaður úr 24 1 / 2 % í 23% og þegar tvö virðisaukaskattsþrep eru tekin upp. Meðalútgjöldin lækka því aðeins meira ef virðisaukaskattur fer í 23%. Mismunandi áhrif á neysluútgjöld eru vart merkjanleg eða um og innan við 0,05%. Lágtekjufólk fær mjög svipað úr tveggja þrepa kerfi og með lækkun virðisaukaskattsins í 23%. Annar minni hluti leggur áherslu á að virðisaukaskattur á landbúnaðinn og aðrar neysluvörur verði endurgreiddur þannig að greiðslur samsvari 14% skatti miðað við útsöluverð. Í því felst jöfnun en frekari jöfnun er mun betra að ná með öðrum leiðum. Tekjujöfnunin, sem felst í því að taka upp tvö þrep eftir að endurgreiðsla virðisaukaskatts á brýnustu nauðsynjar hefur verið ákveðin, er því nánast engin. Upptaka kerfisins mun kosta ríkissjóð 150–200 millj. kr. og áætlað hefur verið að skattundandráttur geti aukist verulega. Auk þess mun breytingin kosta atvinnulífið miklar fjárhæðir sem engin leið er að áætla með vissu. Annar minni hluti telur eðlilegt að áfram verði haldið við að kanna kosti og galla tveggja þrepa kerfis en telur að það sé algjörlega ótímabært að taka það upp nú um áramótin. Það verði verkefni nefndar samkvæmt ákvæði til bráðabirgða að kanna málið og skila niðurstöðu á miðju ári. Ef niðurstaðan verður jákvæð má breyta um í ársbyrjun 1995.
    Virðisaukaskattur á Íslandi er hærri en almennt gerist í nágrannalöndunum. Almenn lækkun hans mun því bæta samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar gagnvart erlendri. Auk þess mun lægra hlutfall skattsins auka skilvirkni hans og draga úr skattsvikum.

Tekjujöfnunaraðgerðir.
    Virðisaukaskattur er áhrifalítil leið til tekjujöfnunar. Persónuafsláttur, skatthlutfall, vaxtabætur og barnabætur eru auðveldasta leiðin til að færa fjármuni frá þeim sem betur mega sín til þeirra sem lægri tekjur hafa. Í þessum tillögum er gert ráð fyrir að hækka barnabótaauka um u.þ.b. 10 þús. kr. með hverju barni. Barnabótaaukinn skerðist síðan hjá þeim sem hærri tekjur hafa og eiga miklar eignir. Barnabótaaukinn mun því fyrst og fremst ganga til að bæta hag barnafólks með lægri tekjur og er útgjaldaaukinn um það bil 325 millj. kr.
    Samkvæmt núgildandi reglum byrja vaxtabætur að skerðast við 3 millj. kr. eign hjá einstaklingi og 5 millj. kr. eign hjá hjónum og falla niður þegar eignir eru annars vegar komnar í 4,8 millj. kr. hjá einstaklingi og 8 millj. kr. hjá hjónum. Þessi aukna skerðing mun sérstaklega koma illa við fólk í aldurshópnum 35–45 ára sem varð fyrir barðinu á verðtryggingunni á sínum tíma. Í tillögunum er gert ráð fyrir að draga úr þessari skerðingu þannig að vaxtabætur skerðist ekki að fullu fyrr en við 6 millj. kr. eign hjá einstaklingi og 10 millj. kr. hjá hjónum. Þessi breyting mun kosta um það bil 200 millj. kr. og gagnast fyrst og fremst fólki með lægri tekjur og eignir innan þeirra marka sem áður eru greindar.

Skattamál félaga.
    Í tillögum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að tekjuskattur félaga lækki úr 39% í 33%. Í breytingartillögum 2. minni hluta er gert ráð fyrir að tekjuskatturinn lækki í 35% sem mun bæta stöðu ríkissjóðs um 150 millj. kr. Einnig er gert ráð fyrir að hætt verði við 0,35% tryggingagjald af launum sem sparar atvinnurekstrinum 560 millj. kr.
    Í þeim samdrætti sem nú gengur yfir er fráleitt að auka launakostnað fyrirtækjanna um þessar fjárhæðir. Það mun stuðla að atvinnuleysi og draga úr möguleikum atvinnufyrirtækja til að bæta launakjör almennings.

