Ferill 251. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 251 . mál.


479. Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breytingar í skattamálum.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Við 2. umræðu frumvarpsins ákvað 2. minni hluti nefndarinnar að kalla flestar breytingartillögur á þskj. 410 til baka til 3. umræðu. Var það gert til þess að ríkisstjórnin fengi enn eitt tækifæri til að endurskoða afstöðu sína. Undirritaðir nefndarmenn telja að sýnt hafi verið fram á það með skýrum rökum að ef breytingartillögur 2. minni hluta verða samþykktar styrki það stöðu ríkissjóðs, efli framleiðslustarfsemina, minnki skattsvik og bæti hag láglaunafólks. Auk þess er með tillögunum tekið þýðingarmikið skref til að jafna skattlagningu fjármagnstekna og eigna til samræmis við aðrar tekjur og eignir.
    Ríkisstjórnin lýsti því yfir í upphafi að skattlagning fjármagnstekna væri forgangsatriði á lista stjórnarflokkanna í skattamálum. Boðað var að frumvarp um þetta efni yrði lagt fram á Alþingi 1991–1992. Ekkert hefur verið lagt fram um málið en því frestað aftur og aftur með skýrslugerðum.
    Fyrirætlanir um skattkerfisbreytingar hafa verið gagnrýndar harðlega af 2. minni hluta. Í þeirri vinnu, sem hefur farið fram að undanförnu, telja undirritaðir nefndarmenn sig hafa fengið áreiðanlega staðfestingu á því að hér er um ranga og vanhugsaða ákvörðun að ræða sem kemur þeim meira til góða sem hafa hærri tekjur og meiri neyslu. Hér er því ekki um tekjujöfnun að ræða.
    Í þessu sambandi vill 2. minni hluti vitna til niðurstöðu nefndar á vegum Félags löggiltra endurskoðenda, en þar segir m.a.:
    „Nefndin telur að í frumvarpinu felist svo víðtækar og tæknilega flóknar breytingar á lögum um virðisaukaskatt að það sé vart forsvaranlegt að ætlast til þess að þær komi til framkvæmda nokkrum dögum eftir að frumvarpið verður hugsanlega að lögum. Með þeim breytingum, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, væri stigið stórt skref gegn upphaflegum markmiðum skattsins og kostum hans, svo sem hlutleysi hans og öryggi, skref sem erfitt verður að stíga til baka. Framkvæmd kerfisins verður mun erfiðari, hlutleysi skattsins raskast, eftirlit verður flóknara og kostnaðarsamara og meiri óvissa verður um mörkin milli skattskyldu og skattleysis í nokkrum tilvikum. Er hér að nokkru horfið aftur til galla eldra söluskattskerfisins um leið og þessu mikilvægasta tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs er unnið óbætanlegt tjón.“
    Undirritaðir sem starfa í 2. minni hluta nefndarinnar telja að svo sterk rök hafi verið leidd fram í málinu að ekki þurfi frekari vitnanna við. Það hefur verið viðurkennt af mörgum stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar að aðgerðin sé óskynsamleg en hana verði að styðja af óskilgreindum ástæðum.
    Annar minni hluti vill taka eftirfarandi fram varðandi breytingartillögur frá meiri hluta nefndarinnar á þskj. 406:
    Í breytingartillögu við 4. gr. er gerð tillaga um að kveða skýrar á um hvaða framlög til margvíslegra mála í þjóðfélaginu séu frádráttarbær frá tekjum innan tiltekinna marka. Halldór Ásgrímsson og Finnur Ingólfsson styðja þessa breytingartillögu og munu gera grein fyrir afstöðu sinni í framsögu við umræður um málið. Kristín Ástgeirsdóttir styður ekki þá tillögu að framlög til stjórnmálaflokka verði frádráttarbær til skatts og mun gera nánari grein fyrir afstöðu sinni við umræður um málið.
    Breytingartillögur við 16., 18. og 19. gr. eru til bóta. Ríkisstjórnin hefur samkvæmt yfirlýsingu fallið frá að leggja virðisaukaskatt á fólksflutninga og þjónustu ferðaskrifstofa. Annar minni hluti fagnar þessari stefnubreytingu og að fallist hefur verið á hluta af þeim breytingartillögum sem 2. minni hluti hefur flutt um þetta mál, en minnir á að ekki hefur verið fallist á að fella niður virðisaukaskatt af gistingu eins og er í tillögum 2. minni hluta.
    Síðustu daga hefur verið reynt að leita leiða til að lagfæra þá miklu umbreytingu sem verður þegar virðisaukaskattur er nú lagður á gistirými. Annar minni hluti styður þá breytingu sem lagt er til að gerð verði á 33. gr. ef því verður hafnað að fella virðisaukaskatt af gistingu niður. Annar minni hluti mun leggja fram sérstakar breytingartillögur og skila séráliti.
    Varðandi breytingartillögur 2. minni hluta, sem fluttar eru á þskj. 410, skal vísað til nefndarálits á þskj. 409. Talsmenn 2. minni hluta munu gera nánari grein fyrir þessum tillögum við umræður um málið.

Alþingi, 20. des. 1993.



Halldór Ásgrímsson,

Kristín Ástgeirsdóttir.

Finnur Ingólfsson.


form., frsm.