Ferill 298. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 298 . mál.


470. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99 8. september 1993.

Frá minni hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið á þremur fundum. Á fund nefndarinnar komu frá landbúnaðarráðuneytinu Sigurgeir Þorgeirsson, aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra og Guðmundur Sigþórsson skrifstofustjóri, frá Stéttarsambandi bænda Hákon Sigurgrímsson framkvæmdastjóri, frá Framleiðsluráði landbúnaðarins Gísli Karlsson framkvæmdastjóri, frá Búnaðarfélagi Íslands Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri, Sigurður Líndal prófessor og Sveinn Snorrason hrl.
    Fram kom hjá fulltrúum bændasamtakanna að ekkert samráð hefði verið haft við þá áður en málið var lagt fram á þessu stigi þannig að samtök þeirra hafa ekki haft tækifæri til að fjalla um málið. Þeir bentu á að í frumvarpinu, eins og það liggur fyrir nú, væru engin ákvæði um samráð við bændasamtökin eins og gert var ráð fyrir í breytingartillögu meiri hluta landbúnaðarnefndar við búvörulögin í vor, en það frumvarp strandaði á ósamkomulagi í stjórnarflokkunum.
    Í máli Sveins Snorrasonar og Guðmundar Sigþórssonar kom fram að heimildir landbúnaðarráðherra til töku verðjöfnunargjalda, hvað varðar innflutning samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland hefur gert, nái til þeirra vöruflokka sem getið er í tollnúmeraskrá þessara samninga. Hvað varðar bókanir við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sem varða landbúnaðarmál, er um að ræða tollkafla 1–24, að undanskildum fiski og fiskafurðum. Í þessu sambandi vill minni hlutinn ítreka að við framsögu ráðherra og í starfi nefndarinnar kom skýrt fram að þær breytingar, sem hér er verið að framkvæma, snúa einvörðungu að skuldbindingum sem leiða af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, en ekki GATT-samkomulaginu.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að gjöldin verði lögð á samkvæmt tillögu þriggja manna nefndar, skipaðri fulltrúum landbúnaðar- viðskipta- og fjármálaráðuneytisins. Nái nefndin ekki samkomulagi skal ráðherra bera málið undir ríkisstjórnina áður en ákvörðun er tekin um upphæð verðjöfnunargjalda.
    Í máli Sigurðar Líndal kom fram að ákvæði í sérlögum um meðferð máls í ríkisstjórn, á þann hátt sem hér er lagt til, væri afar sérstakt og ætti sér vart hliðstæðu í íslenskri löggjöf.
    Minni hlutinn mun styðja þann hluta 1. gr. frumvarpsins sem lýtur að forræði landbúnaðarráðherra varðandi innflutning og töku verðjöfnunargjalda en lýsir andstöðu sinni við þann þátt greinarinnar sem snýr að málsmeðferð ef ekki næst samkomulag í þriggja manna nefndinni.

Alþingi, 20. des. 1993.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson,

Guðni Ágústsson.

Ragnar Arnalds.


frsm.



Kristín Ástgeirsdóttir.