Ferill 405. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 405 . mál.


609. Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefndar Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) fyrir árið 1993.

I. ALMENN STARFSEMI


    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir EFTA. Þingmannanefndin hefur í gegnum árin haft frumkvæði að ýmsum aðgerðum EFTA, t.d. að upptöku fríverslunar með fisk og ákvörðunar um að opna EFTA-skrifstofu í Brussel. Umsvif og starfsemi nefndarinnar hafa farið vaxandi síðan samningar hófust um Evrópska efnahagssvæðið (EES) árið 1989.
    Þingmannanefndin heldur fundi nokkrum s innum á ári. Á milli funda hittist dagskrárnefnd þingmannanefndarinnar, en hún gerir eins og nafnið bendir til tillögur að dagskrá og verkefnum þingmannanefndarinnar. Í dagskrárnefnd sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-landi. Í Íslandsdeildinni hefur auk formanns einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi dagskrárnefndarinnar. Innan þingmannanefndarinnar eru starfandi þrír vinnuhópar, vinnuhópar um landbúnað og fisk, fjármál og umhverfismál og hittast þeir yfirleitt í tengslum við fundi þingmannanefndarinnar. Í upphafi árs var skipting Íslandsdeildarinnar í vinnuhópa eftirfarandi:

    Vinnuhópur um fjármál:     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,
    til vara:               Guðrún Helgadóttir.
    Vinnuhópur um umhverfismál:     Páll Pétursson,
    til vara:               Össur Skarphéðinsson.
    Vinnuhópur um landbúnað og fisk:     Eyjólfur Konráð Jónsson,
    til vara:               Páll Pétursson.

    Í september var Vilhjálmur Egilsson kjörinn formaður vinnuhóps um landbúnað og fisk. Í október stokkaði Íslandsdeildin upp þátttöku sína í vinnuhópum og skipting er nú eftirfarandi:

    Vinnuhópur um fjármál:     Guðrún Helgadóttir,
    til vara:               Gísli S. Einarsson.
    Vinnuhópur um umhverfismál:     Eyjólfur Konráð Jónsson,
    til vara:               Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
    Vinnuhópur um landbúnað og fisk:     Vilhálmur Egilsson, formaður,
    til vara:               Páll Pétursson.

    Jafnframt hefur þingmannanefnd EFTA á undanförnum árum haft samskipti við Evrópuþingið og hafa þau samskipti aukist og orðið æ veigameiri hluti starfsins vegna undirbúnings á gildistöku EES og undirbúnings fyrir stofnun þingmannanefndar EES. Þá hefur þingmannanefnd EFTA einnig samstarf við ríki Mið- og Austur-Evrópu, en það samstarf hefur einnig aukist að undanförnu vegna aukinna viðskiptatengsla og samninga við þessi ríki.
    Hvert EFTA-ríki má senda fimm aðalmenn og tvo áheyrnarfulltrúa á fundi þingmannanefndarinnar þótt Íslandsdeildin nýti heimildina alla jafna ekki til fulls. Á 114. löggjafarþingi í maí 1991 voru Eyjólfur Konráð Jónsson, Guðrún Helgadóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Páll Pétursson, Vilhjálmur Egilsson og Össur Skarphéðinsson tilnefnd af þingflokkum til setu í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA á yfirstandandi kjörtímabili. Vilhjálmur Egilsson var kjörinn formaður deildarinnar. Í júní hvarf Össur Skarphéðinsson úr Íslandsdeildinni er hann tók við ráðherraembætti. Gísli S. Einarsson tók sæti hans í deildinni í október. Belinda Theriault, alþjóðaritari Alþingis, er ritari Íslandsdeildarinnar.
    

