Ferill 251. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 251 . mál.


411. Nefndarálit



um frv. til l. um breytingar í skattamálum.

Frá 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Minni hlutinn vill í upphafi átelja þau vinnubrögð sem núverandi ríkisstjórn hefur nánast gert að reglu og felast í því að leggja flest mál fyrir þingið í formi bandorma þar sem ægir saman ákvæðum úr mörgum mismunandi lögum. Þetta frumvarp er þar engin undantekning því þar er vafið saman í einn gorm ákvæðum til breytinga á eftirtöldum lögum:
—    lögum um tekjuskatt og eignarskatt,
—    lögum um virðisaukaskatt,
—    lögum um tryggingagjald,
—    lögum um bifreiðagjald,
—    lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
—    tollalögum,
—    lögum um vörugjald.
    Engin haldbær skýring hefur verið gefin á þessum vinnubrögðum og má því ljóst vera að ef slíkur sóðaskapur við framlagningu mála líðst óátalinn og festist í sessi þegar ekkert sérstakt kallar á að menn stytti sér leið er illa farið.
    Efni frumvarps þessa og ýmsar aðrar breytingar, sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir í skattamálum, endurspeglar ótrúlegar þverstæður í málflutningi og framgöngu.
    Stjórnarflokkarnir lofuðu eins og kunnugt er skattalækkunum fyrir síðustu kosningar. Útkoman er skattahækkun í heild en þó fyrst og fremst gífurleg tilfærsla skattbyrði yfir á launafólk. Nemur þessi tilfærsla og auknu álögur á almenning samtals a.m.k. 5–6 þús. millj. kr.
    Ýmis svið sem áður var skilningur á að hlífa við skattlagningu, svo sem menningu og almenningssamgöngum, eru nú eða verða skattlögð. Á sama tíma er því svo enn drepið á dreif að skattleggja fjármagnstekjur og hin eiginlegu gróðaöfl.

Annáll skattkerfisbreytinga og kostnaðarhækkana


í tíð ríkisstjórnar Davíð Oddssonar.


    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 30. apríl 1991 segir m.a. að stjórnin ætli að „bæta lífskjör, m.a. með aðgerðum í skatta- og félagsmálum sem koma hinum tekjulægstu og barnafjölskyldum að gagni“.
    Fátt er fjær sanni. Ef litið er lauslega yfir það sem gerst hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar í skatta- og ríkisfjármálum, þar með talið gjaldtöku ýmiss konar, kemur eftirfarandi í ljós:
    Barnabætur hafa verið lækkaðar um nálægt 600 millj. kr.
    Sjómannafrádráttur hefur verið lækkaður.
    Endurgreiðsla tannlæknakostnaðar barnafjölskyldna hefur verið lækkuð.
    Ýmiss konar gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu, komugjöld, gjöld fyrir sérfræðiþjónustu o.fl. hafa verið lögð á.
    Þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði hefur verið stóraukin.
    Skólagjöld hafa verið lögð á.
    Vextir hafa verið settir á námslán og þau skert verulega.
    Tekjuskattar einstaklinga hafa verið hækkaðir um 1,5%, almennt hlutfall, og 5% lögð í viðbót á tekjur yfir 200 þús. kr. á mánuði.
    Persónufrádráttur hefur verið skertur og ekki verið framreiknaður að fullu miðað við verðlagsþróun. Skattfrelsismörk hafa þannig lækkað verulega í tíð þessarar ríkisstjórnar, eða um 5–6 þús. kr. á mánuði. Þau voru framreiknuð nálægt 63 þús. kr. fyrri hluta árs 1991 en stefna nú niður í um 57 þús. kr.
    Tekjuskattur fyrirtækja hefur verið lækkaður úr 45% í 39% á þessu ári.
    Aðstöðugjald fyrirtækja hrefur verið fellt niður.
    Bifreiðagjöld, bensíngjald og þungaskattar hafa verið hækkuð verulega.
    Virðisaukaskattur upp á 14% hefur verið lagður á húshitun, afnotagjöld, bækur, blöð og tímarit.
    Þessu til viðbótar má nefna að kostnaði vegna launagreiðslna við gjaldþrot fyrirtækja var velt yfir á atvinnulífið með stofnun ábyrgðarsjóðs launa og sveitarfélögin voru einhliða skylduð til að greiða 600 millj. kr. í ríkissjóð, fyrst sem svokallaðan lögguskatt, en nú í formi framlags til Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Það sem fram undan er nú um áramótin er svo enn frekari hækkun tekjuskatts einstaklinga en um leið og 1,5 prósentustig flytjast úr tekjuskatti yfir í útsvar til að mæta tekjutapi sveitarfélaganna vegna niðurfellingar aðstöðugjalds á að hækka almenna tekjuskattsprósentu um 0,35% og reyndar einnig að lyfta útsvarsþakinu um 0,2% í viðbót. Samanlögð skattprósenta einstaklinga á næsta ári getur því orðið hvorki meira né minna en 41,9%, en var 39,85% þegar stjórnin tók við.
    Um síðustu áramót var ákveðið að skerða vaxtabætur um 400 millj. kr. og mun það nú koma til framkvæmda á árinu 1994. Í 9. gr. frumvarpsins eru lagðar til nokkrar breytingar á framkvæmd þessarar skerðingar en skammur tími hefur gefist til að skoða áhrif þeirra og þar sem þær eiga ekki að gilda fyrr en á árinu 1995 styður 3. minni hluti að þeim verði frestað og þær skoðaðar betur. Alþýðubandalagið er algerlega andvígt skerðingu vaxtabóta og telur hana hrein svik við fólk sem treyst hefur á óbreyttan stuðning frá hinu opinbera við húsnæðisskuldbindingar.
    Þá kemur til framkvæmda nú um áramótin 14% virðisaukaskattur á ferðaþjónustu, þar með talið á almenningssamgöngur. Bifreiðagjöld hækka enn frekar, tryggingagjald um 0,31% o.fl.
    Í fjárlagafrumvarpinu og í bandormi sem inniheldur ýmsar svokallaðar ráðstafanir í ríkisfjármálum er og að finna ýmsar íþyngjandi ráðstafanir, svo sem sérstakan skatt á áfengissjúklinga, frekari skólagjöld o.fl.

Almennt um afstöðu til frumvarpsins.


    Hér eru ekki efni til að fara ítarlega út í einstaka liði í skatta- og ríkisfjármálabandormum stjórnarinnar og því látið duga að gera grein fyrir afstöðu 3. minni hluta til aðalatriðanna.
    Það hefur verið afstaða Alþýðubandalagsins að rétt væri að beita lægri eða engri skattlagningu á matvæli og brýnar lífsnauðsynjar sem tæki til tekjujöfnunar ásamt með sérstöku skattþrepi á hærri tekjur og fleiri slíkum tekjujafnandi aðgerðum. Alþýðubandalagið hefur gegnum tíðina beitt sér fyrir lífskjarajöfnun, m.a. með slíkum ráðstöfunum og má í því sambandi minna á að árið 1978 í stjórnartíð Alþýðubandalagsins var söluskattur felldur niður af matvælum. Árið 1987 barðist Alþýðubandalagið hart gegn upptöku matarskattsins og beitti sér svo fyrir því í stjórnartíð sinni á árunum 1988–1991 að niðurgreiðslur á helstu matvörur voru auknar svo að það jafngilti lægra skattþrepi. Alþýðubandalagið mun því styðja nú þá grundvallarákvörðun að matarskatturinn verði lækkaður í 14%, en ábyrgð af undirbúningi og framkvæmd er að sjálfsögðu ríkisstjórnarinnar sem bauð þetta fram í tengslum við kjarasamninga. 3. minni hluta er vel ljóst að ýmsar aðrar aðferðir, svo sem beinar tilfærslur, geta skilað sambærilegum eða jafnvel meiri tekjujöfnunaráhrifum til afmarkaðra hópa en breytingu af þessu tagi má ekki skoða einangrað og einnig vakna spurningar um varanleika aðgerða af því tagi að hækka barnabætur og því um líkt. Síst er núverandi ríkisstjórn treystandi í þessum efnum eins og dæmin sanna. Með þeim breytingartillögum, sem 3. minni hluti leggur til samhliða lægra skattþrepi í virðisaukaskatti fyrir matvæli, þ.e. að hækka jafnframt persónufrádrátt og um leið hátekjuskattþrepið um 3 prósentustig, mun breytingin í heild fyrst og fremst ívilna stærri og tekjulægri fjölskyldunum. Mat á öllum slíkum aðgerðum er vandasamt og upplýsingar sumpart ónógar eða gamlar, sbr. það að byggt er á neyslukönnun frá 1990 en síðan hafa orðið miklar breytingar og kaupmáttur ráðstöfunartekna fallið verulega. Það er því ekkert óeðlilegt að mismunandi skoðanir komi fram gagnvart aðgerðum af þessu tagi eins og glöggt endurspeglast í umsögnum samtaka launafólks. BSRB og BHM hafa talsvert annað mat á því hvaða leiðir séu vænlegastar og vísast í það til umsagna þeirra sem birtar eru sem fylgiskjöl ásamt gögnum frá ASÍ.
    Alþýðubandalagið er andvígt upptöku virðisaukaskatts á ferðaþjónustu og þá ekki síst á almenningssamgöngur og leggur til að frá því verði horfið. Ljóst er að ferðaþjónustan er einn álitlegasti vaxtarbroddurinn í íslensku atvinnulífi og hefur á undanförnum árum skilað stórauknum gjaldeyristekjum og skapað ný störf svo hundruðum skiptir. Talið er að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu hafi aukist um 2.500 millj. kr. á síðasta ári og beinar tekjur ríkisins um a.m.k. 500 millj. kr. Lítil efnahagsleg skynsemi er í því að kaffæra slíkan atvinnuveg með aukinni skattlagningu. Upptaka virðisaukaskatts á almenningssamgöngur, t.d. rekstur almenningsvagna hér á höfuðborgarsvæðinu, er í reynd fráleit aðgerð, hvort sem litið er til félagslegra eða þjóðhagslegra raka, umhverfissjónarmiða eða umferðaröryggis en allt mælir í reynd með að hvetja til uppbyggingar og reksturs vel skipulagðra almenningsvagnasamgangna á helstu þéttbýlissvæðum. Skattlagning fargjalda í innanlandsflugi er enn fráleitari og ranglátari aðgerð ef eitthvað er. Skatturinn bitnar langþyngst á íbúum afskekktustu byggarlaganna og bitnar þyngst á landsbyggðinni í heild og möguleikum hennar til almennra samskipta í þjóðfélaginu. Við lokaumfjöllun málsins í nefndinni hefur svo komið í ljós að stjórnarmeirihlutinn hefur ákveðið að falla frá þessari skattlagningu að hluta til hvað rekstur almenningsvagna á vegum sveitarfélaga snertir. Þetta verði gert með endurgreiðslu þess hluta virðisaukaskattsins sem leggst á rekstrarframlög sveitarfélaganna. Þetta er að sjálfsögðu fagnaðarefni, sbr. ofansagt, en furðu vekur að haldið skuli til streitu að fullu skattlagningu á aðrar almenningssamgöngur, þar með talið innanlandsflugið. Í þessari niðurstöðu birtist enn þá landsbyggðarfjandsamlegra viðhorf en áður og er þá langt til jafnað. Upplýsingar um áhrifin á fargjöld í innanlandsflugi eru birtar í fylgiskjölum.