Fólksflutningar og gisting.
    Í tillögunum er gert ráð fyrir því að afnema virðisaukaskatt af ferðaþjónustu og fólksflutningum en að þessar atvinnugreinar borgi tryggingagjald af launum með sama hætti og áður var. Með þessu er fallið frá upptöku virðisaukaskatts á þessar atvinnugreinar sem er ósanngjörn skattlagning og mun draga úr möguleikum ferðaþjónustunnar til að auka gjaldeyristekjur landsins. Skattur á fólksflutninga er sérstaklega ósanngjarn og mun bitna nær eingöngu á landsbyggðinni. Sá munur verður enn þá augljósari þegar ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að falla frá virðisaukaskatti á almenningsvagna á höfuðborgarsvæðinu að mestu leyti. Sú ákvörðun er rétt en eykur enn það ranglæti sem kemst á með þessum skatti. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að eingöngu landsbyggðin skuli borga þennan skatt sem er óþolandi og verður að leiðrétta. Það mun hefta ferðalög og gera fólki erfiðara að sækja nauðsynlega þjónustu.
    Þessi breyting minnkar tekjur ríkissjóðs umfram forsendur fjárlaga um 250 millj. kr.

Eignarskattar.
    Til þess að gera mögulegar þær tekjujöfnunaraðgerðir, sem tíundaðar hafa verið, er nauðsynlegt að gera breytingar á eignarskattsstofni. Fjármagnseignir eru nú undanþegnar eignarskatti en svo er ekki í nágrannalöndum okkar. Aðilar vinnumarkaðarins hafa krafist þess að tekinn verði upp skattur á fjármagnstekjur en það mál hefur ekki verið undirbúið svo hægt sé að taka hann upp um áramótin. Það er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að breikka eignarskattsstofninn þannig að fjármagnseignir falli inn í hann eins og aðrar eignir landsmanna. Allt annað er ósanngjarnt miðað við þann mikla arð sem hefur verið af slíkum eignum að undanförnu.
    Í forsendum þessa er ekki gert ráð fyrir að allar fjármagnseignir komi inn í eignarskattsstofn í fyrstu heldur aðeins helmingur af því sem ekki var talið fram við síðustu áramót. Jafnframt er gert ráð fyrir að hækka skattfrelsi eigna um 500 þús. kr. hjá einstaklingi en um 1 millj. kr. hjá hjónum þannig að lægri innstæður mynda ekki nýjan eignarskattsstofn. Jafnframt er í tillögunum gert ráð fyrir að hætta við efra eignarskattsþrepið eða svokallaðan „ekknaskatt“. Þetta þrep hefur valdið ýmsum vandamálum og er eðlilegt að fella það niður um leið og eignarskattsstofninn er breikkaður. Gert er ráð fyrir að þessar breytingar muni alls auka tekjur ríkissjóðs um 600 millj. kr.

Áhrif á stöðu ríkissjóðs og þjóðarbúsins.
    Tillögurnar styrkja stöðu ríkissjóðs. Samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar eru þær hagstæðari ríkissjóði sem nemur u.þ.b. 180 millj. kr. áður en breytingartillögur meiri hlutans hafa verið metnar. Áætlað hefur verið að kerfisbreytingin í virðisaukaskatti muni kosta ríkissjóð 150–200 millj. kr., auk þess muni innheimta versna um allt að 500 millj. kr. Hækkun tryggingagjaldsins og skattur á fólksflutninga og ferðaþjónustu mun draga úr umsvifum þjóðarbúsins og lækka tekjur ríkissjóðs. Ekki er gert ráð fyrir því að breikkun eignarskattsstofnsins muni skila sér að fullu í fyrstu en til frambúðar mun sú ákvörðun styrkja stöðu ríkissjóðs. Almenn lækkun virðisaukaskattsins mun bæta samkeppnisstöðu íslenskra atvinnuvega gagnvart erlendum, sérstaklega á það við um íslenska verslun. Tvö þrep í virðisaukaskatti koma til með að lækka sérstaklega vöruverð á innfluttum matvælum og þar með versnar samkeppnisstaða innlendrar matvælaframleiðslu.
    Skattlagning á ferðaþjónustu mun samkvæmt upplýsingum frá atvinnugreininni stórskaða samkeppnisstöðu hennar og eyðileggja markaðsstöðu. Fullyrða má að tillögurnar bæta stöðu ríkissjóðs, örva framleiðslustarfsemi og draga úr innflutningi.