II. STARFSEMI ÁRSINS 1993


    Umsvif og starfsemi á árinu báru merki þess aukna vægis sem þingmannanefnd EFTA hefur öðlast innan EFTA á undanförnum árum. Á árinu 1993 var miklum tíma þingmannanefndar EFTA varið til að undirbúa gildistöku samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Þingmannanefndin eyddi töluverðum tíma í samskiptum við þjóðþing EB-ríkja til að þrýsta á um staðfestingu samningsins. Mestur tími fór þó í undirbúning fyrir þátttöku í þingmannanefnd EES og samninga við Evrópuþingið. Þar sem grundvallarmunur er á skipulagi, starfsháttum og umboði Evrópuþingsins annars vegar og þingmannanefndar EFTA hins vegar þurfti að leggja mikla vinnu í undirbúning að sameiginlegri þingmannanefnd, m.a. í starfsreglur, í undirbúning á ótal framkvæmdaratriðum vegna funda og síðast en ekki síst þurfti að ræða starfssvið og áherslur í væntanlegu samstarfi. Jafnframt var mikil áhersla lögð á að ræða væntanlegt samstarf þjóðþinga og ríkisstjórna EFTA-ríkjanna vegna EES-mála á undirbúningsstigi. Voru þessi mál rædd og þróuð á öllum fundum þingmannanefndar EFTA á árinu, á fundum með þingmönnum frá Evrópuþinginu og á fundi með ráðherrum EFTA-ríkjanna. Í lok ársins var komin föst skipan á flest þessi mál þó að vissulega þyrfti EES-starfið að þróast. Þrátt fyrir hina miklu áherslu á EES-mál rækti þingmannanefnd EFTA einnig samstarfið við ríki Miðog Austur-Evrópu og hélt með fulltrúum þeirra tvo stóra fundi þar sem skipst var á skoðunum og upplýsingum og rætt um hvernig mætti auka samstarf þessara ríkja við EFTA. Hér á eftir fer samantekt á fundum þingmannanefndar EFTA á árinu.

a.     14. fundur dagskrárnefndar.
    Dagskrárnefnd hélt sinn fyrsta fund á árinu 15. janúar. B.O. Johansson, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, skýrði frá áhrifum niðurstöðu svissnesku þjóðaratkvæðagreiðslunnar á EES. Rætt var um afleiðingar hennar fyrir starfsemi þingmannanefndar EFTA. Rætt var um samstarf við ríki Mið- og Austur-Evrópu og gerð áætlun um tvo fundi með fulltrúum þeirra á árinu. Ákveðið var að halda fund dagskrárnefndarinnar í Reykjavík í maí. Rætt var um að vinna markvisst að því að hvetja þjóðþing EB-ríkja til að staðfesta EES-samninginn og voru lögð drög að því að senda sendinefndir út af örkinni til þeirra þinga sem líklegust væru til að draga staðfestinguna. Fundinn sótti fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

b.    Fundur vinnuhóps um landbúnað og fisk, annar fundur vinnuhóps um umhverfismál, þriðji fundur vinnuhóps um fjármál og 30. fundur þingmannanefndar EFTA.
    7.–8. mars sl. voru haldnir fundir á vegum þingmannanefndar EFTA í Genf. Við vinnukvöldverð 7. mars hélt Ulf Dinkelspiel, Evrópumálaráðherra Svía, ræðu um framvindu EES-mála og gafst nefndarmönnum færi á að bera fram fyrirspurnir til hans, en Svíar fóru á þessum tíma með formennsku í EFTA. 8. mars voru haldnir fundir í öllum vinnuhópum nefndarinnar.
    Þriðja fund vinnuhóps um fjármál sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Guðrún Helgadóttir. Svisslendingur hafði gegnt formennsku í hópnum en sagði af sér í kjölfar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Sviss þar sem aðalverkefni vinnuhópsins er að fjalla um fjármál Eftirlitsstofnunar EFTA. Kjósa varð nýjan formann og var Jörn Donner frá Finnlandi kjörinn. Á fundinum voru ræddar breytingar á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA vegna brotthvarfs Sviss, auk þess sem starfslýsing fyrir vinnuhópinn og starf hópsins á þessu ári voru rædd.
    Annan fund vinnuhóps um umhverfismál sat fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson. Fundarmenn fengu upplýsingar um þá löggjöf sem á döfinni væri vegna EES. Í umræðum um starfið fram undan var samstarf við umhverfisnefnd Evrópuþingsins. Þá var rætt um að einstakir þingmenn í vinnuhópnum styrktu tengsl sín við starfsbræður sína í Evrópuþinginu.
    Fund vinnuhóps um landbúnað og sjávarútveg sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Páll Pétursson og Eyjólfur Konráð Jónsson, auk ritara. Ossi Tuusvuori frá skrifstofu EFTA ræddi landbúnaðarþátt fríverslunarsamninga EFTA við Mið- og Austur-Evrópuríki. Prófessor Richard Baldwin ræddi um EFTA og ríki Mið- og Austur-Evrópu með tilliti til landbúnaðarmála í framtíðinni.
    Fundur þingmannanefndarinnar hófst að loknum fundum vinnuhópa og sóttu hann af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Guðrún Helgadóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Páll Pétursson, auk ritara.
    Stærsta mál fundarins var skipting sæta Liechtenstein og Sviss í þingmannanefnd EES milli annarra EFTA-landa. Í þingmannanefnd EES eiga EFTA-ríki 33 sæti. Þar sem Sviss tekur ekki þátt í EES þurfti að skipta þeim sex sætum á milli annarra EFTA-ríkja sem Sviss átti að fá í sameiginlegu þingmannanefndinni. Þar sem Liechtenstein tekur a.m.k. ekki strax þátt í EES þurfti einnig að skipta upp þeim tveimur sætum sem það átti að fá. Íslandsdeildin lagði mikla áherslu á að Ísland, sem áður hafði fengið úthlutað þremur sætum í nefndinni, fengi eitt sæti í sinn hlut af þessum viðbótarsætum. Ágreiningur varð um það hvort Ísland ætti að fá aukasæti frá Sviss, sem yrði þá eitthvað til frambúðar, eða frá Liechtenstein sem hugsanlega yrði að skila strax á næsta ári aftur til Liechtenstein. Eftirfarandi tillaga um heildarskiptingu sæta í nefndinni var að lokum samþykkt með 14 atkvæðum Svía, Finna og Austurríkismanna gegn 10 atkvæðum Íslands og Noregs: Austurríki og Svíþjóð 8 sæti, Finnland 7 sæti, Noregur 6 sæti, Ísland 4 sæti. Ef Liechtenstein gengur í EES láta Finnland og Ísland af hendi eitt sæti hvort til Liechtenstein.
    Rætt var um leiðir til að þrýsta á þing EB-ríkja til að staðfesta EES samninginn með skjótum hætti. Samþykkt var að þingmannanefndin ritaði þingum EB-ríkja bréf. Einstakir nefndarmenn voru hvattir til að senda bréf til pólitískra samherja sinna á þingum EB-ríkja. Þá var ákveðið að þingmannanefndin sendi sendinefndir til þeirra þinga þar sem mikil óvissa ríkir um tímasetningu á staðfestingu.
    Aðstoðarframkvæmdastjóri GATT, Charles R. Carlisle, ræddi stöðu viðræðnanna í Úrúgvæ-lotunni og svaraði fyrirspurnum þingmanna.