Breytingartillögur.


    Fulltrúi Alþýðubandalagsins í efnahags- og viðskiptanefnd mun flytja sérstakar breytingartillögur auk þess sem Alþýðubandalagið mun styðja sumar af breytingartillögum 1. minni hluta.
    Lagðar eru til eftirfarandi breytingar:
    Lagt er til að persónufrádráttur hækki um 400 kr. á mánuði eða 4.800 kr. á ári og verði 287.064 kr. miðað við skattvísitölu gildandi tekjuskattslaga eða nálægt 292.000 kr. fyrir tekjuárið 1994. Það þýðir að skattfrelsismörkin komast yfir 58.000 kr. á mánuði í stað þeirra 57.000 kr. sem stefnir í að óbreyttu. Kostnaður ríkissjóðs af þessum breytingum er nálægt 680 millj. kr. á ári.
    Þá er lagt til að tekjuskattur fyrirtækja haldist óbreyttur á árinu 1994 vegna tekna ársins 1993, þ.e. 39% í stað þess að lækka í 33% eins og ríkisstjórnin áformar. Þessi breyting gefur ríkissjóði um 300 millj. kr. í tekjur.
    Þá er lagt til að fallið verði frá því að leggja virðisaukaskatt á fólksflutninga innan lands og á þjónustu ferðaskrifstofa. Þessar breytingar kosta ríkissjóð um 250 millj. kr. Alþýðubandalagið er andvígt upptöku virðisaukaskatts á ferðaþjónustu og greiddi atkvæði gegn málinu á síðasta þingi. Þriðji minni hluti mun styðja breytingartillögu um að fella niður virðisaukaskatt af ferðaþjónustu í heild en flytur til vara þessa tillögu um fólksflutninga nái það ekki fram að ganga.
    Lagt er til að horfið verði að nýju frá því að leggja virðisaukaskatt á íslenskar bækur, bókaskatt. Þessi breyting kostar ríkissjóð um 300 millj. kr.
    Í 5. tölul. breytingartillagnanna eru sömu efnisatriði á ferð og í 3. og 4. tölul., þ.e. verið er að undanskilja fólksflutninga, þjónustu ferðaskrifstofa og sölu íslenskra bóka ákvæðum 14. gr. laganna um virðisaukaskatt.
    Hér er lagt til að gildistaka lægra skattþreps á matvæli verði 1. mars næstkomandi en ekki 1. janúar eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Ljóst virðist að ríkisstjórnin hafi alls ekki sinnt undirbúningi málsins sem skyldi og jafnframt hafa komið fram efasemdir frá kaupmönnum um að hægt verði að láta breytingarnar taka gildi strax 1. janúar nk. Frestun á gildistöku lækkunarinnar um tvo mánuði, eða eitt uppgjörstímabil virðisaukaskatts, sparar um 500 millj. kr. en á móti koma útgjöld vegna niðurgreiðslna, sbr. næsta lið.
    Í samræmi við frestun á gildistöku lægra skattþreps á matvæli til 1. mars er lagt til að við 32. gr. bætist ákvæði til bráðabirgða um auknar niðurgreiðslur, sambærilegar við þær sem verið hafa við lýði á þessu ári þar til lækkunin kemur til framkvæmda. Kostnaður vegna þessa fyrir ríkissjóð er um 100 millj. kr.
    Lagt er til að sérstakt hátekjuskattþrep, sem lagt er á tekjur einstaklinga yfir 200 þús. kr. og hjóna yfir 400 þús. kr. á mánuði, sbr. lög nr. 111/1992, verði hækkað um 3 prósentustig, þ.e. úr 5% í 8%. Þetta gefur ríkissjóði tekjur upp á u.þ.b. 250 millj. kr.
    Tekjuöflun samkvæmt þessum tillögum er 1.050 millj. kr. en útgjöldin eru nokkru meiri eða um 1.330 millj. kr. Munar þar mest um hækkun persónufrádráttarins.
    Það skal að lokum undirstrikað að hér er einungis verið að gera tilraun til að lagfæra nokkra verstu ágallana sem birtast í þessu skattafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Alþýðubandalagið er þeirrar skoðunar að gagnger endurskoðun í skattamálum sé orðin mjög brýn eins og ríkisstjórnin hefur haldið á þeim málum. Þar ber hæst að útfæra og koma á raunverulegum fjármagnstekjuskatti, leggja þarf á hátekjuskatt sem að hluta til yrði svo notaður til að hækka skattfrelsismörk og þannig auka tekjujöfnun í skattkerfinu.
    Endurskoða þarf skattlagningu fyrirtækja og finna sanngjarnar skattaviðmiðanir sem séu í samræmi við raunverulega afkomu fyrirtækjanna og komi að hluta í stað aðstöðugjaldsins.
    Efnahags- og ríkisfjármálastefna stjórnar Davíðs Oddssonar hefur beðið algert skipbrot. Samdráttur í efnahagsstarfseminni og atvinnulífinu, niðurskurður, svimandi háir vextir ásamt afskiptaleysi og uppgjöf stjórnvalda hafa valdið víxlverkun sem m.a. kemur fram í minnkandi tekjum ríkissjóðs. Við þessu hefur ríkisstjórnin brugðist með því að stórauka álögur á almenning en ýta svo vandanum á undan sér að öðru leyti.
    Þriðji minni hluti átelur þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin hefur tamið sér í skattamálum, hafnar þeirri einhliða skattpíningu almennings sem hefur verið leiðarljós hennar og lýsir frekari ábyrgð af afleiðingum á hendur stjórninni.
    Sem fylgiskjöl með nefndaráliti þessu eru birt ýmis gögn um áhrif af upptöku virðisaukaskatts á ferðaþjónustu, umsagnir stéttarfélaga o.fl.

Alþingi, 14. des. 1993.



Steingrímur J. Sigfússon.







Fylgiskjal I.


Vinnan, tímarit Alþýðusambands Íslands,
aukaútgáfa, 9. tbl., 11. nóv. 1993, 43. árg.:


Lækkun matarskatts — kjarabót hinna tekjulægstu.


    Verð á matvælum lækkar samtals um 5,5% vegna kjarasamninganna sl. vor. Hluti af þessari lækkun er þegar kominn fram með niðurgreiðslum á tilteknum kjöt- og mjólkurvörum frá 1. júní sl. Um næstu áramót verður virðisaukaskattur af matvælum formlega lækkaður úr 24,5% í 14% og í kjölfar þess munu matvæli og drykkjarvörur lækka um 4,5% að meðaltali. Framfærsluvísitalan mun því lækka um 0,8–0,9% í janúar og febrúar nk. Lækkun framfærsluvísitölunnar er kjarni málsins í þessum kjarasamningum, það að lækka framfærslukostnað heimilanna. Til þess að meta þá kjarabót, sem felst í þessari aðgerð, verður að líta til þess hversu miklum hluta teknanna er varið til kaupa á matvælum.
    Yfirlit hér á eftir sýnir áhrif lækkunar matarskattsins á hag barnafjölskyldna. Tekið er mið af hag tekjulægstu fjölskyldnanna (bæði undir og yfir skattleysismörkum), fjölskyldna með meðaltekjur og fjölskyldna með háar tekjur. Þar kemur fram að heildaráhrif lækkunar matarskattsins eru 2,3–2,5% hjá tekjulægri fjölskyldunum, eða um 3.000 kr. á mánuði, 1,8% hjá fjölskyldum með meðaltekjur og 1,2% hjá þeim tekjuhæstu. Eins og fram hefur komið hefur hluti af þessari lækkun þegar komið fram með auknum niðurgreiðslum frá 1. júní sl. Nú liggur fyrir hvernig ríkisstjórnin áætlar að fjármagna tekjutap vegna þessarar aðgerðar og því er hægt að meta heildaráhrifin á kjör þessara fjölskyldna.
    Í töflunni hér á eftir er tillit tekið til hækkunar tekjuskatts um 0,35% um næstu áramót, en verðlagsáhrif af hækkun bifreiðagjalds og tryggingagjalds atvinnurekenda eru tekin með í endurskoðaðri verðbólguspá fyrir næsta ár. Samkvæmt þessu mun staða lágtekjufjölskyldna batna um 1,7–2,2% um næstu áramót, eða um 2.200–2.600 kr. á mánuði, eftir því hvort þær eru undir eða yfir skattleysismörkum. Þegar tillit hefur verið tekið til þess að verðbólga frá upphafi til loka næsta árs er áætluð 0,8% verða endanleg áhrif 0,9–1,4% eða á bilinu 1.200–1.700 kr. á mánuði. Kaupmáttur fjölskyldna með meðaltekjur mun aukast um 1,1% (2.200 kr.) um áramótin en 0,4% (700 kr.) að teknu tilliti til verðbólgunnar. Hjá hátekjufólki mun hagurinn batna um 0,5% um áramótin (1.300 kr.) en í árslok næsta árs verður kaupmáttur 0,3% lakari (þ.e. lækkar um 800 kr.) vegna verðbólgunnar.