Um einstakar breytingartillögur.
    Gerð er tillaga um að barnabótaauki verði hækkaður með því að gera breytingu á B-lið 69. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Með þessari breytingu verða ráðstöfunartekjur tekjulægri barnafjölskyldna auknar.
    Lagt er til að dregið verði úr skerðingu vaxtabóta vegna eigna en sú skerðing var aukin verulega samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar á síðasta ári.
    Með 9. gr. frumvarpsins eru lögleiddar nýjar reglur um vaxtabætur samkvæmt tillögum nefndar sem ríkisstjórnin skipaði um málið. Að mati 2. minni hluta þarf að yfirfara þetta mál betur en ákvæði greinarinnar á að taka gildi í ársbyrjun 1995. Nauðsynlegt er að taka meiri tíma í að skoða málið og yrðu vaxtabæturnar liður í heildarendurskoðun laganna í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins á næsta ári.
    Lagt er til að tekjuskattur lögaðila lækki úr 39% í 35%, en ekki í 33% til þess að skapa svigrúm fyrir þær aðgerðir sem 2. minni hluti leggur til.
    Lagt er til að 78. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, sem kveður á um eignarskattsfrelsi fjármagnseigna, verði felld niður.
    Samkvæmt a-lið er lagt til að skattfrjálsar eignir hjá einstaklingum hækki úr 3 millj. 500 þús. kr. í 4 millj. kr. og hjá hjónum úr 7 millj. kr. í 8 millj. kr. Þetta þýðir að ekki mun verða lagður eignarskattur á lægri innstæður og peningalegar eignir og jafnframt mun eignarskattur lækka hjá þeim sem eiga eingöngu húseignir, bíla og aðrar eignir. Jafnframt er lagt til að efra þrep eignarskattsins verði fellt niður en það þykir eðlilegt þegar stofninn er breikkaður.
    Gert er ráð fyrir að fólksflutningar innan lands og ferðaþjónusta verði skattfrjáls.
    Lagt er til að almennur virðisaukaskattur verði lækkaður úr 24 1 / 2 % í 23%.
    Lagt er til að áfram verði haldið á þeirri braut að greiða niður virðisaukaskatt af innlendri matvöru þannig að verð vörunnar verði eins og ef skatturinn væri 14%. Einnig er lagt til að núverandi kerfi verði breytt þannig að alltaf verði um endurgreiðslu að ræða á frumstigi.
    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða falli niður þar sem þau lúta að upptöku tveggja þrepa virðisaukaskatts.
    Þá er lagt er til að fallið verði frá að leggja sérstakt 0,35% tryggingagjald á atvinnulífið í því skyni að minnka atvinnuleysi og örva atvinnustarfsemina þannig að hægt sé að bæta kjör launþega.
    Loks er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem gert er ráð fyrir að skipuð verði nefnd þingflokka á Alþingi, aðila vinnumarkaðarins og fjármálaráðherra. Verkefni nefndarinnar verði að kanna kosti og galla tveggja þrepa virðisaukaskatts og yfirfara reglur um vaxtabætur, persónuafslátt og barnabætur. Jafnframt yrði verkefni nefndarinnar að fara yfir tillögur um skatt á fjármagnstekjur og eignarskatt af fjármagnseignum.
    Þær breytingar, sem nú er verið að gera, hafa ekki verið undirbúnar nægilega vel og eru nær óframkvæmanlegar um áramótin. Nauðsynlegt er að hafa mun betri tíma til skattkerfisbreytinga og skapa sem mestan frið um málið.

Alþingi, 15. des. 1993.



Halldór Ásgrímsson,

Kristín Ástgeirsdóttir.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.


form., frsm.







Fylgiskjal I.


Fjármálaráðuneytið,
efnahagsskrifstofa:



Áætlaðar verðbreytingar vegna lækkunar VSK á matvælum o.fl.


(7. desember 1993. — Vinnuskjal.)



    Samkvæmt skattafrumvarpinu, sem nú liggur fyrir Alþingi, verður virðisaukaskattur á matvælum lækkaður úr 24,5% í 14% frá og með næstu áramótum. Jafnframt verða nokkrar breytingar á vörugjöldum (sælgæti, gosdrykkir, snakk o.fl.). Heildaráhrif þessara breytinga eru metin um 0,8% til lækkunar á framfærsluvísitölu. Í eftirfarandi töflu er stillt upp dæmum um áætlaðar verðbreytingar einstakra vöruflokka miðað við þá forsendu að þessar breytingar skili sér að fullu í verði. Rétt er að leggja áherslu á að hér er horft á áhrif lækkunar virðisaukaskatts o.fl. í einangrun og gengið út frá því að lækkunin komi að fullu fram. Hins vegar þarf að hafa í huga að um og upp úr áramótum ganga gjarnan til baka ýmis hefðbundin jólatilboð á mat- og drykkjarvörum sem geta skekkt þessa mynd.