c.     Fundur þingmannanefndar EFTA með þingmönnum frá Mið- og Austur-Evrópu.
    21. og 22. apríl var haldinn fundur á vegum þingmannanefndar EFTA með þingmönnum þeirra Mið- og Austur-Evrópuríkja sem EFTA hefur gert fríverslunarsamninga við. Fundinn sátu þingmenn frá öllum aðildarríkjum EFTA og frá Tékkneska lýðveldinu, Slóvakíu, Póllandi, Búlgaríu, Rúmeníu og Ungverjalandi. Auk þess sátu fundinn framkvæmdastjóri EFTA og fulltrúar ýmissa stofnana. Fundinn sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Páll Pétursson, auk ritara Íslandsdeildarinnar.
    Fyrri daginn var fundurinn í fyrirlestrarformi með fyrirspurnum og umræðum. Seinni daginn var unnið í vinnuhópum og í lokin voru niðurstöður kynntar. Íslandsdeildin skiptist þannig í vinnuhópa:

    Ungverjaland     Vilhjálmur Egilsson, formaður vinnuhópsins
    Pólland               Páll Pétursson
    Slóvakía             Eyjólfur Konráð Jónsson
    Tékkneska lýðveldið     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir    

    Í upphafi fundarins voru fríverslunarsamningar EFTA við ríki Mið- og Austur-Evrópu kynntir og eins samningar EB við þessi ríki. Þá var skýrt frá fríverslunarsamningi sem Ungverjaland, Pólland, Tékkneska lýðveldið og Slóvakía hafa gert sín á milli. Þingmenn frá Mið- og Austur-Evrópu veittu upplýsingar um gang mála hjá þeim við að breyta hagkerfum sínum og hvernig gengi að ljúka nauðsynlegri lagasetningu vegna breytinga yfir í markaðshagkerfi. Rætt var um viðskipti Austur- og Vestur-Evrópu út frá sögulegum forsendum og hagvaxtarmöguleikum Mið- og Austur-Evrópuríkja.
    Þá var rætt um ýmis vandamál í samskiptum Austur- og Vestur-Evrópu á sviði viðskipta. Var í þessu sambandi m.a. rætt um upprunareglur, kosti fjölþjóðasamninga fram yfir tvíhliða og hvort það gæti hugsanlega verið raunhæfur valkostur fyrir ríki Mið- og Austur-Evrópu að gerast aðilar að EFTA og EES í stað þess að sækjast eftir inngöngu í EB á allra næstu árum. Margir fulltrúar Mið- og Austur-Evrópu lýstu yfir óánægju með að markaðir í Vestur-Evrópu væru eins lokaðir og raun bæri vitni og að ríki þeirra væru beitt óréttmætum viðskiptahindrunum. Þeir töldu Vesturlandabúa vera fylgjandi frjálsri verslun í orði en ekki á borði. Flestar þær vörur, sem þessi ríki gætu flutt út með góðum árangri, kæmust af ýmsum ástæðum ekki inn á markaði Vestur-Evrópuríkja. Töldu þeir að opnir markaðir væru besta „efnahagsaðstoðin“ sem þeir gætu fengið.
    Meðal niðurstaðna vinnuhópa var nauðsyn þess að ryðja viðskiptahindrunum enn frekar úr vegi á milli Austur- og Vestur-Evrópu, t.d. fyrir vörur eins og stál, vefnaðarvörur og landbúnaðarvörur. Áhersla var lögð á jafnræði milli samstarfsaðila, sérstaklega að Vestur-Evrópuríki tækju ekki einhliða ákvarðanir um t.d. að banna innflutning á vörum frá Austur-Evrópu án þess að hafa fyrst samráð við viðkomandi samstarfsríki. Jafnframt var áhersla lögð á að þróa samstarf á meðal þingmanna. Voru hugmyndir um að stofna sameiginlega vinnuhópa og að halda árlegan þingmannafund ræddar. Þátttakendur voru sammála um að hugsanleg aðild ríkja Mið- og Austur-Evrópu að EFTA væri einn þeirra valkosta sem skoða þyrfti og var lagt til að hann yrði ræddur á næsta fundi þingmannanefndar EFTA með þingmönnum frá Mið- og Austur-Evrópu.