ÁHRIF LÆKKUNAR MATARSKATTS Á BARNAFJÖLSKYLDUR

Viðmiðunartölur

Lágtekjur

Meðaltekjur
Hátekjur
Fjölskyldutekjur á mánuði 100.000 120.000 250.000 403.000
 – tekjuskattur 0 -4.000 -56.000 -120.000
 + barnabætur 17.000 17.000 5.000 5.000
Ráðstöfunartekjur 117.000 133.000 199.000 288.000
Heildaráhrif lækkunar VSK:
Lækkun útgjalda vegna matarkaupa 2.900 3.000 3.500 3.500
Áhrif VSK á ráðstöfunartekjur, alls 2,5% 2,3% 1,8% 1,2%
Þegar komið fram 1. júní 1993 (v/niðurgr.) 0,3% 0,3% 0,3% 0,3%
Áhrif frá 1. jan. 1994:
Áhrif lækkunar VSK á ráðstöfunartekjur 2,2% 2,0% 1,5% 0,9%
Tekjuskattur 0,35% m.v. ráðstöfunartekjur 0,0% -0,3% -0,4% -0,4%
Samtals bein áhrif frá 1. jan. 1994 2,2% 1,7% 1,1% 0,5%
Verðbólga des. 1993 – des. 1994 0,8% 0,8% 0,8% 0,8%
Áhrif umfram almennt verðlag 1,4% 0,9% 0,4% -0,3%




Fylgiskjal II.


Umsögn Alþýðusambands Íslands.


(7. desember 1993.)



(Repró, 14 síður.)





Fréttatilkynning Alþýðusambands Íslands.


(1. desember 1993.)



    Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 1. desember 1993:
    „Miðstjórn ASÍ skorar á ríkisstjórn og Alþingi að taka til endurskoðunar þá ákvörðun að leggja 14% virðisaukaskatt á innanlandsflug. Þessi skattur leggst hlutfallslega þyngst á þá sem lengst þurfa að fara og bera hæstan kostnað. Þar að auki gæti hann dregið úr tíðni áætlunarflugs innan lands og minnkað þar með þjónustu og öryggi á landsbyggðinni. Ferðaþjónustan hefur verið helsti vaxtarbroddur atvinnulífs í landinu og með þessari skattlagningu er verið að koma í veg fyrir mögulega þróun hennar.“

Benedikt Davíðsson, forseti ASÍ.





Fylgiskjal III.


Umsögn Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna.


(3. desember 1993.)



(Repró, 2 síður.)



F.h. BHMR,



Páll Halldórsson, formaður.





(Repró, 3 síður.)





Fylgiskjal IV.


Umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.


(1. desember 1993.)



    BSRB telur að lækkun virðisaukaskatts af matvælum sé kostnaðarsöm og ómarkviss aðgerð og leiði ekki til tekjujöfnunar. Meðfylgjandi er grein eftir Rannveigu Sigurðardóttur, hagfræðing BSRB, þar sem þetta sjónarmið er rökstutt.
    Ljóst er að flestar aðrar skattbreytingar, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, eru til þess að standa straum af tekjutapi vegna lækkunar virðisaukaskatts af matvælum og fela í sér auknar álögur á almenning. Þessu hefur BSRB margoft mótmælt.
    Sérstök ástæða er til að mótmæla því að ekki skuli lagður skattur á fjármagnstekjur eins og ríkisstjórnin lét í veðri vaka þegar ákvörðun var tekin um virðisaukaskattsbreytinguna.
    Fráleitt er að lækka tekjuskatta á fyrirtæki úr 39% í 33% við núverandi aðstæður.
    BSRB er reiðubúið að senda fulltrúa á fund efnahags- og viðskiptanefndar til þess að færa nánari rök fyrir afstöðu samtakanna.

Fyrir hönd BSRB,



Ögmundur Jónasson formaður.






Fskj.


Rannveig Sigurðardóttir,
hagfræðingur BSRB:


Lækkun matarskatts — ómarkviss aðferð til tekjujöfnunar.


(Grein í Morgunblaðinu 28. apríl 1993.)



    Ráðamönnum hefur orðið tíðrætt um það að undanförnu að verkalýðshreyfinguna skorti veruleikatengsl. Margvísleg tillögugerð af hálfu samtaka launafólks að undanförnu gerir þessar síendurteknu fullyrðingar hjákátlegar þar sem ljóst er að verkalýðshreyfingin gerir sér ákaflega vel grein fyrir þeim efnahagslega raunveruleika sem við búum við í dag: Þjóðartekjur dragast saman, og því er minna til skiptanna.
    Þess vegna snúast kröfur verkalýðshreyfingarinnar um breytta tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Í þessu ljósi verður að skoða kröfu ASÍ um lækkun virðisaukaskatts á matvæli úr 24,5% í 14%. Það telur að með þessu móti megi auka verulega ráðstöfunartekjur atvinnulausra, barnafjölskyldna og láglaunafólks.

Kostnaður og fjármögnun.
    Áætlað er að lækkun matarskatts kosti ríkissjóð 2,6 til 3 milljarða á ári. Rætt hefur verið um að fjármagna þessa aðgerð með 10% skatti á nafnvexti einstaklinga sem skilaði um 700 milljónum í ríkissjóð og með 7% hátekjuskatti á mánaðartekjur yfir 160 þúsund krónur sem gæti skilað öðrum 700 milljónum. Sá böggull fylgir þó skammrifi að ríkisstjórnin er ekki reiðubúin að fallast á frekari hátekjuskatt.
    Það er því ljóst að til þess að fjármagna lækkun matarskatts, að ógleymdum kostnaði við aðrar aðgerðir sem voru uppi á borðinu í viðræðum ASÍ og VSÍ við ríkisstjórnina, vantar að minnsta kosti tvo milljarða á næsta ári. Til að setja þessar tölur í samhengi má minna á að á síðasta ári tókst ríkisstjórninni einungis að skera niður rekstrargjöld ríkisins um tvo milljarða og kom sá niðurskurður þó illa við marga.
    Á fundi BSRB með þremur af ráðherrum ríkisstjórnarinnar skömmu fyrir páska kom fram að til að brúa þetta gap ætlar ríkisstjórnin sér að beita niðurskurðarhnífnum. Það getur haft í för með sér stórfelldan niðurskurð á þjónustu ríkisins; skerðingu á tilfærslum, svo sem barna-, vaxta- og atvinnuleysisbótum, og/eða aukna gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu og ráðstafanir á borð við hækkun skólagjalda í menntakerfinu.
    Því virðist ljóst að þær krónur, sem skila sér í vasa láglaunafólks vegna lækkunar matarskatts, verði fjármagnaðar með aðgerðum sem geta bitnað mjög harkalega á láglaunafólki og þeim hópum sem verst standa að vígi, sjúklingum og bótaþegum.

Tekjujöfnun.
    Það er staðreynd að matvörur eru mjög dýrar hér á landi og mikið til þess vinnandi að lækka matarkostnað heimilanna. En áður en farið er út í svo róttæka skattkerfisbreytingu sem lækkun virðisaukaskatts á matvæli er, skattkerfisbreytingu sem ljóst er að verður fjármögnuð með stórfelldum niðurskurði í velferðarkerfinu, þurfum við að vera sannfærð um að lækkun matarskatts feli í raun í sér þá tekjujöfnun sem henni er ætlað. Mér vitanlega voru engar athuganir gerðar á því hvernig þessar aðgerðir gagnist þeim tekjulægstu áður en slitnaði upp úr viðræðum ASÍ og VSÍ við ríkisstjórnina.
    Ein helsta röksemdin fyrir því að lækkun matarskatts hafi áhrif til tekjujöfnunar er sú að talið er að stærri hluti tekna láglaunafólks fari til kaupa á matvælum en hinna tekjuhærri. Engar opinberar tölur eru tiltækar um matarútgjöld fólks með mismunandi tekjur. Þó ætti neyslukönnun Hagstofunnar 1990 vegna útreiknings á vísitölu framfærslukostnaðar að geta gefið einhverja vísbendingu um samhengið milli tekna, fjölskyldustærðar og matarútgjalda.
    En þó að engar athuganir liggi fyrir hér á landi um matarútgjöld mismunandi tekjuhópa eða raunveruleg tekjujöfnunaráhrif lækkunar matarskatts getum við nýtt okkur niðurstöður rannsókna annarra þjóða um þessi mál. 1
    Meginniðurstöður þeirra athugana, sem gerðar hafa verið á áhrifum breytinga á matarskatti, eru mjög á einn veg:
    Mishá skatthlutföll í virðisaukaskatti eru dýr í framkvæmd fyrir verslunina, gera skatteftirlit erfitt og auka möguleika á skattsvikum.
    Óvíst er að hve miklu leyti lækkun virðisaukaskatts skilar sér til neytenda. Talið er að alltaf megi reikna með að hluti lækkunarinnar verði eftir hjá framleiðendum og í versluninni. Vert er í þessu sambandi að rifja upp að í haust lækkuðu bændur verð á nautakjöti án þess að séð yrði að lækkunin skilaði sér í lægra verði til neytenda.
    Mishá skatthlutföll gefa rangar upplýsingar um raunverulegt verð vöru og geta því breytt neysluvenjum.
    Lækkun matarskatts gagnast betur barnafjölskyldum en barnlausum fjölskyldum með sömu tekjur.
    Sem leið til tekjujöfnunar er lækkun matarskatts ómarkviss. Í krónum talið er hagnaður af lækkun matarskatts meiri hjá tekjuhærri fjölskyldum en þeim tekjulægri. Bent er á að aðrar aðferðir séu í senn ódýrari og markvissari.