Dæmi um áætlaðar verðbreytingar.



Verðáhrif


1994 (%)



Mjöl og korn, morgunkorn     
–8,4

Brauð og ósætt kex     
–8,4

Kökur, sætt kex     
–7,5

Snakk, poppkorn o.fl.     
–3,0

Kjöt, nýtt eða frosið     
0,0

Kjöt, saltað, reykt, hakkað     
–2,5

Unnar kjötvörur     
–4,0

Nýr fiskur (ýsa, lúða, saltfiskur) 1)
    
5,0

Lax, rækjur, harðfiskur o.fl.     
–8,4

Mjólk, rjómi, ostar og egg     
0,0

Smjör, smjörlíki, matarolía     
–8,4

Ávextir og grænmeti, nýtt, þurrkað, niðursoðið 2)
    
–8,4

Ávaxtasafar     
–5,0

Ávaxtagrautar, sultur     
–3,0

Kartöflur 2)
    
–8,4

Sykur     
–4,0

Kaffi, te     
–3,0

Sælgæti     
–5,0

Ís
     –3,0
Krydd, sósur o.fl.     
–8,4

Gosdrykkir     
–5,0


1)     Sérstakar niðurgreiðslur á fiski verða lækkaðar í þremur áföngum á næsta ári, en hér eru tilgreind áætluð heildaráhrif af breytingunni.
2)     Rétt er að benda á að innlent grænmeti (gulrófur, tómatar, gúrkur o.fl.) og kartöflur hafa borið ígildi 14% VSK vegna endurgreiðslna á heildsölustigi. Hér er hins vegar miðað við að um innflutning sé að ræða.

    Eins og fram kemur í töflunni verður lítil eða engin breyting á nokkrum vörutegundum þrátt fyrir lækkun virðisaukaskatts. Skýringin er sú að þær bera nú þegar ígildi 14% virðisaukaskatts (nýtt kjöt, mjólkurvörur, egg, fiskur, innlent grænmeti) því að hluti hans er endurgreiddur á heildsölustigi. Nýmjólk, dilkakjöt í heilum og hálfum skrokkum, fiskur og innlent grænmeti hafa borið 14% skatt frá upphafi en það vörusvið var síðan víkkað í tengslum við gerð kjarasamninga síðastliðið vor í því skyni að flýta fyrir áhrifum breytinganna á innlendar matvörur. Endurgreiðslur virðisaukaskatts af fiski hafa raunar verið enn meiri þannig að sú vara hefur nánast verið skattfrjáls. Dregið verður úr þessum viðbótarniðurgreiðslum í áföngum á næsta ári sem leitt gæti til um það bil 5% hækkunar á fiskverði.



Fylgiskjal II.


Þjóðhagsstofnun:

Tillögur formanns efnahags- og viðskiptanefndar


í skattamálum: Lauslegt mat á áhrifum.


(17. desember 1993.)