d.    15. fundur dagskrárnefndar.
    16. maí var haldinn fundur í dagskrárnefnd í Reykjavík. Fundinn sóttu fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson og Guðrún Helgadóttir, auk ritara. Fundurinn með fulltrúum ríkja Mið- og Austur-Evrópu var metinn með tilliti til næsta fundar með þingmönnum þessara ríkja. Þá var rætt um staðfestingarferilinn vegna EES-samningsins og um undirbúining að þingmannanefnd EES.

e.    Aðalfundur þingmannanefndar EFTA, fundur í vinnuhóp um landbúnað og sjávarútveg og fundur með þingmönnum frá Evrópuþinginu.
    28. júní var aðalfundur þingmannanefndar EFTA haldinn í Bergen. Á aðalfundinum var kjörinn nýr formaður, Inger Pedersen frá Noregi, og varaformaður Jörn Donner frá Finnlandi. Í ávarpi sínu lagði fráfarandi formaður, Nic Grönvall, til að nefndin lýsti yfir stuðningi við þá hugmynd að Sviss fengi áheyrnaraðild að fundum þingmannanefndar EES. Fékk sú tillaga góðan hljómgrunn.
    Rætt var um starfsreglur þingmannanefndar EES. Ákvörðun um hvernig skyldi haga atkvæðagreiðslum var helsta vandamálið í því máli. Ágreiningur var um hvort einfaldur meiri hluti þeirra 66 þingmanna, sem sitja í nefndinni, skuli nægja í atkvæðagreiðslum, eða hvort meiri hluti verði að vera fyrir hendi bæði EFTA og EB megin.
    Ákveðið var að allir héldu fimm fulltrúum í hinni gömlu þingmannanefnd EFTA. Þannig heldur Alþingi fimm sætum í þeirri nefnd þó að það hafi einungis þrjú sæti í hinni sameiginlegu þingmannanefnd EES.
    Fyrir fund þingmannanefndarinnar var haldinn fundur í vinnuhóp þingmannanefndarinnar um landbúnaðarmál. Auk þeirra sem sitja í hópnum var fulltrúum Evrópuþingsins boðið að sitja fundinn. Á fundinum voru landbúnaðarmál í Noregi kynnt. Fyrir hönd Íslandsdeildarinnar sátu fundinn Vilhjálmur Egilsson og Páll Pétursson, auk ritara.
    29. og 30. júní var haldinn sameiginlegur fundur þingmannanefndar EFTA og hluta þeirra þingmanna Evrópuþingsins sem sitja munu í hinni sameiginlegu þingmannanefnd EES. Rætt var um þann efnahagslega ávinning sem aðildarlöndin gætu haft af EES-samningnum. Skoraði fundurinn á þau þjóðþing, sem ættu eftir að staðfesta samninginn, að gera það hið fyrsta.
    Rætt var um nauðsyn þess að nýta sameiginlegu þingmannanefndina til að tryggja lýðræðislegt eftirlit með lagasetningu á EES-svæðinu og tryggja pólitískt framlag lýðræðislega kjörinna fulltrúa aðildarþjóðanna.
     Rætt var m.a. um hvort nefndin eigi að starfa sem ein heild eða í tvennu lagi í atkvæðagreiðslum, hvort hún þyrfti að hittast oftar en tvisvar á ári, hvort áhersla ætti að vera á starfi í pólitískum hópum, hvort fundir sameiginlegu þingmannanefndarinnar ættu að vera opnir og hvernig nefndir Evrópuþingsins og vinnuhópar þingmannanefndar EFTA gætu unnið saman.
    Fundina sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar: Vilhjálmur Egilsson, formaður Íslandsdeildarinnar, Páll Pétursson, Guðrún Helgadóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Eiður Guðnason, auk Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildarinnar.