Dæmisaga frá Noregi.
    Nýjasta athugunin um breytingar á virðisaukaskatti á matvöru var unnin af norskri sérfræðinganefnd fyrir fjármálaráðuneytið þar í landi og kom hún út í febrúar sl. 2 Nefndinni var sérstaklega falið að athuga áhrif lækkunar matarskatts á tekjudreifinguna í þjóðfélaginu.
    Niðurstöður nefndarinnar eru, eins og annarra á undan henni, að lækkun matarskatts sé lítt skilvirk tekjujöfnunaraðgerð. Til að skýra þessa niðurstöðu má taka sem dæmi útreikninga nefndarinnar um áhrif lækkunar matarskatts á ráðstöfunartekjur „norsku meðalfjölskyldunnar“ (þ.e. fjölskyldu með 1,4 fullorðna og 0,9 börn).
    Útreikningarnir sýna að fjölskylda með 100 þúsund norskar krónur í neysluútgjöld (neysluútgjöld eru tekjur að frádregnum skatti og sparnaði) á ári sparaði 2.200 nkr. væri matarskattur lækkaður um helming, en fjölskylda með 300 þúsund nkr. í neysluútgjöld um 3.300 nkr. á ári. Sparnaður tekjuhærri fölskyldunnar yrði um 1.100 nkr. meiri en þeirrar tekjulægri. 3 Í krónum talið er sparnaðurinn meiri eftir því sem tekjurnar eru hærri.

Prósenturnar segja ekki alla söguna.
    Það sem gerir að menn telja að lækkun matarskatts gagnist láglaunafólki er að þegar sparnaðurinn er skoðaður sem hlutfall af tekjum er hagnaðurinn í prósentum meiri hjá láglaunafólki. Í dæminu hér að ofan aukast ráðstöfunartekjur tekjulægri fjölskyldunnar um 2,2% en þeirrar tekjuhærri aðeins um 1,1%. Ráðstöfunartekjurnar aukast meira hjá þeim tekjulægri, en í krónum talið fer meira til hátekjufjölskyldunnar. Breskar niðurstöður sýna að 63% af sparnaði vegna lækkunar matarskatts fellur í hlut þeirra sem hafa tekjur yfir meðaltekjum.
    Hagfræðingur ASÍ kemst að svipaðri niðurstöðu um prósentuhækkun ráðstöfunartekna í grein í Pressunni 21. apríl 1993. Þar segir hann: „ . . .  ráðstöfunartekjur hjóna með tvö börn og rúmlega 100 þús. kr. í mánaðartekjur mundu aukast um 2,3% ef matarskatturinn yrði lækkaður með þessum hætti, en um rúmlega 1% hjá hjónum með yfir 400 þús. kr. mánaðartekjur sem jafnframt þyrftu að greiða hátekjuskatt.“ Þetta er svipuð niðurstaða og í norska dæminu, ráðstöfunartekjurnar aukast meira hjá þeim lægstlaunuðu. Sé dæmið reiknað út frá gróða fjölskyldunnar í krónum talið, þá eru 2,3% af 100 þúsundum 2.300 krónur, en 1% af 400 þúsund krónum er 4.000 krónur. Hagnaður hátekjufjölskyldunnar er því 1.700 krónum meiri en lágtekjufjölskyldunnar.
    Niðurstaðan er því ótvíræð; lækkun matarskatts er óskilvirk sem tekjujafnandi aðgerð. Aðgerðin er dýr miðað við árangur þar sem allt of margar krónur falla í hlut þeirra tekjuhærri.

Aðrir kostir.
    En hvað er til ráða? Ef ríkissjóður á að fjármagna kjarasamninga á annað borð þá eru til ýmsar skilvirkari og jafnframt ódýrari aðgerðir til tekjujöfnunar í gegnum skatta- og tilfærslukerfið en lækkun matarskatts.
    Í norsku athuguninni var athugað hvað gerðist ef sömu upphæðinni — allri skattalækkuninni — væri dreift jafnt á allar fjölskyldur. Við þetta fengju allar fjölskyldur 2.700 nkr. Þessi upphæð er 500 nkr. hærri fyrir tekjulægri fjölskylduna en í matarskattsdæminu en 600 krónum lægri fyrir tekjuhærri fjölskylduna. Þessi aðferð er því skilvirkari sem tekjujöfnunaraðferð en lækkun matarskatts, en tekjutap ríkissjóðs er þó hið sama.
    Þetta er svipuð aðferð og hækkun persónuafsláttar, þ.e. sömu upphæð er dreift jafnt á alla fullorðna einstaklinga í þjóðfélaginu, nema hvað þeir sem eru undir skattleysismörkum nytu ekki góðs þar af.

Skilvirkt en ódýrara.

    Eins og vikið var að hér að ofan benda flestar rannsóknir til þess að lækkun matarskatts gagnast betur barnafjölskyldum en barnlausum fjölskyldum með sömu tekjur. Í norsku rannsókninni var gerður samanburður á tekjujöfnunaráhrifum lækkunar matarskatts og hækkunar barnabóta. Niðurstaðan var sú að ná mætti þrisvar sinnum meiri tekjujöfnunaráhrifum í þjóðfélaginu með hækkun barnabóta en með lækkun matarskatts. Með öðrum orðum: Það er hægt að ná sömu tekjujöfnunaráhrifum með þrisvar sinnum minni tilkostnaði með hækkun barnabóta í stað þess að lækka matarskatt.
    Á svipaðan hátt eru færð fyrir því rök að hækkun bóta — atvinnuleysisbóta, elli- og örorkubóta — sé markvissari aðgerð til að bæta hag þessara hópa en lækkun matarskatts.

Lokaorð.
    Eins og rakið hefur verið hér að framan er lækkun virðisaukaskatts á matvæli ómarkviss aðgerð til tekjujöfnunar. Sýnt er að í krónum talið vex sparnaður fjölskyldna vegna lækkunar matarskatts með tekjum — þvert á sett markmið.
    Eðlilegt er að fjármálaráðuneytið kanni áhrif lækkunar matarskatts á tekjudreifinguna í þjóðfélaginu með matarútgjöld mismunandi tekjuhópa með úrtakskönnun Hagstofunnar sem grunn áður en það gengst inn á svo stórfellda skattkerfisbreytingu sem lækkun virðisaukaskatts á matvæli er, skattkerfisbreytingu sem þar að auki á að fjármagna með stórfelldum niðurskurði til velferðarmála.
    Enginn mælir á móti því að verð á matvöru er óheyrilega hátt hér á landi og full ástæða er til að leita leiða til að ná niður matarkostnaði. En í þeirri kröppu stöðu sem við erum í er rétt að leita heildstæðari lausna, svo að við getum verið þess fullviss að krónurnar leiti þangað sem þeirra er mest þörf.

          Heimildir:
          1     Sjá m.a.:
                   Noregur: Bör merverdiavgiften differensieres? Morges offentlige utredninger, NOU 1993:8.
                   Svíþjóð: Översyn av skattesystemet. Statens offentliga utredningar, SOU 1977:91, Skall matmomsen slopas. Statens offentliga utredningar, SOU 1983:54, og Reformerad mervärdeskatt. Statens offentliga utredningar, SOU 1989:35.
                   Bretland: Extending the VAT Base: Problems and Posibilities (1985) og Tax Reform for the Fourth Term (okt. 1992), báðar unnar af Institute for Fiscal Studies í London.
                  Þar sem t.d. matvara og barnaföt eru undanþegin skatti þá fjalla bresku rannsóknirnar um hvað gerist ef lagður er skattur þessar vörur — þ.e. ef skattstofninn er breikkaður og tekjurnar nýttar til annarra tekjujafnandi aðgerða, svo sem hækkunar barnabóta, skattleysismarka.
          2     Bör merverdiavgiften differensieres? Norges offentlige utredninger, NOU 1993:8.
          3     Sambærilegt dæmi er reiknað fyrir fleiri fjölskyldurgerðir, svo sem einstætt foreldri með eitt barn, fjölskyldu með tvö börn, en það breytir ekki þeirri staðreynd að í krónum talið eykst hagnaðurinn með tekjunum.




Fylgiskjal V.


Umsögn Vinnuveitendasambands Íslands.


(1. desember 1993.)