    Þjóðhagsstofnun hefur að beiðni formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis metið lauslega áhrif tillagna hans á afkomu ríkissjóðs, verðlag og fleiri hagstærðir.
    Umræddum tillögum er lýst í töflu sem fylgir og þar kemur einnig fram mat á áhrifum þeirra á afkomu ríkissjóðs. Samtals eru tillögurnar taldar skila ríkissjóði um 150 millj. kr.
    Samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun fjárlaga er gert ráð fyrir því að heildartekjur ríkissjóðs á árinu 1994 verði 104.203 millj. kr. Tillögur formanns efnahags- og viðskiptanefndar kæmu þannig fram í fjárlögum að tekjuhlið þeirra lækkaði um 150 millj. kr., yrði 104.053 millj. kr., en útgjaldahliðin lækkaði um 300 millj. kr.
    Þetta skýrist af því að lækkun hins almenna skatthlutfalls virðisaukaskatts hefur bæði áhrif á tekju- og gjaldahlið fjárlaga þar sem ríkissjóður greiðir virðisaukaskatt vegna kaupa á margs konar vörum og þjónustu. Þjóðhagsstofnun telur að lækkun skatthlutfallsins úr 24,5% í 23% minnki útgjöld ríkissjóðs um nálægt því 300 millj. kr. Þá er ekki talinn með sparnaður sveitarfélaga.
    Lækkun VSK á matvæli og lækkun almenna skatthlutfallsins er talin skila svipuðum áhrifum á verðlag, lækka framfærsluvísitöluna um nálægt því 0,9%. Við bætist samkvæmt tillögum að hætt er við álagningu sérstaks tryggingagjalds, fólksflutningar og gisting eru áfram undanþegin virðisaukaskatti og vörugjöld breytast nokkuð. Þetta leiðir til þess að vísitala framfærslukostnaðar lækkar um fimmtung úr prósenti eða svo (sjá töflu).
    Umræddar tillögur hafa með ýmsum hætti áhrif á kaupmátt. Þannig hefur minni verðbólga í för með sér aukinn kaupmátt og í sömu átt ganga að sjálfsögðu hækkanir bóta. Á móti vegur hins vegar að skattar á eignir eru hækkaðir. Í tillögunum felast því tilfærslur í skattlagningu á þá leið að kaupmáttur launa og hvers konar bóta eykst nokkuð en ráðstöfunarfé eignamanna minnkar. Þegar á heildina er litið eru hins vegar áhrifin á kaupmátt ráðstöfunartekna ekki veruleg.
    Þessar breytingar eru í sjálfu sér ekki stórvægilegar í þjóðhagslegu samhengi þótt þær hniki til ýmsum hagstærðum. Í þessu sambandi er þó nauðsynlegt að benda á að erfitt er að meta ýmis atriði breytinga af þessu tagi. Engu að síður geta þetta verið atriði sem skipta miklu máli en eru einfaldlega þess eðlis að tölulegu mati verður vart við komið. Hér er sérstaklega bent á að lækkun virðisaukaskatts á matvæli veikir virðisaukaskattskerfið þar sem innheimta og eftirlit verður erfiðara. Engin tilraun er gerð hér til að meta þennan þátt.


Um áhrif tillagna formanns efnahags- og


viðskiptanefndar í skattamálum.


(17. desember 1993.)




Afkoma ríkissjóðs

Millj. kr.



1. VSK lækkaður úr 24,5% í 23% og jafnframt hætt við áform um lækkun VSK á matvæli     
600

2. Vaxtabætur hækkaðar     
–200

3. Barnabótaauki hækkaður     
–350

4. Tekjuskattur félaga hækkaður frá áformum í fjárlagafrumvarpi úr 33% í 35%     
150

5. Hætt við áform um sérstakt 0,35% tryggingagjald     
–560

6. Fólksflutningar og gisting verði undanþegin VSK en greiði áfram tryggingagjald     
–250

7. Eignarskattsstofn breikkaður     
600

8. Hætt við lækkun vörugjalds á nokkrar tegundir sem tengd var lækkun VSK á matvæli     
160

Samtals     
150



Verðlagsáhrif

Lækkun VSK á matvæli     
–0,9

Lækkun VSK í 23%     
–0,9

Hætt við áform um sérstakt 0,35% tryggingagjald     
–0,15

Fólksflutningar, gisting og fleira     
–0,05



Um áhrif breytinga í skattamálum á afkomu ríkissjóðs,


verðlag og tekjudreifingu.


(15. desember 1993. — Vinnuskjal.)



1. Afkoma ríkissjóðs.

Hugmyndir og útreikningar

Lauslegt mat


samkvæmt HÁ

Þjóðhagsstofnunar



Hætt við lækkun VSK á matvæli     
3.200

Sérstakar niðurgreiðslur matvara haldi áfram 1994     
–600
2.600 Svipað
Lækkun VSK í 23%     
–2.500

Niðurgreiðslur og endurgreiðslur lækka     
200
–2.300 –2.000
Vaxtabætur     
–200 Sama
Barnabótaauki     
–350 –325
Tekjuskattur félaga (hækkar úr 33% í 35%)     
150 Sama
Tryggingagjald (0,35% gjald fellur niður)     
–560 Sama
Fólksflutningar og gisting, VSK     
–500
Sama
Fólksflutningar og gisting, trygging     
250
Sama
Eignarskattar     
800 600
Vörugjöld nettó     
165 Sama
Samtals     
55



2. Verðlagsáhrif.

Lækkun VSK á matvæli     
–0,9
Lækkun VSK í 23%     
–0,9
Hætt við lækkun tryggingagjalds     
–0,15
Fólksflutningar og gisting     
–0,05 –0,1


3. Tekjujöfnunaráhrif/afkomujöfnunaráhrif.
    Tekju- eða afkomujöfnunaráhrif af verðlækkun einstakra vöruflokka eru afar vandmetin og í reynd eru slíkar leiðir til jöfnunar mjög umdeilanlegar. Hér á eftir er sýnt hlutfallslegt vægi matvæla í útgjöldum og tekjum heimila eftir tekjubilum.