f. Fundur dagskrárnefndar þingmannanefndar EFTA og fundir í vinnuhópum.
    Dagskrárnefndarfundur var haldinn 15. september. Rætt var um staðfestingu EES-samningsins í þjóðþingum EB-landa og ákveðið var að þingmannanefndin beindi kröftum sínum að því að reyna að hafa áhrif á franska þingið. Áfram var unnið að undirbúningi þingmannanefndar EES, farið yfir drög að starfsreglum nefndarinnar og skipulag almennt af hálfu þingmannanefndar EFTA. Ákveðið var að Vilhjálmur Egilsson tæki við formennsku í vinnuhóp um landbúnað og fisk. Þáverandi formaður Johan Løken frá Svíþjóð var að hætta þingmennsku og var Vilhjálmur Egilsson formlega kjörinn formaður á fundi vinnuhópsins næsta dag.
    Formaður umhverfisnefndar Evrópuþingsins ásamt nokkrum nefndarmönnum komu á fund vinnuhóps þingmannanefndar EFTA um umhverfismál til að ræða ýmis mál sem nefndin væri að fjalla um. Jafnframt lagði skrifstofa þingmannanefndar EFTA fram nýjar upplýsingar um lagasetningu á sviði umhverfismála innan EB. Vilhjálmur Egilsson og Páll Pétursson sóttu fundina af hálfu Íslandsdeildarinnar.

g.    32. fundur þingmannanefndar EFTA, fundir í vinnuhópum og fundur með þingmönnum frá Mið- og Austur Evrópu voru haldnir 18.–19. október.
    Fund vinnuhóps um landbúnað og sjávarútveg sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson, formaður vinnuhópsins, og Páll Pétursson. Rætt var um afstöðu Frakka til GATT-viðræðnanna.
    Fjórða fund vinnuhóps um umhverfismál sátu fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Eyjólfur Konráð Jónsson. Farið var m.a. yfir stöðu lagasetningar á sviði umhverfismála hjá EFTA-ríkjunum gagnvart EES-samningnum og hugsanleg áhrif GATT-samningsins á umhverfismál.
    Fjórða fund vinnuhóps um fjármál sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Guðrún Helgadóttir og Gísli S. Einarsson. Farið var yfir drög að fjárhagsáætlun 1994 fyrir Eftirlitsstofnun EFTA, auk þess sem upplýsingar voru veittar um fjárhagsáætlanir EFTA-dómstólsins og skrifstofu EFTA.
    Á 32. fundi þingmannanefndar EFTA var farið yfir stöðu EES-samningsins og afgreiðslu hans hjá ríkjum EB. Ákveðið var að þingmannanefnd EES hittist sem fyrst eftir að samningurinn tæki gildi og að fundur yrði þá væntanlega í janúar. Aðstoðarframkvæmdastjóri GATT kom á fundinn og ræddi stöðu GATT-viðræðnanna.
    Fundurinn með fulltrúum ríkja Mið- og Austur-Evrópu var að þessu sinni með fulltrúum frá ríkjum sem EFTA hefur gert samstarfssamninga við. Fundurinn hófst með erindum um ýmsa þætti samstarfsins. Jafnframt gerðu gestir grein fyrir efnahagsástandinu í sínum heimalöndum. Þá skýrði þingmaður frá Evrópuþinginu annars vegar og Norðurlandaráði hins vegar frá samstarfi EB og Norðurlandaráðs við ríki Mið- og Austur-Evrópu. Fulltrúi Norðurlandaráðs á þessum fundi var Hjörleifur Guttormsson. Vilhjálmur Egilsson skýrði gestum frá starfsemi þingmannanefndar EFTA og frá fyrirhugaðri samvinnu þingmanna innan EES. Þá var fundarmönnum skipt niður í vinnuhópa þar sem rætt var m.a. um leiðir til að auka samskipti og með hvaða hætti EFTA-ríki gætu helst aðstoðað þessi ríki í efnahagsumbótum sínum. Skipti Íslandsdeildin þannig með sér verkum:

    Litáen              Guðrún Helgadóttir, formaður vinnuhópsins
                            Eyjólfur Konráð Jónsson
    Lettland          Páll Pétursson
    Eistland          Vilhjálmur Egilsson
    Albanía          Gísli S. Einarsson
    Slóvenía     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
    
    Í lokin kynntu vinnuhópar niðurstöður sínar. Öll hafa þessi ríki áhuga á að ná fríverslunarsamningi við EFTA sem fyrst og kom m.a. fram að mörg þeirra hafa einnig áhuga á að ganga í EFTA og taka þátt í EES.
    Fulltrúar á fundinum skrifuðu undir stuðningsyfirlýsingu við áskorun til Serba um að sleppa úr haldi þingmönnum frá Kósóvó sem hnepptir hafa verið í fangelsi og sætt hafa pyndingum. Áskorunin var lögð fram af forseta albanska þingsins sem var þátttakandi í fundinum.

h.    Fundur formanna landsdeilda þingmannanefndar EFTA og fundur með þingmönnum sem sitja munu fyrir hönd Evrópuþingsins í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EES.
    Fundur þessi var haldinn 2. desember til undirbúnings fyrsta fundi þingmannanefndar EES. Þar sem þingmannanefnd EFTA hafði ekki tekið ákvörðun um hverjir sitja ættu í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EES fyrir hennar hönd var ákveðið að formenn landsdeilda nefndarinnar sætu fundinn. Fyrir hádegi hittust þingmenn EFTA-ríkjanna og ræddu afstöðu sína til þeirra mála er til umræðu yrðu um eftirmiðdaginn með fulltrúum Evrópuþingsins. Voru mörg framkvæmdaratriði rædd, starfsreglur fyrir þingmannanefnd EES og starfsemi hennar og starfsáætlun. Norðurlandaráð hafði farið fram á að fá áheyrnaraðild að þingmannanefnd EES, en ákveðið var að takmarka áheyrnaraðild við Liechtenstein og Sviss. Ákveðið var að benda Norðurlandaráði á að fundir þingmannanefndar EES væru opnir og að ráðið gæti fylgst með fundum að vild.