    Meginefni frumvarpsins snýr að þeim breytingum á lögum um virðisaukaskatt og vörugjöld sem leiðir af yfirlýsingu stjórnvalda sem gefin var í tengslum við kjarasamninga á liðnu vori um lækkun virðisaukaskatts á matvæli. Af hálfu Vinnuveitendasambandsins er ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar um það málefni í heild sinni. Óski þingnefndin eftir frekari skýringum eða viðhorfum til einstakra þátta þessa máls verður að sjálfsögðu orðið við því. Þó er óhjákvæmilegt að vekja athygli á þeirri missögn, sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu, að tryggt sé jafnræði með sölu á tilbúnum réttum úr verslunum annars vegar og veitingahúsum hins vegar. Þar ber mikið í milli samkvæmt Sambandi veitinga- og gistihúsa, en niðurstaða athugunar þess er að samkeppnisstaða verslana, sem selja tilbúna rétti til neytenda, muni batna miðað við veitingahús sem bjóða svipaða rétti, einkum svonefnda skyndibitastaði.
    Þá er í þessu samhengi óhjákvæmilegt að lýsa verulegum áhyggjum af áhrifum álagningar virðisaukaskatts á gistihús sem áformað er að taki gildi frá næstu áramótum. Þó er enn frekar tilefni til að lýsa efasemdum varðandi áformin að leggja virðisaukaskatt á fólksflutninga innan lands. Hvort tveggja skerðir samkeppnisstöðu ferðamannaþjónustunnar. Fullt tilefni hefði verið til þess að skjóta frekari stoðum undir samkeppnishæfni þessarar mjög svo mikilvægu vaxtargreinar í íslensku atvinnulífi en ekki leggja stein í götu uppbyggingar þessarar atvinnugreinar sem talin er hafa nokkra möguleika í frekari gjaldeyrisöflun og atvinnusköpun ef rétt er á málum haldið.
    Þótt efndir ríkisstjórnarinnar á fyrirheitum um lækkun virðisaukaskatts á matvæli sé að hluta mætt með hækkun launaskatta á atvinnulífið og þar með fráhvarfi frá þeirri stefnumörkun aðila vinnumarkaðarins að bæta samkeppnisskilyrði atvinnulífsins með því að halda launakostnaði fyrirtækjanna óbreyttum næstu missirin er heildarávinningurinn, af óbreyttu kaupgjaldi og a.m.k. 14 mánaða friði á vinnumarkaði, ótvíræður að mati VSÍ.
    Að því er aðra þætti varðar vill Vinnuveitendasambandið sérstaklega minna á erindi sitt til nefndarinnar, dags. 20. október sl., viðvíkjandi frádráttarbærni lífeyrissjóðsiðgjalda sjálfstætt starfandi atvinnurekenda. VSÍ metur það svo að óhjákvæmilegt sé að bregðast við þessu brýna vandamáli nú þegar. Eðlilegur vettvangur fyrir slíkar breytingar er frumvarp um breytingar í skattamálum. Hér er bæði tilefni og tækifæri til að kveða upp úr um rétt sjálfstætt starfandi manna til að draga þann hluta greidds iðgjalds til lífeyrissjóðs, sem umfram er 4% af launum, frá sem önnur rekstrargjöld áður en skattur er lagður á rekstrarhagnað eða laun. Aðeins þannig verður þegar tryggt að þessi hópur atvinnurekenda þurfi ekki lengur að búa við þá fádæma mismunun að sá iðgjaldshluti, sem atvinnureksturinn almennt ber, sé ekki frádráttarbær í rekstraruppgjöri þeirra. Vinnuveitendasambandið treystir því að háttvirt efnahagsnefnd hlutist til um nauðsynlegar breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt svo að framangreindu máli verði ráðið til lykta með ásættanlegum hætti.

Virðingarfyllst,



Þórarinn V. Þórarinsson.





Fylgiskjal VI.


Umsögn Neytendasaamtakanna.


(8. desember 1993.)



(Repró, 2 síður.)



Virðingarfyllst,


f.h. Neytendasamtakanna,



Jóhannes Gunnarsson formaður.





Fylgiskjal VII.


Umsögn Íslenskrar verslunar.


(8. desember 1993.)



    Íslensk verslun, þ.e. Bílgreinasambandið, Félag íslenskra stórkaupmanna og Kaupmannasamtök Íslands, hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á skattamálum:
     1. Breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt. Samtökin telja ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á lögum um tekju- og eignarskatt.
     2. Virðisaukaskattur. Frá því að stjórnvöld mörkuðu þá stefnu að Ísland yrði aðili að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði hefur það verið skoðun samtakanna að stefna bæri að því að samræma skatta fyrirtækja hér á landi því sem gerist í samkeppnislöndum okkar. Því er það skoðun samtakanna að stefna beri að tveggja þrepa virðisaukaskatti til samræmis við stefnu Evrópubandalagsins þar sem lægra þrepið (a.m.k. 5%) legðist á nauðsynjavörur og vörur sem hafa menningarlega þýðingu, t.d. matvöru, lyf, bækur, blöð, leikhús og kvikmyndahús, en hærra þrepið (a.m.k. 15%) væri hið almenna skattþrep. Þessu til viðbótar væri eðlilegt að breikka núverandi gjaldstofn þannig að virðisaukaskattur yrði sem næst undanþágulaus. Má nefna að enn eru stórar atvinnugreinar með öllu undanþegnar virðisaukaskatti, svo sem tryggingar og fólksflutningar.
    Þar sem virðisaukaskattur á Íslandi er enn mun hærri en efra þrep Evrópubandalagsins telja samtökin að heppilegra hefði verið sem fyrsta skref í samræmingarátt að byrja á því að breikka almenna gjaldstofninn og lækka um leið skatthlutfallið.
    Með þessu hefði mátt leysa ýmis tæknileg vandamál við útfærslu virðisaukaskattsins, þ.e. framkvæmd og eftirlit, auk þess sem reikna má með betri skattskilum eftir því sem hlutfallið er lægra.
    Samtökin gera tillögu um breytingu á 19. gr. frumvarpsins og hljóði hún svo:
    Við 2. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr málsliður, er verður 2. málsl., er orðist svo: Jafnframt er ráðherra heimilt að kveða á um í reglugerð að aðilar, sem kaupa notuð ökutæki til niðurrifs, endurbyggingar eða endursölu í atvinnuskyni, geti við kaup reiknað sér innskatt sem skráður er á sérstakan reikning og nemur 19,68% af kaupverði vörunnar.
    Varðandi þessa tillögu til breytingar á 19. gr. er um það að ræða að fella niður „af óskattskyldum aðilum“ því slík kaup geta bæði verið af óskattskyldum og skattskyldum aðilum þar sem m.a. sala vátryggingafélaga á tjónamunum, sem þau hafa yfirtekið í tengslum við greiðslur skaðabóta, er skattskyld vörusala. Einnig er oft ekki ljóst við kaup hvort t.d. tjónabílar verða seldir sem varahlutir eða endurbyggðir þannig að eðlilegt er að heimildir nái til þess einnig, svo og endursölu.
     3. Tryggingagjald. Með niðurfellingu aðstöðugjalds var stigið stórt skref í þá veru að jafna aðstöðumun atvinnugreina hér á landi en mismunun í skattlagningu milli atvinnugreina hefur viðgengist um áratuga skeið. Með breytingum, sem gerðar hafa verið á tryggingagjaldi á undanförnum missirum, hefur enn á ný verið tekin upp sú stefna að mismuna atvinnugreinum. Íslensk verslun mótmælir harðlega því óréttlæti sem felst í slíkri mismunum á milli atvinnugreina og þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki slíkum ákvörðunum. Það skatthlutfall tryggingagjalds, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, mismunar atvinnugreinum um 123%. Þessu til viðbótar fá sumar atvinnugreinar tryggingagjaldið endurgreitt. Vafasamt er að þessi mismunur fái staðist samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Samtökin líta á þennan mismun sem beinan styrk við tilteknar atvinnugreinar hér á landi.
     4. Vörugjöld. Íslensk verslun ítrekar fyrri mótmæli sín gegn fyrirhugaðri álagningu vörugjalda. Samtökin telja vörugjöldin íþyngja verslunarfyrirtækjum í samkeppni við fyrirtæki í nágrannalöndunum. Það er skoðun samtakanna að svo víðtæk álagning sem hér er fyrirhuguð hafi ígildi tolla og stangist því á við 10. gr. samningsins um Evrópskt efnahagssvæði um bann við álagningu tolla og annarra gjalda sem hafa samsvarandi áhrif. Þetta á ekki síst við í þeim tilfellum þar sem fyrirhugað er að leggja vörugjöld á innflutta vöru án þess að samsvarandi framleiðsla sé fyrir hendi innan lands.

Með vinsemd og virðingu,


Íslensk verslun,



Jónas Þór Steinarsson, framkvæmdastjóri BGS,


Stefán S. Guðjónsson, framkvæmdastjóri FÍS,


Magnús E. Finnsson, framkvæmdastjóri KÍ.





Fylgiskjal VIII.


Umsögn Kaupmannasamtaka Íslands.


(10. desember 1993.)



    Með tilvísan til fundar, sem fulltrúar Kaupmannasamtaka Íslands áttu með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis um virðisaukaskatt 8. desember sl., vilja samtökin árétta eftirfarandi:
    Það er skoðun samtakanna að með eins þreps virðisaukaskatti verði innheimta skattsins skilvirkust og kostnaður verslunarinnar við innheimtu skattsins lægstur.
    Hins vegar hafa samtökin tekið undir þau sjónarmið að ef nauðsyn krefur verði íslenska virðisaukaskattskerfið aðlagað sambærilegu kerfi sem í gildi er hjá þeim þjóðum sem við komum til með að eiga samleið með og við eigum í samkeppni við.
    Samtökin hafa hins vegar haft miklar áhyggjur af framkvæmd tveggja þrepa virðisaukaskatts sem nú er lagt til að tekinn verði upp hér á landi um nk. áramót, sérstaklega með tilliti til skamms fyrirvara sem gefinn er til undirbúnings. Samtökin hafa því tekið saman meðfylgjandi greinargerð þar sem gerð er grein fyrir því hvernig ná má sama árangri í innheimtu skattsins þó að notast verði við eitt þrep.

Virðingarfyllst,


f.h. Kaupmannasamtaka Íslands,



Bjarni Finnsson formaður.




Greinargerð um fyrirhugaða breytingu á virðisaukaskattskerfinu.


(10. desember 1993.)