Hlutfall af



Tekjur í milljónum króna

útgjöldum

tekjum



Undir 1      20
,4

1–2           20
,9
24 ,9
2–3           19
,8
19 ,6
3–4           21
,2
15 ,8
Yfir 4      16
,9


    Af þessu og því talnaefni sem fylgir hér með má sjá að draga má í efa skilvirkni þess að lækka óbeina skatta á einstakar vörutegundir í tekjujöfnunarskyni.



(Töflur 6 síður.)






Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneytið:

LÆKKUN VSK ÚR 24,5% Í 23%


ENDURGREIÐSLUR Á INNLEND MATVÆLI ÓBREYTTAR SEM SAMSVARAR 14% VSK



Neysla eftir tekjum — allar fjölskyldur.





(Töflur 5 síður.)




TVÖ STIG Í VSK, 14% OG 24,5% — LÆKKUN VSK



Neysla eftir tekjum — allar fjölskyldur.



(Töflur 7 síður.)

Indriði H. Þorláksson:


ÚR SKÝRSLU UM ÁHRIF BREYTINGA Á VSK AF MATVÆLUM



Hlutföll af neysluútgjöldum. Samanburður hlutfalla.



Lækkun


Lækkun

Lækkun

Mis-

án bifreiða-


Tekjur á ári (1990).

VSK alm.

VSK á mat

munur

útgjalda



Allt að 1.000.000     
0,77
0,82 0,05 0,73
1.000.000–1.999.999     
0,84
0,89 0,05 0,77
2.000.000–2.999.999     
0,84
0,81 –0,03 0,77
3.000.000–3.999.999     
0,77
0,86 0,09 0,70
4.000.000 og yfir     
0,84
0,70 –0,14 0,75
Allir          
0,82
0,82 0,00 0,75

    Tölur þessar sýna að nær enginn munur er á því með tilliti til lægri tekna hvort lækkað er hið almenna hlutfall virðisaukaskatts eða virðisaukaskattur á matvæli. Mismunandi áhrif á neysluútgjöld eru um og innan við 0,05% sem er varla marktækur munur. Í tveimur tekjuhæstu flokkunum er munurinn nokkuð meiri en sinn í hvora áttina. Við nánari skoðun á gagnagrunninum kom í ljós að kostnaður við eigin ökutæki er nokkuð afbrigðilegur í þessum tekjuhópum í úrtakinu. Skýrir hann að mestu þau sérstöku frávik sem fram komu og er því í aftasta dálki töflunnar sýnd lækkun útgjalda við almenna lækkun virðisaukaskatts að frádreginni lækkun kostnaðar við eigin bifreið af þeim sökum. Sýnir sig þá að nánast enginn munur er á áhrifum af lækkun almenna virðisaukaskattshlutfallsins á neysluútgjöld eftir tekjuhópum og er niðurstaðan í stórum dráttum hin sama og af lækkun virðisaukaskatts á matvæli.
    Sé litið svo á að sá munur sem mælist sé raunverulegur er hann svo óverulegur að hann getur hvergi réttlætt það að taka upp tveggja þrepa kerfi. Samkvæmt framangreindri mælingu væri hann um eða innan við 1.000 krónur á ári á fjölskyldu í lægri helmingi tekjuskalans. Árleg heildarupphæð þessa hjá öllum fjölskyldum í lægri helmingi tekjuskalans yrði innan við 40 millj. kr. á ári. Sú fjárhæð er um fjórðungur þess sem það kostar að lágmarki aukalega að reka og hafa eftirlit með tveggja þrepa kerfi og aðeins brot af því sem fullljóst er að tapast mun vegna aukinna skattundanskota. Þessi fjárhæð er u.þ.b. 1% þeirrar fjárhæðar sem varið er í barnabætur.