i.    33. fundur þingmannanefndar EFTA, 9. fundur með ráðherraráði EFTA og fundur vinnuhóps um landbúnað og fisk.
    16.–17. desember sl. voru haldnir fundir á vegum þingmannanefndar EFTA í Vínarborg. Fundina sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson, formaður Íslandsdeildarinnar, Guðrún Helgadóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Gísli S. Einarsson og Páll Pétursson, auk ritara Íslandsdeildarinnar.
    Norðmenn hafa farið með formennsku í þingmannanefndinni frá síðasta aðalfundi í júní 1993. Í kjölfar kosninga í Noregi um haustið skipti norska stórþingið um fulltrúa í nefndinni og varð því að kjósa nýjan formann. Haakon Blankenborg, þingmaður Verkamannaflokksins norska, var einróma kjörinn.
    Farið var yfir drög að starfsreglum fyrir nýju EFTA-nefndina og þingmannanefnd EES. Ákveðið hefur verið að í þingmannanefnd EES verði sætaskipan eftir stjórnmálaflokkum og að atkvæðagreiðslur miði við aukinn meiri hluta, eða 2 / 3 hluta atkvæða allra sem sitja í sameiginlegu nefndinni. Fjórir þingmenn frá EFTA og fjórir frá Evrópuþinginu munu skipa framkvæmdastjórn þingmannanefndar EES. Þar sem fimm EFTA-ríki eiga aðild að samningnum hefur verið gert samkomulag um að það land, sem ekki fær fulltrúa í framkvæmdastjórn, fær aðalframsögumann EFTA-ríkjanna í þingmannanefnd EES.
    Rætt var um samstarf við ríki Mið- og Austur-Evrópu. Ákveðið var að fulltrúar þingmannanefndar EFTA reyni að heimsækja Slóveníu og Ungverjaland á næsta ári. Jafnframt var rætt um að halda fund með fulltrúum allra samstarfsríkja EFTA í Mið- og Austur-Evrópu á næsta ári.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var rætt um starfsaðferðir vegna EES-mála í þjóðþingunum sjálfum. Rætt var um væntanlegar starfsaðferðir hinna mismunandi þjóðþinga EFTA-ríkjanna vegna EES-mála er koma munu til þinganna eftir að samningurinn hefur tekið gildi og var upplýsingum frá hverju þjóðþingi dreift. Sérstaklega var rætt um hvernig ætti að nálgast mál á undirbúningsstigi, um samráð ríkisstjórna við þjóðþingin og hvaða aðilar innan hvers þings mundu fjalla um ný EES-mál er þau kæmu til afgreiðslu í þingunum. Starfsaðferðir verða nokkuð mismunandi og ljóst er að fyrirkomulag er á fæstum stöðum fullmótað. Vilhjálmur Egilsson kynnti fyrir hönd Íslands þær hugmyndir sem verið er að ræða innan Alþingis og dreift var á ensku stuttri samantekt úr greinargerð þeirri er Þorsteinn Magnússon tók saman fyrir utanríkismálanefnd um þinglega meðferð EES-mála á Alþingi.
    Á 9. fundi þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA rifjaði Wolfgang Schüssel, formaður ráðherraráðs EFTA og efnahagsmálaráðherra Austurríkis, upp EES-ferilinn og þakkaði þingmönnum þeirra framlag við að koma samningnum í höfn. Rætt var um framtíð EES og EFTA og skiptust þingmenn og ráðherrar á skoðunum. Schüssel sagði EES mjög mikilvægt öryggisnet fyirr þau EFTA-ríki sem sótt hefðu um aðild að EB. Þá taldi hann mikilvægt að EFTA héldi áfram að vinna að því að lækka viðskiptahindranir almennt. Hann sagði jafnframt samskipti við Mið- og Austur-Evrópu vera stærsta verkefnið fram undan fyrir EFTA. Almennt töldu menn mjög mikilvægt að efla samskipti og viðskipti við Mið- og Austur-Evrópuríki, en skiptar skoðanir voru um það hvort einhver þessara ríkja ættu erindi í EFTA í bráð. Rætt var um að Evrópa þyrfti að verða eitt stórt fríverslunarsvæði í framtíðinni.
    Á fund vinnuhóps um landbúnað og fisk kom dr. Harald Kreid, sendiherra og aðalsamningamaður Austurríkismanna á sviði landbúnaðarmála í aðildarviðræðunum að ES (áður EB), og fjallaði um aðildarviðræður Austurríkismanna að ES með tilliti til landbúnaðarmála. Jafnframt var rætt um nýgerða GATT-samninga og áhrif þeirra á landbúnaðarmál.

j.     Annað.
    Innan Evrópuþingsins starfar svokallaður Kengúruhópur (The Kangaroo Group, The Movement for Free Movement) sem vinnur að frjálsum flutningum á sem flestum sviðum innan Evrópu. Hefur hópurinn boðið þingmönnum úr þingmannanefnd EFTA að sitja ráðstefnur sínar. Kengúruhópurinn hélt mjög vel heppnaða ráðstefnu í Reykjavík 17.–18. maí um stækkun EB með bæði innlendum og erlendum framsögumönnum. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sóttu fundinn Vilhjálmur Egilsson, Páll Pétursson, Guðrún Helgadóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Eyjólfur Konráð Jónsson, auk ritara.
    Þingmannanefnd EFTA átti áheyrnarfulltrúa á 42. þingi Norðurlandaráðs sem haldið var í Ósló 1.–4. mars.
    Páll Pétursson var fulltrúi þingmannanefndarinnar á Norðurslóðaráðstefnu Norðurlandaráðs sem haldin var í Reykjavík 16.–17. ágúst.