    Telja verður augljóst að með fyrirhugaðri breytingu sé vegið alvarlega að virðisaukaskattskerfi sem er hlutlaus og tiltölulega einföld innheimta og skilvirk fyrir ríkissjóð. Sú breyting, sem fyrirhuguð er, brýtur þetta kerfi niður og verður til tjóns fyrir hagsmuni almennings og veldur auknum kostnaði hjá verslunum við innheimtu skattsins.
    Breytingin mun mismuna verslun, auka kostnað við verslun og vörudreifingu og opna leiðir til undanskots hjá þeim sem óprúttnir eru. Þannig skapast betri samkeppnisstaða hjá óprúttnum aðilum á kostnað annarra og ríkissjóðs. Þar að auki mun veikleiki kerfisins verða skráður á reikning verslunarinnar og þeirra sem standa heiðarlega að viðskiptum.
    Hætt er við að breytingin muni leiða til ófyrirséðs tekjutaps hjá ríkissjóði, flækja framkvæmd skattheimtu og auka kostnað. Breytingin mun ekki koma neytendum til góða að því marki sem talið var í fyrstu. Í frjálsri samkeppni mun breyting skatta ekki einhlítt leiða til verðbreytingar og aukinn kostnaður við framkvæmd hlýtur að hækka vöruverð.
    Ekkert hefur verið hugað að breyttri framkvæmd við innheimtu skattsins í verslunum landsins og er fullljóst að ómögulegt er að koma breytingunni í framkvæmd á þeim tíma sem til stefnu er.
    Fulltrúar samtakanna hafa af þessu tilefni átt viðræður við forustumenn þeirra samtaka launafólks sem eiga aðild að kjarasamningum og tengjast máli þessu. Þeim eru ljósir þeir miklu annmarkar sem eru á fyrirhugaðri breytingu og hafa þeir tjáð sig reiðubúna til þess að leggja að jöfnu aðrar þær breytingar sem jafngildar geta talist fyrir launafólk.
    Fulltrúar samtakanna hafa einnig rætt við forustuaðila þeirra vinnuveitenda sem að þessum samningum standa. Þeir hafa í samræmi við það sem áður hefur komið fram hjá þeim látið í ljós efasemdir um breytingarnar sem undirbúnar hafa verið og eru reiðubúnir til breytinga sem ekki raska gildandi kjarasamningum.
    Fulltrúar annarra launþegasamtaka en að framan greinir hafa þegar lýst eindreginni andstöðu við hinar fyrirhuguðu breytingar.
    Af hálfu talsmanna stjórnmálaflokkanna hafa komið fram verulegar efasemdir um þessar breytingar. Forsætisráðherra hefur í fjölmiðlum látið í ljós að hann telji aðrar leiðir betri og fjármálaráðherra hefur gagnrýnt þá kerfisbreytingu sem verið er að gera. Forustumenn hins stjórnarflokksins hafa einnig gagnrýnt þessa leið og sama er að segja um formann efnahags- og viðskiptanefndar og fleiri talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna.
    Með hliðsjón af framansögðu skora Kaupmannasamtök Íslands á efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, sem hefur málið nú til meðferðar, að beita sér fyrir breytingum á fyrirliggjandi lagafrumvarpi.
    Telja samtökin að falla eigi frá áformum um tvö þrep í virðisaukaskatti. Í stað þess eigi að nýta það endurgreiðslukerfi innan skattsins sem nú tekur til flestra mjólkurvara, kindakjöts, fisks og grænmetis og láta það taka til alls innlends matvöruhráefnis. Þessi leið mun að mestu hafa sömu áhrif á verð matvöru úr innlendu hráefni og lækkun VSK en kostar aðeins brot af því sem áætlað er að lækkunin kosti. Til þessa verði varið 400–500 millj. kr. Alls er áætlað að verja til VSK 2,5 milljörðum kr. þannig að mismuninum má verja til skattalegra breytinga sem koma launafólki betur en lækkun VSK á matvöru. Má t.d. nefna lækkun tekjuskatts, hækkun persónufrádráttar og hækkun barnabóta og bóta tryggingakerfisins. Einnig má nefna lækkun almenna VSK-hlutfallsins sem ekki gæti síður haft í för með sér jákvæð verðlagsáhrif en lækkun VSK á aðeins fáar vörutegundir, svo og að horfið verði frá skattlagningu á innanlandsflug og almenningssamgöngur sem í senn íþyngir tekjulágum og dreifbýlisfólki.
    Kaupmannasamtök Íslands skora á nefndina að skoða meðfylgjandi tillögur og hverfa frá fyrirhuguðum breytingum á VSK.


Fylgiskjal IX.

Fjármálaráðuneytið,
efnahagsskrifstofa:


Áhrif 14% VSK á útgjöld vísitölufjölskyldunnar.


(30. mars 1993.)



    Að undanförnu hefur sú hugmynd að leggja 14% VSK á matvæli mikið verið rædd meðal aðila vinnumarkaðarins. Með þeirri ráðstöfun telja þeir að best verði komið til móts við þá sem hafa lægstu tekjurnar, enda vegi þau útgjöld hlutfallslega þyngst hjá þeim hópi. Lauslega áætlað mundi slík ráðstöfun kosta ríkissjóð nálægt 4 milljörðum kr. og lækka almennt verðlag að jafnaði um 1 1 / 2 %.
    Til að glöggva sig betur á þessum áhrifum voru skoðaðir útgjaldareikningar tæplega 300 barnafjölskyldna. Þessir reikningar eru hluti af neyslukönnun sem lögð var til grundvallar nýlegri endurskoðun Hgastofu Íslands á vísitölu framfærslukostnaðar. Einnig voru skoðaðar framtaldar tekjur þessara sömu fjöldskyldna fyrir árið 1990 framreiknaðar til marsverðlags 1993. Auk þess eru reiknaðar ráðstöfunartekjur þeirra, þ.e. framtaldar tekjur að frádregnum tekjuskatti en að viðbættum barnabótum, miðað við gildandi reglur. Útgjaldatölur eru á sambærilegu verðlagi. Í eftirfarandi töflu eru niðurstöður þessarar athugunar dregnar saman:

Tekjur og útgjöld barnafjölskyldna miðað við verðlag í mars 1993.



Árstekjur, m.kr.

1-1,5

1,5-2

2-2,5

2,5-3

3-3,5

3,5-4

4-5

>5

Meðaltal



Fjöldi          
18
38 58 61 45 31 28 12 291

Mánaðartölur, þús. kr.:
Meðaltekjur     
120
164 207 250 293 344 403 540 265
    Tekjuskattur      -4 -21 -38 -56 -74 -95 -120 -183 -63
    Barnabætur      17 11 5 5 5 5 5 5 5
Ráðstöfunartekjur 1)
    
133
154 174 199 224 254 288 362 207

Matvælaútgjöld, meðaltal 2)
    
42
44 44 48 51 54 50 60 48
 — lægsta tilvik í úrtaki     
22
19 21 24 19 31 25 39 19
 — hæsta tilvik í úrtaki     
69
86 86 97 125 80 138 102 138

Matvæli sem hlutfall af:
    meðaltekjum, %      36,5 27,7 21,9 19,9 17,9 16,2 12,8 11,5 18 ,9
    ráðstöfunartekjum, %      31,9 28,5 25,2 24,1 22,6 21,2 17,3 16,6 23 ,3
Áhrif 14% VSK á:
    verð matvæla, %      -6,7 6,9 -6,8 -6,8 -6,8 -6,7 -6,7 -6,5 -6 ,8
    útgjöld, kr.      -3.000 -3.300 -3.200 -3.500 -3.700 -3.900 -3.500 -4.100 -3.500 
    ráðstöfunartekjur, %      2,3 2,2 1,8 1,8 1,7 1,5 1,2 1,1 1 ,7

1)     Miðað er við að þessar fjölskyldur eigi tvö börn, annað eldra en 7 ára. Sú er hins vegar ekki reyndin í úrtakinu sem kann að skekkja myndina eitthvað.
2)     Kaup á gosdrykkjum og útgjöld á veitingahúsum eru hér undanskilin.

    Í töflunni kemur fram að matvælaútgjöld tekjulægri fjölskyldna eru hlutfallslega meiri en þeirra sem hafa hærri tekjur. Samkvæmt könnuninni eyðir fjölskylda með 133 þús. kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði u.þ.b. þriðjungi tekna sinna í kaup á matvælum samanborið við rúmlega fimmtung hjá fjölskyldu með tæplega helmingi hærri tekjur, eða 254 þús. kr. á mánuði. Munurinn er liðlega 10%. Hins vegar er hann mun meiri þegar útgjöldin eru skoðuð sem hlutfall af tekjum án tillits til tekjuskatts og barnabóta, eða um 20%. Þetta frávik endurspeglar þá tekjujöfnun sem felst í tekjuskattskerfinu.
    Lækkun VSK á matvælum úr 24½% í 14% eykur ráðstöfunartekjur barnafjöldskyldna um 1,7% að meðaltali miðað við fyrrgreint úrtak, eða um 3.500 kr. á mánuði. Þegar á heildina er litið er breytingin talin heldur minni, eða 1½% eins og áður var komið fram.
    Á hinn bóginn þarf að skoða þessar niðurstöður með nokkrum fyrirvara, m.a. vegna þess að úrtakið er fremur lítið og því spurning um hversu marktækt það er. Þá kemur í ljós þegar matvælaútgjöldin eru skoðuð nánar að meðaltölin dylja veruleg frávik, eða frá 19 þús. kr. á mánuði upp í 138 þús. kr. Sem dæmi eyða fjölskyldur, sem eru með árstekjur á bilinu 3–3,5 millj. kr., allt frá rúmlega 8% upp í 55% af ráðstöfunartekjum sínum í matvælakaup. Fjöldi barna kann að skipta hér einhverju máli en þau eru ýmist tvö eða þrjú. Þá er kostnaður vegna kaupa á tilbúnum mat á veitingahúsum og mötuneytum undanskilinn í þessu mati. Þetta tvennt skýrir þó tæplega þann mun sem hér kemur fram.

