Ferill 408. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 408 . mál.


612. Skýrsla



um störf Vestnorræna þingmannaráðsins árið 1993.

Frá Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins.



1. Kjör fulltrúa í Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins.
    Á fundi Alþingis 21. desember 1992 voru eftirtaldir fulltrúar kosnir til setu í Vestnorræna þingmannaráðinu: Árni Johnsen, Jón Helgason, Karl Steinar Guðnason, Steingrímur J. Sigfússon og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir. Varamenn voru þá kosnir Guðmundur Hallvarðsson, Valgerður Sverrisdóttir, Sigbjörn Gunnarsson, Margrét Frímannsdóttir og Anna Ólafsdóttir Björnsson. Á fundi sínum 18. janúar 1993 kaus Íslandsdeild þingmannaráðsins Árna Johnsen formann og Jónu Valgerði Kristjánsdóttur varaformann.
    Á fundi Alþingis 18. desember 1993 voru eftirtaldir fulltrúar kosnir til setu í Vestnorræna þingmannaráðinu: Árni Johnsen, Jón Helgason, Petrína Baldursdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir. Varamenn voru þá kosnir Guðmundur Hallvarðsson, Valgerður Sverrisdóttir, Sigbjörn Gunnarsson, Margrét Frímannsdóttir og Anna Ólafsdóttir Björnsson. Á fundi sínum 7. janúar 1994 kaus Íslandsdeild þingmannaráðsins Jón Helgason formann og Petrínu Baldursdóttur varaformann.

2. Störf Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins.
    Deildin hélt sex fundi á starfsárinu. Á fundi í febrúar skýrðu fulltrúar flugfélagsins Óðins frá erfiðri fjárhagsstöðu fyrirtækisins og óskuðu eftir stuðningsyfirlýsingu frá ráðinu. Í framhaldi af því var sent bréf til Lánasjóðs Vestur-Norðurlanda og til danska sparisjóðsins Bikuben þar sem lýst var yfir stuðningi Íslandsdeildar við áframhaldandi flugrekstur Óðins á flugleiðum til Grænlands.
    Á fundum ráðsins á árinu var mikið rætt um meðferð þinga og stjórnvalda í löndunum á samþykktum ráðsins og að beiðni Íslandsdeildar gerði skrifstofan samantekt um afdrif þeirra í ráðuneytunum. Í samantektinni kemur m.a. fram að samtals hafa verið gerðar 60 samþykktir, en 21 þeirra frá árunum 1985–87 hefur aldrei komist til umfjöllunar í ráðuneytunum. Af u.þ.b. 40 samþykktum á árunum 1987–92 hafa þrjár samþykktir verið framkvæmdar (tvær um vestnorrænt ár og ein um nemendaskipti), en níu eru enn þá í meðferð á mismunandi stigum í ráðuneytunum. Í samantektinni kemur auk þess fram að nokkuð hefur verið um að samþykktir hafa verið gerðar oft um sama málefnið, t.d. snerust níu af samþykktunum 60 um sjávarútvegsmál, fimm um kjarnorkuver og sex um málefni ungs fólks. Ákveðið var að taka þetta mál upp á níunda ársfundi ráðsins í Færeyjum sumarið 1993.
    Á fundi Íslandsdeildar í júní var rætt um undirbúning ársfundarins og tillögur þær sem ætti að leggja fyrir ársfundinn af hálfu Íslandsdeildar. Auk þess var ákveðið að Jóna Valgerður Kristjánsdóttir yrði fulltrúi Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins á Heimskautsráðstefnu Norðurlandaráðs í Reykjavík 16.–17. ágúst 1993.
    Á miðsvetrarfundi landsdeildarformanna ráðsins, sem haldinn var í Kaupmannahöfn 5. mars 1993, var m.a. rætt um það hvernig best væri að fylgja eftir ráðstefnunum þremur sem haldnar voru í tengslum við Vestnorræna árið 1992, um tímasetningu fyrir ársfundinn 1993 í Færeyjum og hvernig unnt væri að fylgja betur eftir samþykktum ráðsins í löndunum þremur. Auk þess var mikið rætt um fjárhags- og atvinnuástand í vestnorrænu löndunum.
    12. janúar 1994 var á ný haldinn miðsvetrarfundur landsdeildarformanna ráðsins í Kaupmannahöfn. Þar var m.a. til umræðu meðferð samþykkta ráðsins í þjóðþingunum, þátttaka vestnorrænna kvenna í kvennaráðstefnunni „Nordisk Forum“ í Åbo í ágúst 1994, samningur frá september 1993 milli Grænlands og Íslands um ferðamál og fyrirhugaður sumarfundur á Grænlandi 1994.

3. Níundi ársfundur Vestnorræna þingmannaráðsins árið 1993.
    Áttundi ársfundur Vestnorræna þingmannaráðsins var haldinn í Þórshöfn á Færeyjum 21. júní 1993. Hann sóttu af hálfu Íslandsdeildar þingmannaráðsins eftirtaldir þingmenn: Árni Johnsen, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Jón Helgason, Karl Steinar Guðnason og Steingrímur J. Sigfússon. Í allt sóttu 15 vestnorrænir þingmenn ársfundinn. Færeyski þingmaðurinn, Lisbeth L. Petersen, tók við formennsku í ráðinu af Árna Johnsen. Á fundinum fluttu formenn landsdeildanna stuttar skýrslur um störf landsdeildanna á árinu. Fyrir hádegi voru almennar umræður með þátttöku flestra þingfulltrúanna og eftir hádegishlé hófst umfjöllun um tillögurnar sex sem fyrir þinginu lágu og voru þær allar samþykktar að umfjöllun lokinni. Auk þess var samþykkt ein yfirlýsing. Um efni þeirra vísast til þingsályktunartillögu þeirrar sem lögð var fram á Alþingi 17. desember 1993, 300. mál þingsins.
    Ákveðið var að halda tíunda ársfund þingmannaráðsins í Ilulissat á Grænlandi sumarið 1994.

Alþingi, 18. febr. 1994.



Árni Johnsen,

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir,

Jón Helgason.


form.

varaform.



Petrína Baldursdóttir.

Steingrímur J. Sigfússon.