III. EES-SAMSTARFIÐ


    Þingmannanefnd EFTA hafði í samvinnu við Evrópuþingið frumkvæði að því að í samningnum um EES var gert ráð fyrir sextíu og sex manna sameiginlegri þingmannanefnd (95. gr. samningsins). Hin sameiginlega þingmannanefnd EES á að fara ofan í saumana á nýrri EES-löggjöf á undirbúningsstigi og gefa álit sitt á EES-málum.
    Það hefur verið álit þingmannanefndar EFTA að þjóðþing EFTA-ríkjanna þurfi að huga vel að möguleikum á að hafa áhrif á lagasetningu á EES-svæðinu áður en frumvörp koma til þjóðþinganna þar sem erfitt eða ómögulegt getur orðið að hafa áhrif á málin á því stigi þegar búið er að komast að samkomulagi í sameiginlegu EES-nefndinni. Þess vegna telur þingmannanefnd EFTA mikilvægt að þjóðþingin styðji mjög eindregið við þingmannasamstarf EES þar sem hægt er að hafa áhrif á reglur á undirbúningsstigi. Þá er samstarfið milli þingmanna þjóðþinga EFTA-ríkjanna mjög mikilvægt í þessu sambandi, bæði vegna þess að komið hefur í ljós að upplýsingaflæði til þjóðþinganna frá ríkisstjórnum hefur verið mismunandi á milli landa þannig að upplýsingaskipti milli þjóðþinga eru mikilvæg og vegna þess að nauðsynlegt er að EFTA-ríkin skilji afstöðu hvers annars til mála er koma upp og vinni saman eins og hægt er gagnvart ES.

Samráð við þingmannanefnd EFTA um EES-mál.

    Hugmyndir þingmanna og ráðherra EFTA-ríkjanna um samráð við þingmannanefndina um EES-mál voru ræddar á sameiginlegum fundi þessara aðila í desember. Þingmenn lögðu áherslu á að þingmannanefnd EFTA ætti að vera milliliður milli þjóðþinganna og Evrópuþingsins og á mikilvægi upplýsingaskipta og samráðs milli þingmannanefndar EFTA og fastanefndar EFTA.
    Jafnframt var af hálfu þingmannanefndarinnar lögð áhersla á það að sú hætta væri fyrir hendi að þjóðþingin yrðu áhrifalaus gagnvart nýjum EES-reglum þar sem ekki yrði hægt að gera neinar breytingar á frumvarpi þegar það kæmi til afgreiðslu á þjóðþingunum að loknum löngum og ströngum samningum í sameiginlegu EES-nefndinni. Þau hefðu á því stigi einungis kost á að samþykkja eða hafna frumvarpinu, en mjög erfitt gæti orðið að velja síðari kostinn. Því væri samráð á undirbúningsstigi og skilvirkar starfsaðferðir í þjóðþingunum gagnvart þessum málum mjög mikilvægt. Samráðið við þingmannanefndina er fyrirhuguð á þessa leið:
a.    Um leið og ljóst er innan EES-nefndarinnar að ný lagatillaga innan EB hefur áhrif á EES verði þingmannanefnd EFTA látin vita þannig að hún viti hvaða breytingar eru fyrirhugaðar frá fyrstu stigum málsins.
b.    Fastanefnd EFTA leggur tillögur að nýjum lögum fyrir þingmannanefndina með góðum fyrirvara og óskar eftir innleggi frá henni varðandi stöðu EFTA-ríkjanna. Fastanefndin setur tímatakmörk innan hvers tíma álit EFTA-ríkjanna verður að liggja fyrir. Góð samvinna og hraði á vinnslu munu skipta miklu máli. Þingmannanefndin getur með þessu móti látið fastanefndina vita af málum er kynnu að vera viðkvæm með góðum fyrirvara þannig að hún getur reynt að hafa áhrif á gang mála.
c.    Þingmannanefndin lætur skoðanir EFTA í ljós innan sameiginlegrar þingmannanefndar EES og tryggir að þingmenn Evrópuþingsins skilji afstöðu EFTA-ríkja.
d.    Sameiginlega þingmannanefndin leggur fram skýrslur, ályktanir o.s.frv. til sameiginlegu EES-nefndarinnar til að hafa áhrif á niðurstöður hennar.
    Þess má geta að á dagskrá þingmannanefndar EFTA verður fastur liður fyrir upplýsingar um nýjar EES-reglur á undirbúningsstigi. Kynningu undir þessum lið mun skrifstofa þingmannanefndar EFTA væntanlega annast ásamt fulltrúum þess lands sem er í forustu innan þingmannanefndarinnar.

Alþingi, 18. febr. 1994.



Vilhjálmur Egilsson,

Páll Pétursson.

Eyjólfur Konráð Jónsson.


form.



Gísli S. Einarsson.

Guðrún Helgadóttir.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.