Fylgiskjal X.


Kolbeinn Arinbjarnarson,
forstöðumaður innanlandsflugs
Flugleiða:


Áhrif virðisaukaskatts á fargjöld í innanlandsflugi.


(9. desember 1993.)



(Repró, 1 síða.)






Fylgiskjal XI.


Stjórnarnefnd um almenningssamgöngur
og Almenningsvagnar bs.:


Áhrif virðisaukaskatts á almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.


(Fréttatilkynning.)



    Í 3. gr. gildandi laga um virðisaukaskatt er meðal annars kveðið á um skattskyldu opinberra aðila, en þar segir að skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvíli á ríki, bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum eða fyrirtækjum þeirra að því leyti sem þeir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Í þessu samhengi er rétt að vekja sérstaka athygli á því að strætisvagnar eru ekki reknir í samkeppni við atvinnufyrirtæki enda ljóst að sú starfsemi er rekin með verulegum rekstrarhalla. Þess vegna er engin ástæða til þess að leggja virðisaukaskatt á þá þjónustu undir yfirskini samkeppnisaðstæðna.
    Verði virðisaukaskattur hins vegar lagður á rekstur strætisvagna í þeim tilgangi að auka skatttekjur ríkissjóðs er rétt að vekja athygli alþingismanna á niðurstöðum athugana Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á hagkvæmni almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, dags. í september 1992, en þar var árlegur ábati þjóðarbúsins af rekstri strætisvagna metinn á um 400–500 millj. kr. Komi til slíkrar skattlagningar bendir allt til þess að fargjöld strætisvagna muni hækka um a.m.k. 10–12%. Slík hækkun mun leiða til fækkunar farþega með strætisvögnum, draga verulega úr ábata þjóðarbúsins af rekstri strætisvagna og hafa gagnstæð áhrif á afkomu ríkissjóðs miðað við það sem álagningu skattsins er ætlað að hafa.
    Heildarkostnaður við rekstur strætó, ferðaþjónustu fatlaðra og skólaakstur á höfuðborgarsvæðinu er áætlaður rétt um 1.100 millj. kr. á árinu 1994. Að teknu tilliti til frádráttar vegna greidds innskatts má gera ráð fyrir að heildaráhrif skattsins verði á bilinu 6–8% til hækkunar á kostnaði. Fyrir almenningssamgöngurnar í heild þýðir þetta kostnaðarauka að upphæð 65–85 millj. kr. á ári.
    Það er ljóst að ferðaþjónusta fatlaðra og skólaakstur eru greidd að öllu leyti af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og rétt um helmingur af rekstri strætisvagnaþjónustunnar. Upptaka virðisaukaskatts nú um áramótin hefur því í för með sér verulegar kostnaðarhækkanir fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og með því er verið að leggja auknar byrðar á sveitarfélögin. Þetta er til viðbótar þeim álögum sem þegar renna til ríkisins vegna þessarar þjónustu, en sú tala er rétt um 140 millj. kr. á ári.
    Það er túlkun fjármálaráðuneytisins að fólksflutningar, sem sveitarfélögin hafa með höndum eins og rekstur almenningsvagna, skólaakstur, þar með talinn akstur fatlaðra skólabarna, verði virðisaukaskattsskyldur frá og með 1. janúar 1994. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvort reksturinn er beint á vegum sveitarfélaganna eða í formi niðurgreiðslna eða styrkja þar sem hvort tveggja kemur til með að vera skattskylt.

Ályktunartillaga samþykkt á fundi stjórnarnefndar um almenningssamgöngur.


(1. desember 1993.)



    Stjórnarnefnd um almenningssamgöngur í Reykjavík skorar á ríkisstjórnina að endurskoða ákvörðun um 14% virðisaukaskatt á almenningssamgöngur.

Greinargerð.
    Vakin er athygli á því að samkvæmt mati ríkisskattstjóra verður lagður virðisaukaskattur á framlag borgarinnar til þjónustu almenningsvagna, þ.e. því umfangsmeiri sem þjónusta almenningsvagna er þeim mun meira tekur ríkisvaldið í sinn hlut. Það er óviðunandi að ríkisvaldið seilist með þessum hætti í borgarsjóð. Kostnaðarauki strætisvagnareksturs í Reykjavík vegna þessa getur orðið á bilinu 40–45 millj. kr. Óvíst er hvernig þessum kostnaðarauka verður mætt. Ef hækkun fargjalda kemur ein til þarf 10–12% hækkun og jafnvel meira. Strætisvagnafargjöld eru lág í Reykjavík og á þessu ári hefur farþegum fjölgað töluvert. Það er afleitt að virðisaukaskattur komi til á sama tíma og tækifæri eru til að auka þjónustu almenningsvagna vegna bættrar afkomu. Þessi skattlagning vinnur gegn strætisvagnaþjónustu. Með því að láta skattinn einungis ná til hluta almenningssamgangna skerðist samkeppnisstaða strætisvagna verulega.

Áskorun stjórnar Almenningsvagna bs.


(6. desember 1993.)



    Stjórn Almenningsvagna bs. samþykkir að beina þeirri áskorun til þingmanna að koma í veg fyrir að 14% virðisaukaskattur verði lagður á rekstur strætisvagna um næstkomandi áramót.
    Í 3. gr. gildandi laga um virðisaukaskatt er meðal annars kveðið á um skattskyldu opinberra aðila, en þar segir að skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvíli á ríki, bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum eða fyrirtækjum þeirra að því leyti sem þeir aðilar selja vörur eða skattkylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Í þessu samhengi er rétt að vekja sérstaka athygli á því að strætisvagnar eru ekki reknir í samkeppni við atvinnufyrirtæki enda ljóst að sú starfsemi er rekin með verulegum rekstrarhalla. Því þykja ekki lagaskilyrði til þess að leggja virðisaukaskatt á þjónustu strætisvagna með skírskotun til samkeppnisaðstæðna.
    Verði virðisaukaskattur hins vegar lagður á rekstur strætisvagna í þeim tilgangi að auka skatttekjur ríkissjóðs er rétt að vekja athygli alþingismanna á niðurstöðum athugana Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á hagkvæmni almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, dags. í september 1992, en þar var árlegur ábati þjóðarbúsins af rekstri strætisvagna metinn á um 400–500 millj. kr. Komi til slíkrar skattlagningar bendir allt til þess að fargjöld í vögnum Almenningsvagna bs. muni hækka um 12–16%. Slík hækkun mun leiða til fækkunar farþega með strætisvögnum, draga verulega úr ábata þjóðarbúsins af rekstri strætisvagna og hafa gagnstæð áhrif á afkomu ríkissjóðs miðað við það sem álagningu skattsins er ætlað að hafa.
    Á undanförnum missirum hefur farþegum með strætisvögnum fjölgað verulega á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélög á svæðinu hafa aukið mjög framlög til rekstrar strætisvagna sl. tvö ár í því skyni að bæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og stuðla að aukinni notkun strætisvagna út frá almennum og augljósum hagkvæmissjónarmiðum. Hækkun virðisaukaskatts á rekstur strætisvagna og hækkun fargjalda af þeim sökum mun vinna gegn þessum markmiðum, Farþegum mun fækka, og hugsanlega kann til þess að koma að aðildarsveitarfélög Almenningsvagna bs., sem við stofnun félagsins höfðu fyrirheit frá stjórnvöldum um stuðning ríkisvaldsins við rekstur þess, muni draga sig út úr rekstri strætisvagna, enda er slíkur rekstur ekki skylduverkefni sveitarfélaga lögum samkvæmt.


Fylgiskjal XII.


Umsögn Sambands veitinga- og gistihúsa.


(30. nóvember 1993.)



(Repró, 3 síður)



Virðingarfyllst,


Samband veitinga- og gistihúsa,



Erna Hauksdóttir framkvæmdastjóri.




Yfirlit yfir áhrif álags á innskatt á rekstur veitingahúsa.




(Repró, 2 síður.)





Fylgiskjal XIII.


Umsögn Félags íslenskra ferðaskrifstofa.


(3. desember 1993.)



(Repró, 4 síður.)



Virðingarfyllst,


f.h. Félags íslenskra ferðaskrifstofa,



Karl Sigurhjartarson framkvæmdastjóri.




Fylgiskjal XIV.

Umsögn Félags ferðaþjónustubænda.


(Desember 1993.)



    Félag ferðaþjónustubænda (FFB) hefur áhyggjur af því að álagning VSK á ferðaþjónustu, eins og gert er ráð fyrir frá 1. janúar nk., muni skapa óeiningu í ferðaþjónustu sem atvinnugrein. Ýmis atriði þessarar lagasetningar gætu verið mistúlkuð og skaðað rekstrarumhverfi greinarinnar, söluferillinn gæti þyngst og aukið mismunun rekstraraðila. Markaðsöflun erlendis stendur og fellur með gæðum þjónustunnar hérlendis — hjá öllum rekstraraðilum. Með væntanlegri lagasetningu um VSK á ferðaþjónustu munu sumir rekstaraðilar hafa fjárhagslegan ávinning af því að skilgreina sig fyrir utan ferðaþjónustuna. Þessir aðilar eru þá eftirlitslausir og ógna gæðaímynd greinarinnar.
    Álagning VSK veikir rekstrargrundvöll greinarinnar almennt og er ósanngjörn gagnvart þeim aðilum sem fjárfestu í gistiaðstöðu síðustu árin. Þeir verða að þola tvísköttun næstu árin á meðan þeir greiða niður sína fjárfestingu.
    Veruleg hætta er á því að álagning VSK á afþreyingu eins og báts- og hestaferðir og aðra svipaða starfsemi muni draga úr tilraunastarfsemi og einstaklingsframtaki á þessu sviði. Slíka starfsemi á að örva í dag en ekki kæfa.
    FFB telur sig hafa komið ábendingum á framfæri við réttan aðila, sem í þessu tilfelli er Ferðamálaráð Islands, tengilið greinarinnar við yfirvöld.
    FFB lagði eftirfarandi punkta (skáletraðan texta) fyrir fyrsta fund nýskipaðs Ferðamálaráðs í október. Flest lykilatriði eru enn óleyst og verða að mati undirritaðs ekki leyst nema í samvinnu við aðila í greininni sem hafa viðeigandi sérþekkingu.

Fundur FMR 4. október 1993.
    Atriði sem þarf að kanna og skýra fyrir áramót:
    Fyrirhugaðar breytingar á lögum sem snerta ferðamál (m.a. vegna EES).
    Framkvæmd skattlagningar (VSK) á milligöngu um ferðaþjónustu.
    Framkvæmd skattlagningar (VSK og fasteignagjöld) á útleigu á sumarbústöðum og herbergjum sem er að hluta til VSK-skyld.

Paul Richardson, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda.



Atriði sem enn eru óleyst 8. desember 1993.
    Það má túlka leigu á sumarbústöðum, herbergjum, íbúðum og öðru húsnæði til lengri tíma en fjögurra vikna sem leigu á húsnæði og þar af leiðandi ekki virðisaukaskattsskylda. Viðkomandi húsnæði getur þó verið notað til ferðaþjónustureksturs.
    Þetta atriði um túlkun á því hvenær greiðsla fyrir afnot af húsnæði telst virðisaukaskattsskyld snertir marga aðila og á ýmsan hátt. Hér eru nokkur dæmi:
    Á Íslandi eru 1.374 sumarbústaðir í eigu lögaðila. Þessir bústaðir eru að einhverju leyti til leigu á opnum markaði. Ef þessir bústaðir eru að meðaltali 4 millj. kr. virði er heildareignin um 5,5 milljarðar kr. til leigu að hluta til á opnum markaði en e.t.v. fyrir utan VSK-kerfið. Heildargistirýmið er áætlað 6.870 á nótt. Til samanburðar er gistirýmið hjá Ferðaþjónustu bænda um 2.000 rúm á nótt og hjá hótelum í Reykjavík um 2.130 rúm á nótt. Til viðbótar eiga lögaðilar íbúðir sem gætu farið inn á ferðaþjónustumarkaðinn.
    Fyrir utan þessa sumarbústaði í eigu lögaðila eru sumarbústaðir og íbúðir í eigu einstaklinga sem gætu farið inn á ferðaþjónustumarkaðinn að einhverju leyti. Erlend ferðaskrifstofa hefur auglýst eftir sumarbústöðum til leigu á Íslandi í sumar með það fyrir augum að endurleigja til Þjóðverja í vikuleigu árið 1994.
    Gisting á einkaheimilum og á gistiheimilum hefur aukist undanfarin ár í þéttbýli og áætla má að sú gisting sé að einhverju leyti fyrir utan kerfið. Þetta húsnæði er að hluta til leigt út yfir veturinn til námsmanna til lengri tíma. Þetta þýðir að viðkomandi rekstur er að hluta til VSK-skyldur og að hluta til undanþeginn VSK. Skýr skilgreining á slíkum rekstri verður að liggja fyrir.

Hættur.
    Gistisala gæti farið fram að verulegu leyti fyrir utan VSK-kerfið í samkeppni við þjónustu sem ber VSK.
    Ef lögin leyfa sumum að veita þjónustu án þess að skila VSK verður meiri tilhneiging til undanskots hjá þeim sem annars hefðu sætt sig við skattlagninguna.
    Þeir aðilar, sem eru með gistisölu skilgreinda sem „fasteingnaleigu“, þurfa ekki að uppfylla kröfur reglugerðar nr. 288/1987 frá samgönguráðuneytinu. Þeir verða eftirlitslausir á markaðnum sem stefnir gæðaímynd ferðaþjónustunnar í hættu.
    Þeir sem hafa sína aðstöðu skilgreinda sem „fasteignaleigu“ og greiða ekki VSK greiða ekki heldur eftirlitsgjöld til heilbrigðisfulltrúa. Þessi gjöld eru í eðli sínu skattur vegna þess að þau verða innheimt árlega án tillits til þess hvort úttekt fer fram eða ekki. Þetta mun skapa óánægju og aukna tilhneigingu til undanskots hjá þeim sem borga þessi gjöld.
    Þau félög, sem leigja gistiaðstöðu til sinna félagsmanna, gera það e.t.v. ekki í hagnaðarskyni. Þessi félög leigja líka á opnum markaði í verulegum mæli í samkeppni við aðila sem borga VSK, eftirlitsgjöld og leyfisgjöld. Hættan er sú að þessi þáttur verður ekki nægilega vel skilgreindur.
    Gistisala getur farið í vaxandi mæli fram hjá VSK í gegnum erlenda aðila. Ef erlendur aðili leigir gistihúsnæði í fjórar vikur getur hann endurleigt það í styttri tíma erlendis. Allir aðilar, sem hafa skilgreint sína þjónustu sem „fasteignaleigu“, hagnast á því að sniðganga innlenda söluaðila.
    Með tilkomu EES eykst hættan á því að viðskipti í ferðaþjónustu færist yfir til erlendra aðila. Það er ósanngjarnt að láta galla í íslenskum lögum ýta undir þessa hættu.
    Sala á afþreyingu með gistingu og fæði, t.d. laxveiði, verður ekki VSK-skyld samkvæmt túlkun ríkisskattstjóraembættisins. Hér er hætta á því að rekstraraðilar velji þann kost sem ber ekki VSK, svo sem að selja veiðileyfi með gistingu og fæði inniföldu. Auk þess er sala á afþreyingu með gistingu og fæði skilgreind sem „alferð“ samkvæmt frumvarpi til laga um alferðir sem flækir málið enn.

Annað óleyst.
    Það á eftir að skilgreina alferð (pakkaferð). Þessi skilgreining þarf að vera í samræmi við ábendingar EES. Skilgreininguna, sem er í frumvarpi til laga um alferðir, þarf að staðfæra betur að mínu mati. Kröfu um sundurliðun á reikningum fyrir alferðir þarf að endurskoða.
    Þessi greinargerð fjallar um hluta þeirra mála sem þurfa meiri úrvinnslu áður en lög taka gildi. Hér hefur t.d. ekki verið fjallað um flutningaþáttinn.

Lokaorð.
    Ég tel að undirbúningsvinna við þessa lagasetningu hafi ekki verið nægilega vel unnin. Aðallega er við ferðaþjónustuaðila sjálfa að sakast í þessu sambandi. Þeir hafa greinilaga ekki komið sínum málstað nógu vel á framfæri. En þrátt fyrir það er engin ástæða til þess að samþykkja lög sem gætu m.a. skapað aukinn glundroða í greininni.

Virðingarfyllst,



Paul Richardson, framkvæmdastjóri


Félags ferðaþjónustubænda.





Fylgiskjal XV.


Bréf Íþróttasambands Íslands.


(8. desember 1993.)



    Samkvæmt starfs- og kennsluskýrslum ÍSÍ fyrir árið 1992 flaug íþróttahreyfingin innan lands fyrir 70.845.176 kr. (sjötíu milljónir átta hundruð fjörutíu og fimm þúsund eitt hundrað sjötíu og sex krónur). Þessi tala verður síst lægri á árinu 1993.
    Álagning 14% virðisaukaskatts á innanlandsflug mun á árinu 1994 hafa í för með sér 10–15 millj. kr. kostnaðarauka fyrir íþróttahreyfinguna.
    Íþróttasamband Íslands vill með bréfi mótmæla þessari skattlagningu sem mun koma afar illa niður á íþróttahreyfingunni, einkum og sér í lagi á landsbyggðinni.

Virðingarfyllst,


Íþróttasamband Íslands,



Ellert B. Schram, forseti ÍSÍ.





Fylgiskjal XVI.


Umsögn Trausta, félags sendibifreiðastjóra.


(7. desember 1993.)



    33. gr.
    Við mótmælum hækkun tryggingagjalds úr 6% í 6,35%.

    34. gr.
    Við mótmælum hækkun úr 0,15% í 0,5%.

    39. gr.
    Við mótmælum hækkun á bifreiðagjaldi harðlega og teljum að skatta eigi aldrei að setja á eignir sem eru ekki í tengslum við tekjur. Síðan teljum við að allar skattgreiðslur ættu að falla niður þegar númer eru lögð inn hjá Bifreiðaskoðun Íslands til geymslu og þar með talið bifreiðagjald (kílóagjöld).

    43. gr.
    Við mótmælum hækkun á vörugjaldi á bensín úr 90% í 97% og einnig áætlaðri hækkun á þungaskatti um allt að 5% umfram það sem fyrirhugað var.

Virðingarfyllst,


f.h. stjórnar,



Guðlaugur B. Gíslason.



Fylgiskjal XVII.


Samþykkt stjórnar Samtaka landflutningamanna.


(16. nóvember 1993.)



(Repró, 1 síða.)







Fylgiskjal XVIII.


Umsögn Félags íslenskra bifreiðaeigenda.


(1. desember 1993.)




(Repró, 2 síður.)



Virðingarfyllst,


f.h. Félags íslenskra bifreiðaeigenda,



Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri.



Fskj.

Kostnaður bifreiðaeigenda af bifreiðagjaldi frá 1988.



(Repró, 1 síða.)